28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3494 í B-deild Alþingistíðinda. (3235)

112. mál, vörutollur

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg vil gera hjer nokkra grein fyrir fyrirvara mínum. Við jafnaðarmenn erum engan veginn ánægðir með þessa tollhækkun, enda þótt við munum greiða henni atkv. En við skoðum hækkun þessa aðeins sem bráðabirgðaráðstöfun, enda er nú komin fram þáltill. um kosningu milliþinganefridar til þess að rannsaka skattamál landsins á næstunni, og má vænta þess, að sú till. nái fram að ganga. Þess má einnig gæta, að kaffi- og sykurtollur hefir verið undanþeginn 25% gengisviðauka, og getum við af þeim ástæðum frekar ljeð hækkun á vöru- og verðtolli fylgi okkar í þetta sinn, enda þótt við teljum, að hægt sje að afla ríkinu tekna á heppilegri hátt.