09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3384 í B-deild Alþingistíðinda. (3174)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Jóhann Jósefsson:

Jeg skal ekki vera langorður. En jeg held helst, að það sje óhætt að segja hæstv. dómsmrh. það, að honum hefði verið sæmra að hlusta á þá menn, sem hjer hafa talað í gegn því frv., sem um er að ræða, áður en hann greip til þess óyndisúrræðis að nota stórkostlegt sjóslys, sem hjer hefir átt sjer stað, til þess að vekja andúð á móti þeim mönnum, sem hafa talað í gegn því, að lögleiddur aukinn hvíldartími væri nauðsynlegur.

Hv. 2. þm. G.-K. undirstrikaði það greinilega í sinni ræðu, að það væri ekki verið að deila um það hjer, hvort menn vildu unna sjómönnunum þeirrar hvíldar, sem nauðsynleg væri, heldur væri verið að deila um það, hvort nauðsynlegt væri að lögbjóða þennan minsta hvíldartíma. Jeg held að mjer sje óhætt að fullyrða það, að við, sem höfum lagst á móti þessu frv., höfum ekki með daglegri framkomu okkar sýnt það, að við bærum nokkuð þyngri hug til sjómannastjettar þessa lands heldur en hæstv. dómsmrh., og vil jeg í því efni vísa á ummæli í þingtíðindunum, sem hæstv. dómsmrh. sjálfur hefir haft um Sjómannastjett landsins, sem ekki er hægt að má út, þegar hann hefir verið að kalla þá veiðiþjófa. (Dómsmrh. JJ: Eru það hásetarnir?). Hæstv. ráðh. hefir ekki dregið neina undan, þegar hann hefir verið að tala um það. Það er svo ósæmilegt að draga sjóslys inn í þessar umræður, enda engum ætlandi nema hæstv. dómsmrh. (Dómsmrh. JJ: Kom það illa við kaunin?). Það kom ekkert illa við nein kaun hjá mjer. Mjer er óhætt að fullyrða það, að jeg hefi að baki mjer það starf fyrir sjómannastjett þessa lands, sem hefir verið þeim hollara en alt skraf hæstv. dómsmrh. En annað eins endemi og hent hefir hæstv. dómsmrh., sem kemur hjer skyndilega inn í deildina, hendir fáein orð á lofti og fer svo að glóða með ósæmilegan áburð á okkur, mótstöðumenn þessa frv., mundi gera það að verkum, að allir stæðu undrandi, ef það væri ekki einmitt þessi hæstv. ráðh., sem hjer væri að verki, en allir vita, að úr þeirri átt er von á þeim ummælum, sem engum öðrum dettur í dug að viðhafa, hvorki í þessu máli nje öðrum.