09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3405 í B-deild Alþingistíðinda. (3180)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Jóhann Jósefsson:

Það er einkennilegt við þessar umr., að þær hafa, eins og hv. þm. V.-Ísf. tók rjettilega fram, verið mjög stillilegar, alt til þess er það kom fram, að hjer mundi vera að ræða um fyrirfram gerð samtök milli Framsóknar og jafnaðarmanna um að hrinda þessu máli í gegn. En þá fór að koma meiri æsing í umr., og kendi þess allgreinilega hjá hv. þm. Ísaf. Jeg get nú ekki kannast við það að hafa hrópað svo hátt á sannanir í fyrri ræðu minni. Jeg hefi aðeins haldið því fram, að það væri ennþá ósannað, að þörf væri á aukinni löggjöf í þessum efnum, og við það stend jeg. Jeg geri ekki ráð fyrir, að þeir, sem fara með stjórn ísl. togaranna, standi útl. togaraskipstjórum svo neðar að mannkostum, að þess sje þörf, að löggjafinn ákveði frekar um hvíld á þessum skipum. Til að byrja með fóru þeir að vísu óvarlega. Þeir voru óvanir skipunum og kunnu sjer ekki hóf. Nú mun sanni nær, að þeir hafi öðlast þann þroska, að það sje fullkomlega óhætt að láta þá leggja frá landi með skipverja sína án frekari íhlutunar frá löggjafans hálfu en orðið er.

Hv. 4. þm. Reykv. vildi draga í efa, að það væri rjett, sem jeg sagði um kaupgjald á þýskum togurum. Jeg skal láta, að jeg hefi þetta ekki úr neinum skýrslum, heldur úr viðtali við þýska sjómenn, sem sumpart hefir átt sjer stað síðastl. viku. Jeg vildi vita, hvernig þetta væri hjá þeim, með hliðsjón af því, sem hv. 4. þm. Reykv. hefir sagt um þetta. Þetta gerði jeg alveg hlutdrægnislaust og fer jeg hjer með rjett mál, því jeg hermi það eins og mjer hefir verið sagt það. Jeg er þess fullviss, að það er rjett, sem jeg hefi sagt, að þeir (skipstjórarnir þýsku) fá 6% af „nettó“-afla skipsins, eins og þeir kalla það, en sem við mundum kalla „brúttó“, því aðeins dregst frá uppboðs- og uppskipunarkostnaður. Jeg hefi aldrei sagt, að útl. togaramenn fengju ekkert landleyfi, en hitt sagði jeg, að ísl. togaramenn hefðu lengra frí í landi, og stafar það af eðlilegum ástæðum, því þegar skipin sigla til Englands, tekur það ætíð 2 vikur. Þennan tíma fá þeir full laun, og eru það þægindi, sem engir útlendingar hafa.

Hv. þm. Ísaf. var að vitna í það, sem við höfum tekið í nál. okkar úr nál. meiri hl. sjútvn. á síðasta þingi. Jeg held nú, að það sje vart treystandi á það, að fjárhagur útgerðarinnar hafi breytst svo mikið til batnaðar frá í fyrra, að yfir höfuð megi ekki segja það sama og þá. Eftirtektarvert er það, að sami maður, sem nú er í meiri hl. nefndarinnar og leggur til, að frv. verði samþ., hjelt því fram í fyrra, að ef aukinn væri hvíldartími. hlyti kaupið að lækka. Þetta er núverandi formaður nefndarinnar. Hann leit svo á í fyrra, að útgerðin stæði það höllum fæti, að ófært væri að leggja á hana nýja bagga, sem mundu óhjákvæmilega leiða af sjer lækkun kaupgjalds. Nú finst honum öðru máli að gegna.

Hv. þm. Ísaf. var harðorður út af því, sem stendur í nál. minni hl., að hæpið sje að treysta staðhæfingum þeirra, er hvorki vinna verkið sjálfir nje greiða fyrir það, en eiga þó sjerhagsmuna að gæta, og þótti hart, ef þar væri átt við meiri hl. sjútvn. En jeg veit ekki betur en hv. frsm. nefndarinnar eigi sjálfur sjerhagsmuna að gæta, þar sem hann er á launum hjá Sjómannafjelagi Reykjavíkur.

Annars mætti yfirleitt minna þessa hv. þm. á, að þau eiga enn við orðin, sem Bjarni Jónsson frá Vogi hafði um flokksbróður þeirra, er hann talaði um þá menn, sem stæðu utan við atvinnureksturinn, en skriðu eftir breiðum bökum alþýðunnar upp í valdasessinn.

Úr því að nú er upplýst, að samband er komið á milli tveggja flokka um að málið gangi fram, er til lítils að hafa um það fleiri orð. Síst af öllu ætti að vera þörf á að draga inn í umræðurnar þá sorglegu atburði, sem hjer gerðust fyrir nokkrum dögum, eins og hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Ísaf. hafa látið sjer sæma.

Jeg verð enn að minna á, að frá báðum hinum flokkunum (Framsókn og jafnaðarmönnum) hafa fallið ummæli um það, að sjómannastjett okkar sje atgerfisstjett og sómasamleg, eins og við minnihl.menn höfum sagt. Þau orð hljóta einnig að ná til skipstjóranna. En það er vantraust á þeim, að setja þessi lög þeim til höfuðs, og í því vil jeg ekki eiga nokkurn þátt. Jeg trúi því fastlega, að íslenskum veiðiskipstjórum sje eins trúandi fyrir hásetunum eins og útlendum stjettarbræðrum þeirra.