28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3509 í B-deild Alþingistíðinda. (3240)

112. mál, vörutollur

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Hv. 3. þm. Reykv. mælti hjer fyrir tillögu sinni, og það svo ágætlega vel, að jeg tel mjer ekki fært, þó jeg sje talsvert kunnugur þessum atvinnurekstri, að bæta neinu við. Mjer fanst hann taka einmitt fram það, sem átti að taka fram. Hann tók þá hlið, sem veit að atvinnurekendum sjálfum, en jafnframt hina hliðina, sem veit að ríkissjóði. Hann hitti ágætlega naglann á höfuðið, þegar hann benti hv. þd. á það, að afleiðingin af 30 kr. dagskatti á hvern togara yrði eðlilega sú, að saltfiskveiðar yrðu minna stundaðar, en ísfiskveiðarnar myndu aukast: en þau kol, sem þá eru notuð eru ekki tollskyld. Er skakt af löggjöfunum að beina þessum atvinnurekstri inn á þá braut, bæði vegna þess, að þá fær ríkissjóður miklu minni tekjur, en jafnframt vegna hins, að það er að flytja atvinnu úr landinu.

En aðalatriðið, sem hv. þm. tók fram, er það, að hjer væri verið að skattleggja þessa vöru með 10–12%. Þetta er önnur mikilsverðasta hlið þessa máls. En sem sagt, þessi háttv. þm. (JÓl) tók svo vel fram það, sem þurfti, en sneiddi fram hjá öðru; jeg vil láta mína ánægju í ljós fyrir það og get slept að fjölyrða um þessi atriði, en snúið mjer að hv. frsm. meiri hl.

Hv. þm. fullyrðir, að tekjur ríkissjóðs 1929 muni ekki verða eins miklar og jeg sagði. Það má um okkur segja, að hvorugur sje spámannlega vaxinn. En jeg hygg, að jeg fari með rjettara í þessu efni. En þar verður að standa fullyrðing gegn fullyrðing; hvor hefir fært fram sín rök og menn verða að dæma milli okkar við atkvgr. Jeg mundi bíða óhikað þess dóms, ef ekki væri búið að segja, mjer frá samningum bak við tjöldin milli stjórnarflokkanna um þessi mikilsvarðandi mál, áður en þau voru lögð fram í þinginu.

Hv. þm. sagði á þá leið: Mín skýrsla stendur nokkurn veginn óhrakin um það, hvernig afkoman muni verða. Þetta minnir mig á lítið atvik frá því jeg var strákur. Jeg ætla að segja frá því, þó að það kannske þætti lýsa drembilæti hjá mjer, ef menn taka frásögnina alveg bókstaflega. Jeg horfði á tvo áflogahunda eigast við, sem mjer þótti í þá daga ákaflega gaman. Annar varð undir, og daginn eftir heyrði jeg hann segja svo frá þessu atviki um sjálfan sig: „Altaf stóð hann, karlinn; aldrei datt hann, karlinn“. svipað virðist mjer um skýrslu hv. frsm.; mjer finst jeg hafa leikið hlutverk hins sterka, þannig að mín rök beri greinilega af hans rökum, þó að hann segi, að skýrsla sín standi óhrakin.

Annars þýðir ekki að endurtaka margt, sem búið er að segja. Jeg vil þó aðeins drepa á tvent, nefnilega, að það er rjett hjá mjer, en ekki hv. frsm., að meðaltalstekjur af áfengisversluninni þessi sex ár eru 450 þús. kr., en ekki 427 þús. Jeg skal segja honum alveg eins og er, að þetta er samkvæmt skýrslu, sem jeg fjekk fyrir fáum dögum hjá forstöðumanni verslunarinnar. (HJ: Jeg hefi tekið þetta upp úr landsreikningnum). En jeg verð að álíta, að ef skekkja kemur fram, þá hljóti hún að vera í landsreikningnum; þetta getur ekki verið skakt, sem forstöðumaður hefir tekið upp úr bókunum.

