13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

1. mál, fjárlög 1929

Gunnar Sigurðsson:

* Svo stendur á, að þótt fjárl. sjeu hjer á dagskrá, hefir Titanmálið allmjög dregist inn í umr. Mjer er alveg óskiljanleg sú breyting, sem orðið hefir á afstöðu hv . þm. til þess máls síðan í fyrra.

Fyrir mjer horfir málið eins við nú og þá. Jeg hefi aldrei haft mikla trú á, að úr framkvæmdum yrði hjá því fjelagi, og ávalt talið æskilegast, að við Íslendingar gætum lagt brautina sjálfir. Jeg vil benda á það, að Möller telur, að járnbrautin muni borga sig eftir 10 ár. Annars er jeg engu vantrúaðri á Titan nú en í fyrra. Hv. 1. þm. Árn. (JörB) sagði, að fjelagið ætti að leggja fram 4 milj. kr. nú þegar til að leggja brautina fyrir. Voru hv. þm. nú svo einfaldir í fyrra að halda, að fjelagið kæmi með 4 milj. kr. án þess að því væri veitt sjerleyfið? Það væri sama og heimta peninga út úr banka, áður en víxillinn kemur.

Jeg get fyrirgefið stj., þótt hún neiti um sjerleyfið, en þá tel jeg, að hún hafi skuldbundið sig til að ráða málinu til lykta á annan hátt. Jeg hefi ekki skrifað undir yfirlýsinguna, ekki af því, að jeg telji, að hún muni gera ógagn, heldur af því, að jeg tel hana þýðingarlausa. En jeg hefi ekki viljað leggja málið undir dóm stjórnarinnar án þess, að hún tæki um leið á sig þá skyldu að aðhafast eitthvað í járnbrautarmálinu. Stj. er heldur ekki öll á sama máli. Hæstv. forsrh. er á sömu skoðun og hann var í fyrra, en hæstv. fjmrh. er á gagnstæðri skoðun við hann. Jeg hefi bent á þá leið, að fjelagið setji tryggingu, 100–200 þús. kr., fyrir því, að það hefjist handa innan ákveðins tíma, t. d. missiris, og missi ella allan rjett. Með þessu móti ætti að vera fyrir það girt, að tjón hlytist af að veita sjerleyfið, eða að sómi landsins biði hnekki við það.

Jeg verð að harma það, hve óákveðinn hæstv. atvmrh. var í ummælum sínum. Hann kvaðst skyldi taka málið til athugunar, en þetta hefir verið sagt áður, og þýðir lítið að athuga málið á hverju þingi, ef ekkert er gert í því. Vona jeg, að engir Sunnlendingar sjeu svo heillum horfnir, að þeir styðji þá stjórn, sem er á móti þessu nauðsynjamáli þeirra, járnbrautarmálinu. Þegar jeg var í Framsóknarflokknum fyrir fjórum árum síðan, var það mál á stefnuskrá hans, enda fer vel á, að svo sje. Jeg skal svo aðeins endurtaka það, að neiti hæstv. forsrh. nú að veita þetta sjerleyfi, sem jeg er honum þó sammála um, að rjett sje að gera eins og nú standa sakir, þá lít jeg svo á, að hann hafi þar með tekið á sig ábyrgð á því að hrinda áfram á einhvern hátt þessu mikla þjóðþrifamáli okkar Sunnlendinga. En við munum ekki láta okkur nægja með orðin tóm og einskis nýt loforð. Vil viljum fá efndir þess, sem lofað hefir verið.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.