09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3375 í B-deild Alþingistíðinda. (3171)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Jón Auðunn Jónsson:

Háttv. frsm. meiri hl. hjelt því fram, að skipstjórarnir á togurunum hefðu haft óhófleg laun, sem ekki væru í neinu samræmi við laun annara skipverja. Það má nú vel vera, að finna mætti rjettari mælikvarða á kaup þessara manna. En þó vil jeg upplýsa það, að hjá því fjelagi, sem jeg hefi starfað við, hefir skipstjórinn aldrei haft meira en tæp 15 þús. kr. þau þrjú ár, sem það hefir starfað. Laun hans hafa verið minst 9800 kr. og mest 14700 kr. þessi þrjú ár. Framkvæmdarstjórinn hefir haft 6000 kr. laun „brúttó“. Þar af hefir hann orðið að greiða húsaleigu, ljós, hita, síma og alla aðstoð á skrifstofunni, svo að „nettó“-launin hafa aldrei farið fram úr 4000 kr., en það er ekki meira en laun háseta hafa orðið með lifrarhlut, ef talið er, að þeir hafi atvinnu 9 mánuði af árinu, og auk þess vitanlega fæði.

Það, sem lesið var hjer upp úr útlendu tímariti um afla þessa manns, sem hjer gerði út togara árið 1925, sannar í rauninni ekkert. Afli togarans þennan 4½ mánuð, sem skipinu var haldið úti, mun alls hafa orðið 1200 skippund. Jeg vildi aðeins leiðrjetta þetta.

Hvað laun skipstjóranna snertir, þá hygg jeg, að þau sjeu nú alment nær því, sem jeg nú hefi skýrt frá, að þau sjeu hjá því fjelagi, sem jeg hefi starfað við, en 30 þús. kr. Slík laun hygg jeg, að enginn skipstjóri hafi, nema þá að óvenjulega mikið aflist, svo að „premía“ verði mjög há.

Annars mun nú ekki þýða að fjölyrða mikið um þetta mál, eftir ræðu hv. þm. V.-Ísf. að dæma, með því að ætla má, að hann hafi talað fyrir hönd síns flokks, því að ef svo er, er auðsætt, að úrslit málsins eru ráðin.