28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3503 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

112. mál, vörutollur

Jón Ólafsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 601, þar sem farið er fram á að hækka kolatollinn ekki um meira en 1 kr. á smálest. Jeg skal að þessu sinni ekki fara út í skattamálin alment, enda þótt e. t. v. væri tilefni til þess. Brtt. mín er fram borin sakir þess, að jeg álít stefnu frv. mjög svo fjarri rjettri leið, þar sem farið er fram á að skattleggja strit manna og áhættu áður en nokkuð sjest koma í aðra hönd. Alt, sem framkvæmdarvaldið gerir til þess að draga úr framtaki einstaklinganna, miðar til þjóðaróþrifnaðar. Jeg álít, að alt aðrar leiðir eigi að fara til að ná tekjum í ríkissjóð. Það eru áreiðanlega margar leiðir betur færar en þessi, sem verður að teljast hættuleg fyrir atvinnulíf þjóðarinnar. Þegar kominn er 30 kr. dagskattur á hvern togara, án þess að nokkur vissa sje um, hvað fæst í aðra hönd, þá mun áreiðanlega sækja í það horf, að menn fýsir síður að leggja fje sitt í slík áhættufyrirtæki, og er hætt við, að svo miklum óhug slái á þá, sem við þau fást, að þeir reyni heldur að leggja inn á aðrar brautir, þar sem þeir losna við þennan rangláta skatt. Menn verða að athuga það, að 30 kr. dagskattur er ekkert smáræði.

Eins og allir vita, eru saltfisksveiðar sá heilbrigðasti atvinnurekstur, er við stundum: Af þeim hlýtst mikil vinna og annað hagræði fyrir fólk í landi, með því að fiskurinn er allur settur í land til verkunar. Jeg er í raun og veru hissa á því, að hv. jafnaðarmenn geti ljeð hækkun á kolatolli fylgi sitt, því að þeir hljóta þó að sjá, að það getur ekki orðið til að auka atvinnu þeirra, sem þeir þykjast vera umbjóðendur fyrir, heldur þvert á móti.

Nokkuð öðru máli er að gegna um salttollinn. Hann mætti í sjálfu sjer eins leggja á útfluttan saltfisk, því að saltið þarf því aðeins að kaupa, að einhver fiskur veiðist til að salta. Þess vegna er ekki eins gott að hafa á móti þeim skatti, þar sem áhættan er ekki skattlögð, heldur framleiðslan, enda þótt það sje ekki kallað fisktollur.

Það þýðir sjálfsagt ekki að ræða um það, þótt kaupstaðirnir verði illa úti, En mjer þykir undarlegt, ef það kemur ekki hart niður á almenningi hjer í bæ, að kolaverðið hækkar um 10%. Kolin eru svo mikil nauðsynjavara hjer í bæ, að jeg hygg, að flestir neiti sjer jafnvel fremur um kaffi og sykur heldur en að hafa ekki hlýju í húsum sínum.

Það þarf ekki langan formála fyrir þessu; jeg geri ráð fyrir, að menn vilji líta á þetta með yfirvegaðri greind og vilji ekki eiga þátt í að gera svo við þennan atvinnuveg, að hann verði að draga saman seglin í sínum framkvæmdum. Þetta væri að mínu áliti gerræði, ekki einungis við þessa atvinnugrein, heldur líka fyrir landið í heild; því að það er okkur öllum kunnugt, að einhversstaðar verður fjeð að koma frá, svo að hægt sje að inna af hendi allar þær kvaðir, sem þjóðin gerir til ríkissjóðs. Og það er skylda þingsins að ýta heldur undir, að menn hefjist handa um framkvæmdir og haldi þeim áfram, í stað þess að stórauka áhættu þeirra fyrirtækja, er ríkissjóður hagnast mest af. Það hefnir sín vitanlega á sínum tíma, ef afturkippur verður í þeim atvinnuvegi, sem að mínu áliti á að gefa landinu einna mestar tekjur, og gerir það líka vafalaust nú.

Það er þess vegna, sem jeg vænti þess, að hv. þdm. líti á þetta með velvilja og þeirri fyrirhyggju, að þeir vilji ekki leggja stein í götu þessara framkvæmda um skör fram.