09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3344 í B-deild Alþingistíðinda. (3164)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Jón Ólafsson:

Við 1. umr. þessa frv. gerði jeg grein fyrir skoðun minni á málinu í heild, og jeg held, að ekkert af því, sem jeg sagði þá, hafi verið hrakið. Hefir og fátt komið fram nýtt í málinu, er svara þarf, enda er tilgangur frv. slíkur, að ekki var raka að vænta frá hálfu flm. þess.

En af því að jeg býst við, að talsverður hluti hv. þdm. sje frv. fylgjandi, vil jeg nú undir lok umræðunnar draga fram nokkur meginatriði málsins.

Það er mín skoðun, að atvinnuvegir landsmanna, og þá sjerstaklega þeir tveir atvinnuvegir, sem flestir lifa á, eigi að standa hlið við hlið og rjetta hver öðrum hjálparhönd, þegar með þarf. Ef annar aðalatvinnuvegurinn er illa staddur, er ekki nema rjett og sjálfsagt, að hinn taki á sig meira en venjulega af skattabyrðinni, meðan sá ver stæði er að komast úr kreppunni. Jeg geri ráð fyrir, að þetta sje meginreglan fyrir hugsunarhætti flestra hv. þm. En ef svo er ekki, og ef upp kemur á milli atvinnuveganna einhverskonar metingur um að greiða nauðsynlega skatta, þá er voði á ferðum. Og sömuleiðis er voði á ferðum, ef farið er að heimta það af einum atvinnuvegi öðrum fremur, að hann fullnægi öllum kröfum, sem til hans kunna að vera gerðar, hvort þær eru sanngjarnar eða ekki. Það er heldur ekki sanngjarnt að gera tvent í einu, ætlast til þess, að hann beri meginhluta opinberra gjalda, og gera honum jafnframt sem erfiðast fyrir að bera þau. Það verður jafnan öllum atvinnuvegum farsælast að bera hver annars hagsmuni fyrir brjósti.

Vegna þessa ber að gjalda varhuga við öllu því, sem hnekt getur aðstöðu atvinnuveganna til bjargar landi og lýð. Og það er m. a. með þetta fyrir augum, að jeg er á móti þessu frv. Jeg er andvígur því, að þessu sje smeygt inn í löggjöfina, til þess eins að ala á þeim óholla hugsunarhætti að heimta mikið, en draga úr því, að kraftar manna fái að njóta sín. Það þarf að vera til sameiginlegur skilningur allra, sem að fyrirtækjunum vinna, á því, sem nauðsynlegt er fyrir framfarir þjóðarinnar í heild sinni. Og það er skylda allra þeirra, sem með opinber mál fara, að standa á móti því, að hnekt sje framkvæmdaviðleitni manna, spilt fyrir atvinnu þeirra, sem dug vilja sýna, og þeim gert ómögulegt að starfa.

Þá skal jeg minnast á þessa 2 tíma, sem á að bæta við hvíldartíma hásetanna. Þessi breyting sýnist ekki vera mikið atriði, þegar fljótt er á litið. En jeg hefi athugað þetta mál gaumgæfilega og komist að þeirri niðurstöðu, að eigi að fást sama afkast og áður eftir hverja skipshöfn, verði að bæta við hana 4 mönnum um saltfiskstímann og 2 mönnum á meðan veitt er í ís. En fjögurra manna viðbót eykur útgjöldin um 38 kr. á dag. Og ef gert er ráð fyrir, að skipið veiði í salt alt árið, vex útgerðarkostnaðurinn um 12 þús. kr., ef mannahaldið er aukið sem hjer segir. En veiði nú skipið hálft árið í ís og bæti þann tíma aðeins á sig 2 mönnum, má draga 1/3 af upphæðinni, og færa hana niður í 8 þús. kr. En minni kostnaðarauka getur lenging hvíldartímans ekki haft í för með sjer fyrir útgerðina.

Venjulega er kvartað undan því, þegar nýir skattar eru lagðir á atvinnufyrirtæki. Og það er eðlilegt. Menn hafa áhyggjur út af því, að þær hinar nýju álögur muni verða til þess, að fyrirtækin beri sig ekki. Enginn veit fyrirfram, hve örlát náttúran muni verða og hve mikill fengurinn muni reynast. En það mætti háttv. þdm. vera ljóst, að sjá muni á útgerðinni, þegar á hana er lagður aukaskattur ekki minni en frv. fer fram á. Og minni verða framlög hennar til vegabóta, síma og annara nytsamlegra framkvæmda, þegar lagðar eru á hana aðrar eins kvaðir, og það að óþörfu. Og afleiðingin verður sú, að aðrir atvinnuvegir, sem ekki mega þó við því, verða að taka á sig þyngri byrðar en áður.

