09.03.1928
Efri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3471 í B-deild Alþingistíðinda. (3220)

112. mál, vörutollur

Frsm. l. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg sagði þessi fáu orð vegna þess, að jeg var dálítið hræddur um, að hæstv. dómsmrh. mundi fella niður þessi ummæli sín, er hann færi að leiðrjetta handrit þingskrifaranna. Þegar hann viðhafði þessi orð, var hann í mjög miklum hita og var gersamlega búinn að sleppa sjer, sem raunar er ekkert óvanalegt. — Hæstv. dómsmrh. byrjaði ræðu sína á því, að jeg hefði sagt ósatt, en síðar í ræðu sinni hafði hann þó upp aftur bæði þessi ummæli, sem jeg hafði viljað skjalfesta, og kannaðist þannig við að hafa sagt þau. Jeg ætla við þetta tækifæri aðeins að benda mönnum á, hve það er viðeigandi að heyra slík ummæli úr ráðherrastóli og hve þau eru sæmandi þeim manni, sem fer með æðstu völdin í landinu. — Jeg get geymt mjer þangað til fjárl. verða hjer til umr. að tala um þær till., er jeg gat um, að fram kynnu að koma við 3. umr. fjárlaganna í hv. Nd. frá íhaldsmönnum þeirrar deildar, en þær till. eru um auknar fjárveitingar til vega- og brúargerða, síma og vita og annara verklegra framkvæmda.

Nú í þessari síðustu ræðu sinni líkti hæstv. dómsmrh. þessum mönnum, er kynnu að gerast svo djarfir að bera fram slíkar till., við verstu ribbalda sturlungaaldarinnar og titlaði þá sem ofsamenn, uppreistarmenn og oflátunga.