29.03.1928
Efri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3415 í B-deild Alþingistíðinda. (3189)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. meiri hl. (Erlingur Friðjónsson):

Nefndin gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Nd. og eins og það var borið fram þar í fyrstu, því engin breyting hefir verið gerð á frv. frá byrjun. Minni hl. hefir þó ekki skilað neinu áliti, og jeg tel mig ekki hafa ástæðu til að ganga út frá því, að hann greiði atkv. gegn málinu. Jeg vil að minsta kosti vænta þess, að hv. minni hl. líti frekar hlýlega til þessa frv., með því að í honum er heilsufræðingur, sem jafnframt er formaður verkalýðsfjelags. Þetta mál snertir svo mjög verkalýð þessa lands. Það hefir legið fyrir undanförnum þingum og verið mikið rætt í báðum deildum þingsins, og virðist því ekki ástæða til að fara mjög mikið út í það hjer að þessu sinni, einkum þar sem ekki virðist um ákveðinn klofning að ræða í nefndinni.

Þar sem þetta mál hefir nú fengið svo góða afgreiðslu frá hv. Nd., þrátt fyrir miklar umr. og deildar skoðanir, þá vona jeg, að þessi háttv. deild sjái sjer einnig fært að samþ. frv. óbreytt og afgr. það sem lög.

Ef engin andmæli koma fram, býst jeg ekki við, að jeg taki til máls aftur.