07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3453 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

112. mál, vörutollur

Frsm. 1. minni hl. (Jón Þorláksson):

Hæstv. fjmrh. hefi jeg engu að svara. Það voru eitthvað tvö atriði, sem hæstv. ráðh. hafði eftir mjer, en fór ekki alveg rjett með, en það var þó ekki svo verulegt, að jeg finni ástæðu til að gera það að umtalsefni.

Jeg skil vel þá afstöðu hæstv. ráðh., að hann vill hafa sem mestar tekjur, til þess að verða ekki í vandræðum með það starf, sem hvílir á hans herðum, en við þingmenn höfum alveg jafna skyldu til að gæta þess, að ekki verði lagðar þyngri álögur á landsmenn en nauðsyn krefur, eins og að líta til þess, að ríkisbúskapurinn beri sig.

Hv. 5. landsk. fór hjer að deila á Íhaldsflokkinn og mig, án sjerlegs tilefnis, að mjer fanst. (JBald: Jeg las aðeins upp ummæli háttv. þm.). Og hæstv. forsrh., sem ekki hefir verið við umr. hjer, rauk nú upp, er óhætt að segja. Jeg verð að gera þeim ummælum, sem komu frá hv. 5. landsk. og hæstv. forsrh., ofurlítil skil.

Hv. 5. landsk. segir, að Íhaldsflokkurinn lýsi yfir því, að hann vilji stuðla að tekjuhalla á næstu árum, og þetta segir hv. þm. með þeirri árjettingu, að tveir nefndarmenn í fjvn. Nd. hafi undirskrifað það í nál., og hv. þm. vísar svo ennfremur til afstöðu minnar í samskonar máli árið 1922 og í blaða ummæli frá mjer nú þar um, og hv. þm. finst þessi afstaða öll lýsa því, að við viljum stuðla að tekjuhalla á næstu árum.

Jeg var dálítið hissa á því að heyra hv. 5. landsk. fara þannig með frásagnir, að hann skilur eftir eða slítur út úr samhengi í frásögninni atriði, sem skiftir svo miklu máli, að það breytir alveg niðurstöðunni. Við skulum nú athuga, hvað gerðist á þinginu 1922. Jeg bar fram brtt. við fjárlögin um að fá að láta standa þar fjárframlag til lagningar nýjum símalínum, en með þeirri athugasemd, að stjórninni væri heimilt að fella þær framkvæmdir niður, ef ekki væri fje fyrir hendi. Hv. þm. fann út úr því, að jeg hefði viljað skapa tekjuhalla, en tillaga og ummæli mín þá sýna það, að jeg vildi gera það, sem unt væri, til að fá þessu framgengt, en jafnframt sjá við því, að af því þyrfti að hljótast tekjuhalli.

Sama máli er að gegna um þau atriði, er hv. þm. ber á íhaldsmenn í fjvn. Nd. Ágreiningurinn er um það, hvort sitja skuli fyrir þær framkvæmdir, sem stj. fer fram á í sjerstökum lagafrv. að fá fje til, eða þær verklegar framkvæmdir, er veita skal fje til í fjárl. Íhaldssmenn í fjvn. Nd. lýstu því yfir, að þeir mundu styðja fjárframlög til síma, brúa og vega og þess háttar framkvæmda. En þeir vildu aðeins, að stj. neyddist til þess að velja á milli, hvort hún mæti meira að styðja verklegar framkvæmdir, eins og síma, brúa- og vegagerð, eða letigarð og hús fyrir skrifstofur ríkisins o. fl. þess háttar, er leita verður sjerstakrar heimildar til. Það er þetta, sem á milli ber og sem nefndarmennirnir vildu neyða stjórnina til að velja á milli. Um hitt eru allir sammála, að ríkisbúskapurinn eigi að bera sig. En hitt er vafasamt, hvort sjálfsagt er að hlaupa upp og leggja á nýja skatta, þó tekjuhalli verði eitt ár, þegar ekki eru líkur til þess, að það verði áframhaldandi. Og að því er snertir fjárveitingar í fjárl., þá hefi jeg þá skoðun á eðli þeirra, að allar fjárveitingar til opinberra framkvæmda sjeu aðeins heimild fyrir stj. til þess að nota fjeð til þessa, en engin skylda, ef fjeð er ekki fyrir hendi. En því mótmæli jeg sem tilhæfulausu og ómaklegu, að jeg hafi sagt, að jeg vildi stuðla að því, að tekjuhalli yrði á ríkisrekstrinum. Hitt er ekki nema eðlilegt, að Alþýðuflokkurinn sem stuðningsflokkur núverandi stjórnar hjálpi henni að koma í gegn þeim lögum, sem hún vill fá samþ., en sem við, sem erum í andstöðuflokknum, ekki getum fallist á, að sjeu nauðsynleg eða til bóta.

Með þessu hefi jeg líka leiðrjett það, sem hæstv. forsrh. sagði, því að hann virtist aðeins hafa heyrt það, sem hv. 5. landsk. sagði, en ekki það, sem jeg sagði. Og jeg leyfi mjer að vísa því til baka sem tilhæfulausu, að jeg eða aðrir þingmenn Íhaldsflokksins geri okkur meira far um að ráðast á núv. stjórn heldur en þingmannsskylda okkar krefur. Ennfremur mótmæli jeg því, að nokkuð það hafi komið fram hjá íhaldsmönnum eða formönnum þess flokks, er beri vott um óforsvaranlegt ábyrgðarleysi, eins og hæstv. forsrh. komst að orði. Ef borin eru fram frv. um nýjar álögur, þá er þm. bæði rjett og skylt að vera á verði og gæta þess vel, hvort þeirra sje þörf; og í þessu tilfelli hygg jeg, að rök okkar minni hl. sjeu síst lakari en hinna, og því að öllu leyti ástæðulaust að brigsla okkur um skyldubrot.

Jeg geri nú ráð fyrir, að hæstv. forsrh. hafi sagt þetta í fljótfærni og af því að hann hefir tekið orð hv. 5. landsk. trúanleg. En hæstv. ráðh. ætti að vera búinn að læra það af lífsreynslunni, að það er vissara að heyra til beggja málsaðilja áður en dómur er feldur.

Jeg skal svo endurtaka það, sem jeg hefi áður sagt, að málið stendur þannig, að við viljum láta stjórnina velja á milli þeirra verklegu framkvæmda, sem fje er veitt til í fjárl., eða annara framkvæmda, sem veita verður fje til á annan hátt. Þetta álít jeg fullkomlega rjettmætt og lýsir engu ábyrgðarleysi, herra forsætisráðherra.