28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3491 í B-deild Alþingistíðinda. (3234)

112. mál, vörutollur

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Mjer láðist að geta um hækkun á tekjum ríkissjóðs, þeim er minni hl. gerir ráð fyrir. Í samdrætti þeirra 6 ára, er minni hl. tók, er innifalið árið 1925, sem var þrisvar sinnum hærra en þrjú þessara ára, eða m. ö. o. jafnhátt að tekjum og árin 1923, 1924 og 1927. Hvaða vit er í því að taka svona ár með í reikninginn? Helmingur þeirra ára, sem minni hl. tekur til að finna meðaltal teknanna, hafa lægri tekjur en minni hl. gerir ráð fyrir, og þó vill hann hækka tekjuáætlunina 1929.

Þetta þykir mjer ógætilega að farið. Hv. frsm. minni hl. kvaðst hafa farið eftir fjárl. eins og Nd. skildi við þau, og kvaðst ekki vilja láta krefjast þess af Íhaldsflokknum, að hann gengi inn á gerbreytingar í skattalöggjöfinni til að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög. Hjer er um engar gerbreytingar að ræða. Vörutollshækkunin er engin gerbreyting. Fyrirkomulagið er hið sama og áður. Sú eina breyting, sem líklega á sjer stað, verður sú, að feldur verði niður viðbótartollur á kaffi og sykri, en tekinn upp 25% gengisviðauki á tekju- og eignarskatti. Hjer er aðeins um 200 þús. kr. að ræða til eða frá. Það er ávalt rjett að styðja að því, að fjárlög fái sæmilega afgreiðslu, ekki síst þar sem hækkanir þær á tollum og sköttum, sem fram hafa verið bornar, eiga aðeins að gilda til bráðabirgða og endurskoðun á skattalöggjöfinni stendur fyrir dyrum, eins og hv. þdm. er kunnugt.

Þá vil jeg víkja að útreikningi hv. frsm. minni hl., þegar hann vildi sýna, að nægilegar tekjur fengjust til að standast 12,4 milj. kr. útgjöld, eins og jeg gerði ráð fyrir, án þess að grípa þyrfti til þessarar tollhækkunar. Las hann upp úr nál. minni hl. fjhn. í Ed. máli sínu til stuðnings. Jeg vil benda á, að nokkurt misræmi er í skýrslu þeirri, sem hv. 3. landsk. undirskrifar þar, og því, sem hann hjelt fram á þingi 1925, er hann var fjármálaráðherra. Þá taldi hann, að eftir núgildandi löggjöf myndu tekjurnar verða 4 milj. lægri en tekjur ársins 1925. En nú segir hann í nál., að mismunurinn nemi 2,3 milj. (ÓTh: Þetta er óskylt mál). Nei, það er ekki óskylt. Þetta misræmi stafar af því, að 1926 voru þessar tekjur innheimtar með hagkvæmri löggjöf. Hjer munar 1700 þús. kr. á áliti hv. 3. landsk. nú og þá.

Um víneinkasöluna vil jeg segja það, að jeg mun hafa sagt, að meðaltalstekjur af henni hafi verið 376 þús. kr. á ári. Þetta er meðaltal af 4 árum, en ef fyrsta árið er einnig talið, verða meðaltalstekjur ekki nema 333 þús. kr. Tekjur vínverslunarinnar hafa verið sem hjer segir:

Árið 1923 . . . . 160000 kr.

— 1924 .. .. 454955 —

— 1925 .. .. 550000 —

— 1926 .. .. 200000 —

— 1927 .. .. 300000 —

Jeg býst við, að einmitt þessar tekjur fari lækkandi, eins og þær hafa gert síðan 1925. Hv. frsm. minni hl. efaðist um, að ástæður mínar fyrir þessu væru rjettar. Jeg sagði, að núverandi stjórn hefði tekið föstum tökum á þessum málum, og vildi sýna, að það hefði áhrif á tekjur af þessari einkasölu. Undanfarið hefir mönnum verið gert ljett fyrir um lán á áfengi, svo að slík útlán hafa numið tugum þúsunda. Nú hefir verið tekið fyrir þetta, og ef þetta hefir ekki áhrif á tekjurnar, veit jeg ekki, hvaða rökum á að beita við hv. þm. Jeg benti líka á, að bindindisstarfsemi hefði aukist og líklegt væri, að hún hjeldi áfram að aukast. Hygg jeg, að það hafi þegar haft nokkur áhrif. Einnig hefir stjórnin dregið úr áfengisneyslu með því að ganga vel fram í að hindra, að vín væri selt á óleyfilegum tíma, og hefi jeg heyrt um það skrítna sögu. (ÓTh: Hvernig er hún?). Hún kemur ekki hv. þm. við, þótt margir kynnu að ætla það. (ÓTh: Það væri samt gaman að heyra hana).

Skekkjan á milli nál. á þskj. 371 og álits fjmrh. 1925 liggur í því, að ekki er tekið tillit til, eftir hvaða löggjöf á að innheimta. Innflutningur árið 1925 var óvenjulega mikill, og hefði því átt að draga meira frá tekjum þess árs að rjettu lagi. Hitt get jeg fullvissað hv. þm. um, að útgjöldin verða nálægt því, sem jeg hefi reiknað út, ef litið er til reynslu undanfarinna ára.

Jeg þarf ekki að svara háttv. frsm. meiru. Jeg vænti þess, að háttv. deild vilji afgr. fjárl. þannig, að ekki verði tekjuhalli á þeim, og tekjuafgangi, ef einhver verður, verði varið til að greiða eitthvað af þeim halla, sem hrúgast hefir upp tvö síðustu árin, sem mun vera orðinn um 1 milj. kr. Jeg býst ekki við, að hv. þm. langi til að flytja þær fregnir heim í kjördæmi sín, að lausaskuldir sjeu farnar að safnast fyrir aftur. Það getur að vísu komið fyrir, að hv. frsm. minni hl. þyki gott að geta vitnað til þess, að lausaskuldir sjeu farnar að safnast aftur, til þess að sýna, hvernig ráðsmenskan er hjá Framsóknarstjórninni. En slík stjórnmálastarfsemi miðar ekki til þjóðþrifa.