28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3495 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

112. mál, vörutollur

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal taka það fram, að jeg álít það skyldu þingsins að stuðla að því, að fjárlög verði afgreidd tekjuhallalaust, hvaða stjórn, sem við völd situr. En jeg álít því aðeins rjett að samþ. hækkaðar álögur, að full rök sjeu færð fyrir því, að þörf sje á því, til þess að jöfnuður verði á ríkisbúskapnum. Mjer hefir skilist það á því, sem gerst hefir hjer í þinginu, að það sje orðið að samkomulagi milli stjórnarflokkanna, að öll þau hækkunarfrv., sem eru á leiðinni, skuli ná fram að ganga. Þegar það er orðið, eru skattarnir komnir í sama horf og árið 1924, þegar lausaskuldirnar voru á 5. milj. kr. Nú eru þær greiddar, og samt á að leggja á jafnþunga skatta nú og gert var, þegar við vorum að byrja að borga þessar skuldir. Til hvers á að nota þessa peninga? Ekki til að greiða gömlu skuldirnar. (HJ: Til að borga nýjar skuldir). Til að borga nýjar skuldir, segir hv. þm. Í fjárlagafrv. er aðeins gert ráð fyrir um 600 þús. kr. til þess. (HJ: Mætti vera meira). Er þetta þá skakt í fjárlagafrv.? Nú er ekki gert ráð fyrir neinni brtt. í Ed. um þetta, og verð jeg því að fara eftir fjárlagafrv. eins og það er nú, enda veit jeg, að það er rjett, hvað sem þm. V.-Húnv. segir. En þótt skattarnir væru færðir í sama horf og 1924, myndi jeg fylgja því, ef jeg sæi, að þörf væri á því til að ekki yrði halli á landsbúskapnum með sama sparnaði og hefir verið undanfarin ár. En jeg get ekki sjeð, að svo sje. Árið 1925 var með svipuðum sköttum og nú eru ráðgerðir greidd 1 milj. kr. af föstum skuldum, ½ milj. kr. bráðabirgðalán í Landsbankanum og 3,76 milj. kr. af öðrum skuldum.

Árið 1925 voru því 6,1 milj. króna skuldir greiddar með svipuðum sköttum og nú er gert ráð fyrir að leggja á þjóðina. Frá þessari upphæð dreg jeg þær 600 þús. kr., sem ætlaðar eru til afborgana á skuldum í fjárlagafrv. Eru þá eftir 5,5 milj. kr. Jeg geng inn á, að árið 1925 hafi verið betra en líkur eru til, að árið 1929 verði. Jeg skal játa, að jeg get ekki búist við, að það verði eins gott ár og 1925. Jeg skal gefa 3 milj. kr. á milli þessara ára, enda þótt fult útlit sje fyrir, að árið 1928 verði gott ár til lands og sjávar, og hið eftirfarandi ár mótast jafnan að því er snertir ríkissjóðstekjur af næsta ári á undan. En samt skal jeg gera ráð fyrir, að mismunurinn sje 3 milj. kr. Þá eru eftir 2,5 milj. kr. Nú verður að taka það til greina, að verklegar framkvæmdir voru ekki miklar 1925, og er gert ráð fyrir, að þær verði meiri nú. Þetta munar segjum 1½ milj. kr. Þá verður eftir 1 milj. kr., sem jeg get ekki sjeð, að þurfi að afla tekna til.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að 4 milj. munaði á tekjum áranna 1924 og 1926. Eftir landsreikningnum 1926 er þessi munur rúmlega 2 milj. kr. Jeg geng út frá því, að landsreikningurinn verði ekki rengdur. Um tekjur ársins 1927 er öðru máli að gegna. Um þær verður eigi enn sagt með vissu, hve miklar þær verða, því að reikningar frá mörgum sýslumönnum eru ókomnir og tekjurnar því áætlaðar heldur lægri en búast má við, að þær verði í raun og veru.

Það var óvarlega mælt af hv. frsm. meiri hl., að hv. frsm. minni hl. vildi fá lausaskuldir aftur. Það er ekki stefna okkar Íhaldsmanna, og lausaskuldirnar voru svo erfiðar viðfangs á sínum tíma, að enginn mun óska eftir þeim aftur. En það verður að taka tillit til landsmanna, sem skattana eiga að greiða. Hv. frsm. meiri hl. var að tala um halla, sem hrúgast hefði upp tvö síðustu árin. Eftir landsreikningnum hafa verið borgaðar 2 miljónir upp í skuldir árið 1926, en á árinu 1927 hefir safnast dálítið fyrir af lausum skuldum, en þó ekki meira en svo, að hægt er að greiða þær úr sjóði. Sjóðeign hefir stórkostlega aukist árin 1924–'26, og sjóðurinn þolir vel að greiða þennan rekstrarhalla. Ef menn vilja fá nákvæmt yfirlit yfir hag ríkissjóðs, þá er heimilt að telja það fje, sem varið hefir verið til greiðslu á skuldum, sem gróða. Niðurstaðan verður sú, að þó ekki sje farið út á þá braut að hækka vöru- og verðtoll og leggja 25% viðauka við tekju- og eignarskatt, myndi verða jöfnuður á þjóðarbúskapnum.

Það er því ekki rjett að setja skattana í sama horf og 1924, þegar hagur ríkissjóðs var sem erfiðastur. Stjórnin hlýtur með því móti að fá mikið fje til umráða framyfir það, sem þarf til að mæta lögboðnum útgjöldum samkv. fjárlögum.

Jeg skal líka benda á það, að ríkisstjórnin hlýtur að fá talsvert fje til umráða, þegar það fje losnar, sem nú er fast í landsverslun. Jeg geri ráð fyrir, að það sje um ½ milj. kr. Hæstv. stj. hefir enga grein gert fyrir því, hvernig þetta fje eigi að nota. Háttv. frsm. verður að setja sig í spor okkar, sem erum á móti því, að stórfje sje lagt í síldarverksmiðjur, letigarðeða vinnuhæli, eins og hann heitir nú —, strandferðaskip o. s. frv. Okkur hlýtur að detta í hug, að eitthvað af því fje, sem fæst vegna hinna auknu skatta og verður umfram útgjöld fjárlaganna, eigi að notast í þetta.