07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3462 í B-deild Alþingistíðinda. (3215)

112. mál, vörutollur

Frsm. 1. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg get byrjað á því að svara hv. frsm. meiri hl., er jeg svo kalla. Það getur verið, að áfengistollurinn minki eitthvað, en það fer svo mikið eftir árferði, og sennilegt, að hann vaxi eitthvað, er glaðnar í ári, eins og nú er útlit fyrir. Það er satt, að það er varasamt að byggja á árinu 1925, en meðaltalsáætlun minni hl. um 3 undanfarandi ár ætti þó að geta staðist, því hin tvö árin voru óvenjulega tekjurýr.

Þá vildi hv. þm. ekki halda lengur fram veðrabrigðum, en sagði, að það yrði að láta reynsluna tala. Það er líka skynsamlegast. Og jeg skal segja honum, að ef ríkissjóður fær ekki af núv. tekjustofnum 12 milj. kr. á þessu ári, skal jeg játa, að úrskurður reynslunnar fellur honum í vil, en fái hann 12 milj., fellur hann mjer í vil.

Þá hjelt hann, að erfitt væri að sanna, að þeir þungu skattar, sem lagðir voru á 1924, hefðu lamað fyrirtæki og dregið úr getu þeirra til þess að rjetta sig við. Þetta er ekki erfitt að sanna, að minsta kosti ekki hjer á Suðurnesjum; því að hann þarf ekki annað en að fara niður í bankana og spyrja hvern sem er af bankastjórunum, og þeir segja allir sömu söguna, að fyrirtækin hafi öll átt erfitt að rjetta sig við vegna skatta.

Hann talaði um samdrátt sjávarútvegsins. Jeg vona, að ekki þurfi til hans að koma. Rjett er það, að við höfum nú til meðferðar uppástungu, sem mundi hafa slíkan samdrátt í för með sjer, en jeg treysti því, að þó að við verðum ósammála um margt, þá getum við verið sammála um að láta þær till. ekki ganga fram.

Hv. 5. landsk. sagðist ekki hafa haft neina áreitni í frammi með sínum orðum. Nei, ekki með orðum sínum. Áreitni hans var í því falin, að hann slepti því, sem máli skifti, úr þessum ummælum, sem hann hafði eftir, — því atriði, sem alveg afsannaði þá ályktun, sem hann dró. (JBald: Jeg hafði ummælin orðrjett eftir). En hann passaði að lesa ekki of langt. Þetta er áreitni, hvort sem það kemur frá þingmanni eða forsætisráðherra. En jeg verð að halda því fram, að það er ómögulegt með nokkurri sanngirni að finna í því nokkurt ábyrgðarleysi eða ógætni í fjármálum, þó að þingmaður vilji láta standa í fjárlögum fjárveiting til verklegra framkvæmda með þeirri aths., að stjórninni sje heimilt að fella þessar framkvæmdir niður, ef fje er ekki fyrir hendi. Jeg þykist skilja á ummælum hæstv. forsrh., að það sje meiningin að nota þetta til einhvers bráðlega; og jeg skal játa, að það, að fara svona með ummæli, þannig að slept sje úr atriðum, sem skifta svo miklu máli, að niðurstaðan sje gagnstæð því rjetta, það er ekkert annað en beint framhald af þeirri sorglegu blaðamensku, sem hæstv. forsrh. var við riðinn áður en hann settist í þennan virðulega sess. En jeg held jeg hafi gert svo fulla grein fyrir því, að allir hv. þdm. skilji, að jeg hefi hvorki 1922 nje fjárveitinganefndarmenn í Nd. nú verið að orða neitt það, sem ætti að leiða til halla á ríkisbúskapnum. Þvert á móti. Í því, sem jeg sagði og flutti till. um 1922, og eins í því, sem nú kemur fram frá nefndum mönnum í fjvn. Nd., liggur andstaða móti eyðslutill. — eða fjárnotkunartillögum, svo að maður noti hlutlaust orð —, sem stjórnin flutti eða hafði með höndum utan fjárlaga.

Hv. frsm. meiri hl. fanst sókn frá hans hendi og hans manna í þessu máli. Mjer finst hreint ekki hafa komið fram sú eina sókn, sem leitt gæti til nokkurs árangurs. Það stendur ómótmælt, er jeg hefi sagt, að það, sem hjer er um að ræða, er ekki að útvega tekjur til þess að standast útgjöld fjárlaga, heldur að útvega tekjur til útgjalda utan fjárlaga, sem liggja nú fyrir þinginu till. um. Og sókn í þessu máli getur ekki bygst á öðru en því, ef reynt væri að sýna fram á, að þau útgjöld, sem þessi löggjöf fer fram á, sje svo nauðsynleg, að hennar vegna sje rjett að leggja nýja skatta á þjóðina. En það hefir ekki einu sinni verið gerð tilraun til þess í umr. að færa sönnur á þetta.