13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg get verið ánægður yfir því, að hv. þm. Borgf. er að myndast við að smátaka það aftur, sem hann bar fram með miklum þjósti hjer í hv. deild í dag. Þetta er skynsamlega gert af honum, en þó á hann eftir að standa reikningsskap á nokkrum af hinum óviðurkvæmilegu ummælum sínum.

Þessi hv. þm. gaf í skyn, að jeg hagaði mjer ekki sæmilega þá sjaldan er jeg kæmi í hv. deild. Jeg legg það óhræddur undir dóm deildarinnar, við hvaða rök þessi orð hv. þm. hafa að styðjast. Jeg vil spyrja hann, hvort honum sje svo mikil ánægja að því að hafa mig hjer í deildinni, að hann ætlist til, að jeg vanræki störf mín í háttv. Ed., þar sem jeg á að greiða atkv. — Hann sagði, að jeg skammaði alt og alla, hvenær sem jeg liti hingað inn. Jeg legg þetta undir úrskurð deildarinnar og veit, að hún dæmir þessi ummæli ósönn og ósæmileg. Hitt er sannara, að þessi hv. þm. getur aldrei talað um nokkurt mál hjer á þingi — jeg veit ekki, hvernig hann er á heimili sínu — án þess að skrúfa sig upp í einhvern svarra, sem alls ekki fer honum vel.

Hv. þm. var hróðugur yfir því að hafa hlotið lofsamleg ummæli hjá hæstv. forsrh. Jeg skil nú ekki, að þau ummæli hafi verið alvarlega meint. (PO: Jú, jú). Ef svo hefir verið, þá er víst, að hv. þm. hefir ekki átt það lof skilið, slíka þverúð, sem hann hefir sýnt við afgreiðslu fjárlaganna. Jeg held, að hjer eigi við: „Þeir, sem búa í þessu húsi, breyta öðruvísi en þeir tala“. Hv. þm. þykist verða forviða, ef einhver gerist svo djarfur að koma með hógværar aths. við það, sem hann segir, og þykist einn hafa vit á öllu. En hjer hefir honum brugðist bogalistin æðioft.

Jeg þarf ekki að endurtaka það, sem jeg sagði í dag, er jeg hnekti ummælum hv. þm. Röksemdir mínar voru tölur, sem standa fastar. Það, sem jeg sagði um styrki til einstakra manna, sjerstaklega námsmanna, var alt rjett, og þótt hv. þm. bæri mikið lof á skjólstæðing sinn, munu aðrir hv. þm. geta sagt hið sama um sína skjólstæðinga, að þeir sjeu efnilegir og styrks verðir.

Hv. þm. þóttist hafa fært rök fyrir því, að 400 þús. kr. tekjuhalli væri á fjárlögunum. Jeg skil ekki í, að hann treysti svo á sljóleika hv. þm., þótt þeir hafi nú vakað í nokkrar nætur, að hann ætli þeim að trúa þessu. Það er beinlínis fáránleg blekkingartilraun að segja, að lán, sem eiga að borgast á mörgum árum, hafi áhrif á fjárlögin, nema afborganir og vextir. Þannig eru röksemdir hv. þm., að þær hrynja í rústir óðar og við þeim er hróflað.

Úr því að hv. þm. ljet sjer sæma að fara að tala hjer um skopmyndir, þá verð jeg að segja það, að þeim mönnum, sem við þá iðju fást, hljóta að vera allmjög mislagðar hendur, úr því að þeir hafa ekki valið sjer svo ákjósanlega fyrirmynd sem hv. þm. Borgf. Þó getur þetta stafað af því, að slíkar myndir eru venjulega af merkum mönnum, en þeir herrar, sem hafa sjer þessa myndagerð til lífsframdráttar, eru ekki svo djúpt sokknir enn, að þeir seilist svo langt til fyrirmynda að nota hv. þm. Borgf., fyr en þá síðar, er þessar myndir eru orðnar hversdagslegar.

Jeg hefi þá ekki meira að segja við þessari „stuttu“, löngu aths. hv. þm., enda er hann nú steindauður og varla hætta á, að hann gangi aftur. En ef svo færi, hygg jeg, að hann yrði allægilegur og enn verri en í lifanda lífi. Myndi ekki mega segja með sanni um hann, að hann væri „hávaðamaður, illur viðskiftis og hinn mesti gapuxi“, eins og sagt var um mann einn á landnámsöld?