28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3480 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

112. mál, vörutollur

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Frv. þetta, sem var borið fram í hv. Ed., fer fram á það, að vörutollinum verði komið í svipað horf og hann var áður en breyting var gerð á honum 1926. Eins og frv. var borið fram í Ed. var gert ráð fyrir því, að tekjuauki sá, sem fengist eftir frv., mundi nema 426 þús. kr. En breytingar, sem á því voru gerðar í Ed., lækka þetta nokkuð, svo nú, eins og frv. liggur fyrir, má gera ráð fyrir því, að þessi tekjuauki muni nema 310 þús. kr. Það, sem því olli, var, að færður var niður tollurinn á kornvöru og salti. Er gert ráð fyrir, að tunnutollurinn nemi 80 þús. kr., en kolatollurinn nemi 230 þús. kr. Jeg þarf ekki að fjölyrða mjög um þetta, þar sem þessi tollur er orðinn mjög kunnur vegna meðferðar undanfarandi þinga, og þarf því ekki frekari fræðslu um hann.

Jeg verð þó að segja það, að þó frv. þetta hefði gengið óbreytt gegnum Ed., þá hefði verið full þörf á þeirri hækkun, sem frv. upphaflega bar í sjer. Fjárlagafrv. var afgreitt svo til Ed., að tekjurnar voru áætlaðar 10108 þús. kr. Frá því má svo draga niðurfærslu þá, sem gerð var á gengisviðauka á kaffi og sykri, sem nemur um 200 þús. kr., svo tekjurnar eins og nú stendur verða ekki nema 9908 þús. kr. — Ef þetta frv. nær fram að ganga, þá bætast þar við 310 þús. kr. Þá kemur verðtollurinn með 463 þús. kr., en sú tala er miðuð við árið 1927, en það er eina árið, sem þægilegt er til samanburðar um þennan toll. Ef þessi 25% hækkun á tekju- og eignarskatti verður samþykt, þá mundi það nema 200 þús. kr. tekjuauka. Eftir þessari áætlun ættu þá tekjurnar að nema alls 10881 þús. kr. Gjöld samkv. fjárlagafrv. eins og það er nú nema 10773 þús. kr. Er það lítið eitt lægra en ætla má, að tekjurnar nemi, ef þessi tekjuaukafrv. verða samþykt öll. En hitt er líka fullvíst, og svo hefir jafnan reynst, að gjöldin fara fram úr áætlun. Það er talið gætilegt að áætla, að þau fari 15% fram úr áætlun. En 15% af 10773 þús. = 1616 þús. kr. Má því ætla, að útgjöldin fari upp í 12400 þús. kr. Jeg býst við, að þetta láti nærri eftir reynslu undanfarandi ára. Tekjurnar þurfa því að reynast um 1½ milj. kr. hærri en áætlunin. Jeg tel ekki skynsamlegt að gera sjer betri vonir um útkomu ársins en það. Það má og minna á, að utan fjárlaga verða útgjöld til ýmsra framkvæmda samþykt, og væri holt að fá nokkurn tekjuafgang til þeirra, svo ekki þyrfti að framkvæma þær með lánum eingöngu. Í gærkvöldi var t. d. samþykt að leggja 800 þús. kr. til landsspítalans á næstu 3 árum. Sá jeg ekki betur en meginþorri þingheims væri því fylgjandi að leggja þann þunga bagga á þjóðina. Og það þeir sömu menn, sem telja, að ekki megi afla ríkinu meiri tekna, vegna þess að þjóðin þoli það ekki. — Eftir þessari áætlun, sem hjer var gerð, er því ekki að vænta mikils afgangs. En þó er enn eftir að bæta tekjuhalla þann, sem orðið hefir á árunum 1926 og 1927. 1926 varð hann um 200 þús. kr., en 1927 má búast við, að hann verði 800 til 1000 þús. kr. Á yfirstandandi ári má enn búast við tekjuhalla. Styðst jeg þar einkum við ummæli fyrv. fjmrh. á þinginu í fyrra, þar sem hann varar þingmenn við að gera sjer glæsilegar vonir um afkomu þessa árs. Bendir hann á, að tekjurnar hafi lækkað um 4 milj. á árinu 1926, „og hví skyldu þær ekki geta haldið áfram að lækka“, segir hann.

