29.03.1928
Efri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3417 í B-deild Alþingistíðinda. (3191)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi sjaldan heyrt ræður, sem hafa verið jafnlangt frá efninu og þessi ræða hv. þm. Snæf. Hann var inni í fortíðinni, þegar mest var sóttur hjer sjór á smábátum. (HSteins: Er altaf fiskur á togurunum?). Á togurunum eru menn á sætrjám allan ársins hring, og um það er alt öðru máli að gegna heldur en þegar sóttir eru róðrar á smábátum, þar sem menn venjulega koma að á hverjum degi og þar sem oft eru landlegudagar. Svo talaði hv. þm. um heyskap og þess háttar, en jeg veit ekki til, að þetta frv. snerti neitt slíkt. Það ræðir ekki um neitt annað en vinnuna á togurunum. Mjer gremst, þegar þannig er farið í kringum málið, og slíkt er ekki hægt að kalla annað en blekkingar, þegar menn reyna að skjóta sjer undan því að tala um málið sjálft með því að slá um sig með glamri um annað, sem ekki kemur málinu við. — Þegar þetta mál kom fyrst fyrir þingið, var farið fram á 8 tíma hvíld. Það gekk ekki fram, en nokkru síðar fengust lögin um 6 tíma hvíld. Jeg vil segja það til lofs bændunum, sem þá sátu á þingi, að þeir studdu það mál eins og nú, en ekki útgerðarmennirnir, sem betur þektu til og að sjálfsögðu höfðu fremur ástæðu til þess.

Mig furðar á því, að læknir skuli standa hjer upp til að mótmæla þessu frv. Það er þó kunnugt, hversu læknar hafa lýst því, hvernig sjómennirnir líta út, er þeir koma í land eftir þær óhóflegu vökur, sem verið hafa á togurunum. Það er hart, þegar þeir, sem hafa það sjerstaka hlutverk í þjóðfjelaginu að gæta heilsu manna og heilbrigði, standa upp einir manna hjer í deildinni til að andmæla þessu frv. Þegar samþ. voru lögin um 6 tíma hvíld, höfðu menn helst í huga veiðarnar á Selvogsbanka, og töldu margir, að við þau lög mætti nokkuð una við þær veiðar, en eftir að togararnir tóku að stunda veiðar á hinum svonefndu Halamiðum, var það alment álitið alveg óhjákvæmilegt að auka hvíldartímann upp í 8 stundir. Sjómennirnir, sem ekki eru vanir að fást mikið um sín kjör, segja, að þeir hefðu verið alveg drepnir á Halanum, ef þeir hefðu ekki haft 6 tíma hvíld, en það er ekki nóg, þó það sje betra en það ástand, sem áður var.

Þótt finna megi einn og einn mann meðal þeirra, sem eru óvanir og aðeins hafa starfað stuttan tíma á togurunum, sem gerir sig ánægðan með núverandi ástand, þá er jeg viss um, að langflestir þeirra — Sennilega 99% — óska eftir, að þetta frv. nái fram að ganga. Jeg vænti, að háttv. deild sjái sjer fært að verða við óskum þeirra og samþ. frv.