09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3358 í B-deild Alþingistíðinda. (3167)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Jeg skal segja hv. 2. þm. G.-K. það til lofs, að það er hægt að ræða við hann um það mál, sem fyrir liggur. Hv. þm. fór ekki út í það, að hrekja röksemdir mínar um aukningu aflabragðanna, enda var það ekki hægt. Hagskýrslurnar sýna 1200 skpd. árið 1919 og eykst síðan aflinn með hverju ári, að undanteknu árinu 1926. En jeg gaf þær upplýsingar í sambandi við árið 1926, að þá voru úthaldsdagar ekki nema 79, en árið 1927 voru þeir 176. Þetta ár var hið lakasta að aflabrögðum, ekki af því, að afli væri í sjálfu sjer tregur, heldur af því að skipunum var skemur haldið úti en venjulega. Árið 1927 enda meðalafli á skip. Þá var skipunum haldið úti lengri tíma og þar af leiðandi meiri afli.

Jeg skal gefa hv. frsm. minni hl. rjett í því, að aflinn miðast ekki eingöngu við úthaldstímann. Það er margt fleira, sem stuðlar að því. En það sýnir, að meiri vinna er int af hendi, að auknum afla er skilað í lest.

Eitt merkilegt atriði kom fram hjá háttv. þm., sem jeg átti ekki von á. Hann er meðmæltur 8 tíma hvíld. (ÓTh: Ef hún er nauðsynleg). En hann vill ekki lögleiða hana. Þetta er hin herfilegasta meinloka. Hann heldur, að 8 tíma hvíld kæmi af sjálfu sjer, ef hún er nauðsynleg. 6 tíma hvíldin hefði aldrei orðið almenn, ef hún hefði ekki verið lögboðin. Það þarf ekki nema einn gikkinn í hverri veiðistöð. Það kann að hittast einn rjettlátur af 20, sem lætur fólk sitt fá skynsamlega hvíld. Svo var það áður en vökulögin gengu í gildi, að það voru einn eða tveir skipstjórar, sem ljetu háseta sína hvílast eftir að hafa unnið sólarhringinn út.

Jeg skal minna háttv. 2. þm. G.-K. á það, sem hann sagði við mig einu sinni eftir að lögin um 6 tíma hvíld háseta á togurum voru komin á og reyndust öllum til góðs. Þá ljet hann svo um mælt í mín eyru, að hann hefði farið eftir öðrum og því verið á móti, en ekki sjálfur persónulega þekt til, hvort þessi lög mundu reynast happadrjúg eða ekki. Hann var svo hreinskilinn að játa þetta og viðurkenna skammsýni sína. — Jeg hygg, að sama verði nú uppi á teningnum. Háttv. þm. fer enn sem fyr eftir tillögum annara, en hefir sjálfur ekki persónulega reynslu í þessum sökum. Hann hefir aldrei verið úti í skipunum, þegar vinna fer fram. Hann ætti að sigla nokkra „túra“ og vinna með körlunum. Þá mundi hann taka öðruvísi í þetta mál. Jeg hefi trú á, að háttv. þm. sje svo hreinskilinn, að hann vilji kannast við þetta.

Hve mikil aukahvíld er á togurunum, fer eftir atvikum. Stundum er hún dálítil, oftast nær engin. Því þarf að tryggja með löggjöf, að sjómennirnir fái fasta hvíld, svo að heilsu þeirra sje ekki ofboðið. Það er heimild í lögunum fyrir því, að kalla megi alla menn á þilfar til þess að koma fyrir fiski í lest, er sjerstakar ástæður eru til.

Jeg sýndi fram á það áðan, að lögboðinn 6 tíma svefn var svo fjarri því að hafa reynst útgerðinni baggi, að hann hefir þvert á móti gefið stórkostlegan gróða í aðra hönd. Nú er farið fram á 2 tíma viðbótarhvíld fyrir hvern mann á sólarhring, til þess að hver háseti geti fengið 6–7 tíma svefn. Mannfjöldi á skipunum verður eftir sem áður hinn sami. Og reynslan mun sýna, að það kemst eins mikill fiskur í lest fyrir því. Menn eru skarpari í vinnubrögðum, er þeir hafa sofið eðlilegan svefntíma. Hásetar á togurum verða að vinna eins og orkan leyfir stanslaust. Þeir eru áreiðanlega búnir að fá sig fullþreytta eftir 16 klt. Fái þeir svo að hvílast nokkurnveginn eftir þann sprett, verða þeir þeim mun frískari í næstu lotu.

Jeg verð að halda því fram, að reynslan hafi sýnt og sannað, að hjer fari saman hagsmunir útgerðarinnar og þægindi sjómannanna.

Útgerðinni hefir vegnað svo vel undanfarið hvað aflabrögð snertir, og þó að verð á fiski hafi eitthvað lækkað, þá hlýtur hún að standa fastari fótum nú en útgerðarmenn láta í veðri vaka. Það er altaf verið að flagga með því í útlendum blöðum, hve geysilegur afli það sje, sem togararnir íslensku sigla þar inn með. En hjer gengur barlómur útgerðarmanna fjöllunum hærra: ekkert nema tap. Jafnvel Danir hafa hug á að setjast að krásinni af því hve glæsilega gengur með aflabrögðin hjer. Það er ekkert smáræði, þegar hæsta aflaskipið flytur á land 10 þús. skpd. af fiski. Það hlýtur að vera stórgróði á slíkri útgerð, sem betur fer. Allflestir útgjaldaliðir útgerðarinnar hafa lækkað síðan á lággengistímunum, kol, salt og matvæli, alt hefir þetta lækkað, og kaupið fer stórlega lækkandi árlega. Samt kemur altaf sama upphæðin á móti í andvirði fiskjarins. Jeg er ekki að lasta það. Jeg er ánægður yfir því, að vel gengur og útgerðin gefur þjóðarbúinu tekjur. En um leið ætti hún að geta gert svo vel við þá, sem að henni vinna, að þeir geti lifað heilbrigðu menningarlífi. Togaraútgerðin hjá okkur er nú á því stigi, að hún ætti að geta það, ef viljinn er til.

Þá skal jeg ekki hafa lengri formála fyrir þessu. Ræða hv. frsm. minni hl. var hógvær og er fátt að hrekja. Það gleður mig, að í hjarta sínu sjer hann og viðurkennir, að þessi hvíld er nauðsynleg. Það get jeg sagt honum til lofs fram yfir stjettarbræður hans. (ÓTh: Þetta held jeg sje oflof).