07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3456 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

112. mál, vörutollur

Jón Baldvinsson:

Jeg skal strax viðurkenna, að hæstv. forsrh. tók vel undir þau atriði, er jeg beindi til stj. í ræðu minni, og jafnframt skal jeg geta þess, að Alþýðuflokkurinn mun fyrst um sinn hjálpa áleiðis þessu tekjuaukafrv. hæstv. stj., með þeim breytingum, er við komum fram með. Síðar á þinginu verður þá tekið til athugunar, hvernig hægt er að losna við þá tolla, er nú íþyngja þjóðinni mest. Við till. hæstv. forsrh. um að skipa nefnd til að rannsaka tollalöggjöfina hefi jeg ekkert sjerstakt að athuga og skal sleppa því að fara frekar út í það mál. Og það skiftir ekki miklu, hvort væntanleg skattanefnd verður skipuð af þinginu eða stjórninni.

Hv. 3. landsk. fann ástæðu til þess að beina nokkrum orðum til mín út af því, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni. En því aðeins mintist jeg á þetta, að mjer fanst það vera einn liður í þessum umr., hvernig afstaða ýmsra mikilsráðandi íhaldsflokksmanna er til þessara mála. Og hefði ekki hv. þm. endurtekið orð sín frá 1922 um að hann skyldi standa á móti, að afgreidd yrðu tekjuhallalaus fjárlög, hefði jeg alls ekki minst á þetta. Jeg hefði þá litið á orðin frá 1922 sem orð sögð í bræði af andstæðing þáv. stjórnar. En þegar hann nú endurtekur þetta í blaði sínu nýlega, hefir maður fyllstu ástæðu til að álykta á þá leið, áð þetta sje ætlun hans og að yfirlögðu ráði gert. Þessu til stuðnings er líka það, að íhaldsmenn í fjvn. Nd. hafa nú einnig látið sömu skoðun í ljós. Jeg hefi alls ekki haldið því fram, að þetta væri ætlun alls Íhaldsflokksins, heldur einstakra manna innan hans. Þar á meðal er hv. 3. landsk., sem er formaður Íhaldsflokksins, og 2 íhaldsmenn í neðri deild.

Jeg þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta. Get ekki sjeð, að það sje nein pólitísk áreitni, þó hv. þm. sje í umr. um fjármál mintur á ummæli, sem hann nú endurtekur eftir mörg ár og virðist standa fast við, og jeg get ekki sjeð, að í þessu sje honum ranglega núið neinu um nasir. (JÞ: Jú, það er gert). Nei, það er ekki. Hann hefir sjálfur fyllilega gefið tilefni til alls þess, er sagt hefir verið viðvíkjandi framkomu hans fyr og síðar.