21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3431 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

112. mál, vörutollur

Jón Baldvinsson:

Mikil er trú hv. 3. landsk. á „autoritetin“, þar sem hann er nú fús til að fylgja frv. í nefnd, af því hann heldur, að fjmrh. eigi þetta frumvarp.

Jeg ætla ekki að fara neitt að deila við hæstv. fjmrh., en jeg býst samt ekki við því, að hann sannfæri mig um, að stefna frv. sje rjett. Jeg þykist hafa gert það upp með sjálfum mjer, hvað jeg tel framtíðarstefnu í þessum málum. Hitt er annað mál, að á meðan verið er að gera tilraunir til að fá tekjur með ríkisrekstri og beinum sköttum, verða einhverjir tollar að haldast, en það er engin viðurkenning á rjettmæti þeirra.

Jeg vil þó benda hæstv. fjmrh. á það, að það er þó sá munur á beinum sköttum og tollum, að í fyrra tilfellinu greiða menn nákvæmlega þann skatt, sem þeim ber, en í síðara tilfellinu greiða þeir líka fyrir innheimtu svo og svo mikið til kaupmannsins. (BK: Ekki ávalt). Jeg veit ekki, hvort það má trúa því, að hv. 1. þm. G.-K. prjediki svo mikla óeigingirni meðal kaupmannastjettarinnar, að þeir geri það fyrir ekki neitt að innheimta tolla ríkissjóðs. (BK: Samkepnin gerir það). Nei, ónei. Ef lagður er tollur á kolin, þá hljóta verslanir að leggja nokkuð álag á tollinn, eins og annan kostnað við vöruna; en ef menn borga beina skattinn, þá er ekkert lagt á það aukreitis.

Jeg ætla ekki að segja annað en þetta að svo stöddu, láta hæstv. fjmrh. vita, að jeg hefi ekki sannfærst af hans ummælum, þótt hæstv. ráðherra segi, að sín stefna sje rjett. Jeg býst ekki við, að hann geti sannfært mig; en hitt er annað mál, hvort hægt er að halda fjárhag ríkisins í horfi að þessu sinni, nema með því að fallast á einhverjar álögur.