29.03.1928
Efri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3416 í B-deild Alþingistíðinda. (3190)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Halldór Steinsson:

Jeg hefi ekki sjeð ástæðu til að skrifa nál. fyrir hönd minni hl. nefndarinnar, en skal nú gera grein fyrir minni afstöðu.

Jeg er yfirleitt andvígur allri þvingun á atvinnulífi þjóðarinnar, á hvaða sviði sem er og í hvaða mynd sem hún kemur fram. Enda er svo háttað högum þessa atvinnuvegar, sem hjer um ræðir, að hann þolir engin slík höft, sem leiða af samþ. þessa. frv. Þó að við eigum auðug fiskimið, þá eigum við ekki altaf víst að fá afla, og síst af öllu, að hann sje altaf jafn, og því frekar ríður á, þegar aflinn er nógur, að engar hömlur hvíli á þessum atvinnuvegi, sem dragi úr því, að hægt sje að hagnýta þau gæði, sem berast fátækum landsmönnum í hendur.

Eins er það um heyskap, að það er alls ekki hægt að lögbjóða ákveðinn vinnutíma í sveitinni. Að jafnaði er þó hægt að hafa vinnutímann ákveðinn, en þegar óþurkar hafa gengið lengi og mikil hey eru úti, þá sjá allir, sem til þekkja í sveit, hversu heppilegt mundi reynast þeim atvinnuvegi að hafa fyrirskipaðan ákveðinn hvíldartíma, sem ekki mætti víkja frá. Þess vegna er það, að jeg tel allar slíkar þvingunarráðstafanir óheppilegar fyrir atvinnulíf þjóðarinnar, því að þær hafa altaf meiri eða minni hnekki í för með sjer.