Fjhn. hefir nú haft þetta frv. til athugunar, en því miður ekki getað orðið sammála um það. Meiri hl. nefndarinnar leggur til, að það gangi fram, en minni hl., þeir hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. Dal., vill fella frv. Ástæður þessara hv. þm. má sjá á þskj. 589. Þeir láta þess getið snemma í nál. sínu, að afstaða þeirra til þessa frv. sje bygð á útliti því, er var um afgreiðslu fjárlaganna, er atkvæði voru greidd um þetta frv. í fjhn. Þeir gefa samt í skyn, að grundvöllur þessarar afstöðu sje orðinn breyttur, þegar þeir skrifa nál. sitt, en byggja þó nál. á hinum fyrri grundvelli, eða eins og hann var, þegar nefndin klofnaði. Mjer finst nú, að þessir hv. þm. hefðu átt að byggja till. sínar á því, er þeir vissu síðast sannast og rjettast. Annað finst mjer ekki sæmilegt. Meðal annars taka þeir fram í nál., að þeim þyki tekjur ríkissjóðs of lágt áætlaðar, og tilfæra 2 liði því til sönnunar. Jeg hefi nú bent á það, að tekjur þurfi að fara 1½ milj. kr. fram úr áætlun til þess að ríkisreksturinn beri sig.

Þessir tveir liðir, sem hv. þm. taka, eru tekju- og eignarskatturinn og tekjur af áfengisversluninni, og álíta þeir, að hækka megi um 100 þús. kr. hvorn liðinn, eða 200 þús. kr. báða til samans. Tekjur af áfengisversluninni hafa um fjögurra ára bil ekki numið nema 375 þús. kr. að meðaltali á ári. Forstöðumaður áfengisverslunar hefir tekið það skýrt fram og lagt áherslu á það við fjhn., að ekki megi áætla þann lið hærra en gert er í fjárlagafrv. Er því ekki skynsamlegt að færa þann lið upp. Er sú skoðun bygð á því, að notkun áfengis er mikið að minka og að tollurinn fer þar af leiðandi lækkandi. Bendir alt á, að svo muni enn fara. Bindindishreyfingin fer nú mjög vaxandi, og miklu fastari tökum hefir verið tekið á þessu máli af hálfu landsstjórnarinnar en áður var. Er því óhugsandi, að þar verði um tekjuauka að ræða fram yfir áætlun. — Um þennan lið sagði fyrv. fjmrh. á síðasta þingi m. a., að hann hefði sett þann lið hærri í fjárlagafrv. en hann hefði gert, ef honum hefði, þá er hann samdi frv., verið kunnug orðin útkoma ársins 1926. Hann telur því þá lækkun, er fjvn. gerði á liðnum, 50 þús. kr., sjálfsagða. Og þótt fyrverandi fjmrh. sýndi það, að hann vildi áætla tekjurnar varlega, þá hygg jeg þó litlar líkur til, að hjer verði um tekjur fram yfir áætlun að ræða.

Þá gera þessir hv. þm. ráð fyrir því í nál. sínu, að áætla megi tekjur af verðtollinum 500 þús. kr. Ef árið 1927 væri lagt til grundvallar, yrði þessi liður 37 þús. kr. lægri, eða 463 þús. kr., og sýnist ekki varlegt að fara með áætlunina fram úr því. — Þá gerir hv. minni hl. fjhn. enn ráð fyrir 70 þús. kr. hækkun af stimpilgjaldi. En um þann lið er það að segja, að það er fyrst og fremst óvíst, að hann nái fram að ganga, og þótt svo verði, þá er líklegt, að það verði í formi brtt. minni hl. fjhn., og verður þá ekki beinlínis tekjur til ríkissjóðs, heldur til eflingar strandferðunum.

Jeg held jeg hafi þá tekið fram hið helsta, sem jeg tel þurfa. Þetta er alvörumál og mikilsvarðandi fyrir sæmilega afgreiðslu fjárlaganna. Vil jeg því mælast til þess, að hv. þdm. hugsi sig um tvisvar áður en þeir greiða atkvæði móti frumvarpinu.