28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3506 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

112. mál, vörutollur

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. G.-K. hafði að athuga við mína ræðu, þar sem jeg vjek inn á útreikninga hv. 3. landsk. um væntanlegar tekjur, miðað við tekjur á árinu 1925, og þeim breytingum, sem orðið hafa á tekjulöggjöfinni, þá vil jeg taka það fram, að það, sem jeg átti við, er það, að hjer á þessu yfirliti var aðeins tekið tillit til breytingar á löggjöfinni, en ekkert tillit til þess, að árið 1925 er óvenjulega tekjudrjúgt ár. Það kemur líka greinilega fram á árinu 1926. Að vísu eru ekki alveg óbreytt tekjulögin fyrir það ár, þar sem að minsta kosti verðtollur breytist þá; en þó að hann sje allmikil upphæð, gætir hins meira, að tekjurnar voru svo óvenju miklar árið áður. Þess vegna er það, að sú meðaltala, sem háttv. 3. landsk. hefir fundið út um hæfileger tekjur, hún mun reynast of há, og mun því árið 1929 ekki reynast eins tekjuhátt eins og hann gerir ráð fyrir. Þetta verður að vísu ekki hægt að sanna nú, en tíminn mun áreiðanlega sanna það. Jeg þarf ekki að fara langt út í þau einstöku atriði þessa máls, sem okkur hefir greint á um; það stendur nokkurnveginn óhrakin sú áætlun, sem jeg gerði í minni fyrri ræðu, um líkurnar fyrir því, hvað útgjöldin mundu verða.

Jeg vil aðeins víkja nokkrum orðum að tekjum ríkissjóðs af áfengisversluninni. Jeg hefi ekki getað sjeð samkv. landsreikningnum, að inn sje komið til ríkissjóðs 1665000 kr.; og eftir þeim upplýsingum, sem hv. 2. þm. G.-K. gaf mjer áðan, eru sjóðir verslunarinnar 900 þús. kr. En er nú víst, að þessir sjóðir sjeu til — sjeu meira en á pappírnum — að það sje ekki eitthvað af þeim tapað eða hætt við að tapist? Og það á því að dragast frá þeim tekjum, sem hafa aflast, því að það er lítið gagn að því að taka í hægri hendi það, sem undir eins er látið úti með þeirri vinstri. Með því að taka þessar sjóðseignir, fje það, sem áfengisverslunin hefir dregið saman, eins og þær eru bókfærðar, — sem vitanlega verður aldrei skilað —, þá eru þó meðaltalstekjurnar yfir þessi 6 ár ekki nema 426 þús. kr.; en svo vill hv. þm. koma þeim í 400 þús. kr. á ári, þegar það er sýnt og sannað, að til þess að skila nokkurn veginn tekjuhallalausum fjárl., þurfa tekjurnar að nema 15% meira en í áætlun, til þess að reikningur geti orðið nokkurnveginn jafn. Jeg veit ekki, hvar þessi 15% eiga að fást, ef á að toga hvern einasta lið svo hátt í áætlun, að hann geti ómögulega orðið hærri að lokum.

Jeg þarf ekki að elta ólar við hv. frsm. út af ráðstöfun stjórnarinnar í þessum málum; það var mikið gaman hjá honum, og við getum gert okkur til gamans hvenær sem vera vill, en jeg vil ekki eyða tíma til þess í dag. En hann hefir ekki andæft þeim ástæðum, sem jeg færði fram fyrir því, að líkur væru til þess, að tekjurnar færu minkandi. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. er genginn í stúku, en jeg hefi heyrt, að margir þeir menn, sem hefir þótt gott í staupinu, sjeu komnir það langt að hafa bundið sig þeim böndum að smakka ekki áfengi. Jeg hygg, að ef þessu heldur áfram, jafnframt því, sem stúknastarfsemin í landinu heldur yngra fólkinu frá áfengi, þá trúi jeg ekki öðru en neyslan fari minkandi. Jeg held það sje því með öllu óverjandi að hugsa sjer að hækka þennan tekjulið frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., algerlega á móti því, sem framkvæmdarstjóri áfengisverslunarinnar leggur til.

Alveg nákvæmlega sama er að segja um tekju- og eignarskatt. Það er meira en lítið ógætilegt að ætla sjer að taka meðaltalstölu af undanförnum árum, þegar árið 1925 er með, þar sem það var svo óvenju gott, að ekki er hægt að ætlast til, að önnur komi jöfn. Jeg var áður búinn að benda á það, að þrjú árin, 1923, '24 og '27, gera lítið meira en vega móti þessu eina ári í tekju- og eignarskatti. Nei, jeg held við getum ekki haft rólega samvisku, ef við áætlum tekju- og eignarskattinn öllu hærri en gert er, því að það er hærra en hefir orðið niðurstaða þriggja af þessum sex árum, sem hv. þm. tekur til samanburðar.

Viðvíkjandi því, sem hann sagði um afkomu ríkissjóðs, vil jeg vona, að það sje hans hjartans meining, að hann vilji ekki, að lausaskuldir vaxi, og að hann hagi starfi sínu í samræmi við það.

Út af brtt., sem hv. 3. þm. Reykv. bar fram, vil jeg segja það, að þótt jeg fyllilega játi, að atvinnuvegirnir hafi þungan bagga að bera, þá er ómögulegt að hugsa sjer að auka svo tekjur ríkissjóðs, að ekki verði íþyngt atvinnuvegum. En eins og nú er búið að ganga frá þessu frv. í hv. Ed., er einmitt allmikið gert til þess að ljetta á þessum atvinnuvegi, þar sem feld var hækkun á salttolli, En ef á að fara enn að nema af þessum tekjuauka, sem þessu frv. er ætlað að færa, 115 þús., þá fer lítið að verða eftir, og mætti eins vel sleppa því öllu saman.

Jeg held jeg hafi svo ekki meira um þetta að segja; jeg hefi stilt orðum mínum í hóf og vonast eftir, að þau þurfi ekki að vekja neinar deilur, enda mun jeg vera búinn að tala mig dauðan, eða því sem næst. Hv. 2. þm. G.-K. hefir nú sýnt afstöðu sína til þessa máls; og þó að jeg geti engan veginn viðurkent, að hún sje heilbrigð fyrir afgreiðslu fjárlaga, þá get jeg gjarnan sagt það í sambandi við það, sem jeg sagði áðan, að jeg trúi því ekki, að hans afstaða sje þessi aðeins fyrir það, að hann vilji tekjuhallafjárlög. Jeg held, að afstaða hans miðist við það, að hann geri sjer alt of bjartar vonir um afkomuna og reikni ekki nógu vel með þeim staðreyndum, sem undanfarandi ár hafa leitt í ljós í þessu efni.