Hv. aðalflm. þessa frv. (SÁÓ) ætti að vera það kunnugt, ef hann nenti eða vildi athuga, að þessi liður, kaup mannanna, er það eina, sem hreyfanlegt er í útgerðarkostnaðinum. Opinberum gjöldum verður ekki breytt, og verðið fyrir afurðirnar er undir markaðinum komið. Ef á að leggja kvöð á þennan eina hreyfanlega lið, og svo framarlega sem útgerðin á að halda áfram, verður það að koma niður á verkakaupinu. Á því lenda öll skakkaföll útgerðarinnar og kvaðir. Sje þetta athugað, er augljóst, að af frv. getur leitt meira þjóðarböl en hægt er að sjá í fljótu bragði. Á því er lítill vafi, að það mundi leiða af sjer kaupdeilur og vinnuteppu. Allir muna, að slíkt hefir komið fyrir áður og kostað þjóðina miljónir, eftir útreikningi kunnugra manna. Vænti jeg, að hv. þdm. gefi ekki tilefni til þess, að þeir atburðir endurtaki sig.

Það er mikill misskilningur, að þeim mönnum, sem hjer er um að ræða, sje meira erfiði boðið en öðrum. Hásetar á togurum fá yfirleitt miklu meiri svefn að meðaltali en sjómenn á öðrum fiskiskipum. Jeg ætla, að þeir sofi ekki að jafnaði minna en 8 tíma á sólarhring í hverri veiðiferð.

Jeg verð enn að minnast á fleira, sem mjer virðist koma þessu máli við, og það eigi alllítið. Mjer dylst ekki, að því bregður ósjaldan fyrir, að sumir menn leggja hatur á togaraútgerðina. Þeir halda, eða láta a. m. k. svo, að með henni sje að safnast óhóflega mikið fje á hendur einstakra manna. Jeg sýndi fram á það þegar við 1. umr. þessa máls, að svo er ekki. Samt halda flm. þessa frv. áfram að ala á því, að hjer sje að verða til hættulegt auðmagn. Jeg get nú sagt þeim það bæði um mig og hv. 2. þm. G.-K., að við höfum síst af öllu skorast undan að leggja fram sanngjarnlega til opinberra þarfa. Og jeg vil nú beina því til þeirra hv. þm., sem við höfum styrkt til þess að sjá fjárhag ríkisins sæmilega borgið, að þeir ljái nú lið sitt til þess að fella haturs- og hjegómamál þetta og koma þannig í veg fyrir, að útgjöld útgerðarinnar sjeu aukin að þarflausu.

Jeg vænti, að svo verði litið á þetta mál, að ekki sje ástæða til að hafa horn f síðu þess atvinnuvegar, sem lætur af mörkum ríkulegan hluta til framkvæmda ríkisins — þess atvinnuvegar, sem nú hefir helst skilyrði til að hrinda því áfram, sem nú getur kallast mál málanna, nefnilega jarðræktinni. Undir ræktun landsins er framtíð þjóðarinnar að miklu leyti komin. Og síst vinna þeir menn gott verk, sem draga úr getu sjávarútvegsins til að styðja hana.

Jeg mun nú brátt láta útrætt um þetta mál. Og jeg ætla að leiða hjá mjer að svara goluþyt þeim, sem jeg þykist eiga von á úr vissri átt. Tel jeg meiri alvöru en svo á ferðum hjer, að hirða beri um lítilfjörlegt gaspur. Ekki vil jeg fyrir hönd togaraútgerðarinnar mælast undan rjettmætum álögum. En mig uggir, að hjer sje aðeins byrjunin á því að skattleggja hana á þennan hátt. Og hvernig lítst hv. deild á það að ala upp hina komandi kynslóð í þeirri trú, að hún eigi sem minst að vinna, en sem mest að heimta. En nú er svo komið, að ekki þarf lengra að leita en í algenga vinnumanna- eða vinnukonustjett til að finna dæmi þess, að bestu og friðsömustu húsbændur geta ekki komist af við vinnufólkið fyrir ódygð þess og ótrúmensku. Og þessu valda fyrst og fremst áhrif þeirra uppeldisfeðra, sem þykjast beita sjer fyrir málstað alþýðunnar.

Núlifandi kynslóð hefir tekið við landinu í litlu betra — og að sumu leyti verra — horfi en það var í á landnámstíð. Á fáum áratugum hefir mikið á unnist. En ef nú á að fara að draga úr því, að menn neyti krafta sinna, þá er þjóðin illa farin, og þá er hætt við, að stundir líði þangað til hún nær með tærnar þangað, sem aðrar þjóðir hafa hælana. Hjer er alvara á ferðum. Sú hætta er yfirvofandi, að sá hugsunarháttur, sem kemur fram í frv., gegnsýri allan þjóðarlíkamann. Það er að vissu leyti gott að þurfa lítið að vinna og fá mikið kaup. Og eðlilegt er, að hin vinnandi stjett hlusti með feginleik á orð þeirra manna, sem um slíka hluti tala, en afleiðingarnar koma fram á niðjunum.