Jeg hafði nú bent á, að ef miðað væri við þrjú síðustu ár, væru þessar tekjur ekki 450 þús., heldur miklu meira, 560 þús. Nú höfum við minnihlutamenn lagt til að áætla þær. 400 þús. Hv. þm. spurði, hvaða vit væri í að hækka allar áætlanir, þar sem vitað væri, að áætla þyrfti 15% lægra. til þess að standast reynsluna. Þetta er rjett hjá honum, svo langt sem það nær. En ef hann athugar, að við leggi um til 400 þús. kr. áætlun, en samkv. sex ára reynslu hafa tekjurnar verið 450 þús., þá eru þó eftir 5 þús. kr. í afgang, þótt fullnægt sje þessari kröfu um 15%. (HJ: Mjer finst þetta ekki standa heima). Þetta er alveg rjett hjá hv. þm., og tek jeg hans athugasemd með þökkum. Jeg hjelt jeg kynni þó að margfalda lágar tölur sæmilega rjett og kynni það betur en sumt annað. (Forsrh. TrÞ: Og stóru töfluna líka?). Já, stóru töfluna líka.

Þetta mundi snúa nokkru við, því að þá þyrfti þessi tekjuliður að verða 460 þús. kr., til þess að standast reynsluna, en hefir ekki verið nema 450 þús. En þetta hygg jeg, að lagfærist þó nokkuð þegar hins er gætt, að ef miðað er við aðeins síðustu þrjú árin, sem er jafnmikil ástæða til eins og að taka til greina þrjú ár fyr, þá eru meðaltekjurnar ekki 450 þús., heldur 560 þús.

Hv. þm. kvað mig ekki hafa mótmælt því, að líkur væru til, að tekjur rýrnuðu af þessum gjaldstofni á næsta ári. En jeg sýndi fram á það, að þessar tekjur hafa ekki rýrnað meira en af ýmsum öðrum gjaldstofnum, sem er afleiðing af árferði. Jeg játa, að það er rjett hjá honum, að bindindisstarfsemi hefir aukist fylgi á undanförnum árum. En þegar svo hinsvegar er aðgætt, að einn af sterkustu stjórnmálamönnum landsins hefir nú lagst á þá sveif að hvetja menn til að drekka í hófi, þá býst jeg við, að það hafi einhverjar afleiðingar. Þessi stjórnmálamaður brá svo skemtilegu ljósi yfir líðan manna, þegar þeir hefðu neytt áfengis, að jeg geri ráð fyrir, að bæði jeg og aðrir muni finna til freistingar, þegar við hugsum til lýsingar hæstv. dómsmrh. á þeirri andlegu lyftingu, sem hver sá verður fyrir, sem kaupir ofurlítið af áfengisversluninni og eykur með því tekjur ríkissjóðs!! Er nú að vísu sumt í spaugi mælt, en að því sleptu hygg jeg, að síst sje óvarlegt að ætla tekjur af áfengisversluninni 400 þús. kr.

Jeg ætla svo aðeins að minnast á þá fullyrðingu hv. frsm., að það sje ekki eðlilegt að miða framtíðartekjur að neinu leyti við tekjur ársins 1925, vegna þess að árið 1924 hafi verið einstakt í sinni röð. Það er rjett, að það ár var einstakt, en hitt er líka rjett, að fjögur af þessum sex árum, sem er um að ræða, voru sjerstaklega slæm fyrir búskap landsmanna yfirleitt. Og ef jafna mætti nokkru einstöku þeirra ára við horfurnar á komandi árum, þá vildi jeg segja það; að árið 1925 var ekki ósvipað árinu 1927 um afkomu atvinnurekstrarins, að öðru leyti en því, að á árinu 1925 urðu atvinnurekendur fyrir allmiklum halla af hækkuðu gengi. Ef við því viljum vita, hvað tekjuskattur verður 1928, er helst að taka til samanburðar, hvað hann var árið 1926. Þá var hann 1071000 kr. Af því að árferði var líkt 1925 og 1927, eiga tekjur af þessum gjaldstofni að vera ekki ólíkar 1926 og 1928. Við förum fram á, að þær sjeu ekki áætlaðar nema 950 þús. Og jafnvel þótt gert sje ráð fyrir 15% hækkun, sem þurfi til þess að standast umframeyðslu, þá er okkar áætlun ekki fjarri sanni.

Hún er að vísu um 20 þús. kr. of há, en fullvíst er, að sá tekjuauki ríkissjóðs af þessum gjaldstofni, er stafar frá auknum atvinnurekstri landsmanna frá 1925–1927, mun meira en jafngilda þeirri upphæð.

Að því er snertir afkomu atvinnurekstrar landsmanna á þessu ári — en hún skiftir mestu máli þegar talað er um áætlun á tekjum ríkissjóðs árið 1929 — skal jeg að vísu játa, að um það verður ekki sagt með vissu, en að svo miklu leyti, sem sjeð verður, þá er ekki ólíklegt, að verðlag á sjávarafurðum verði talsvert betra á þessu ári en það var síðastliðið ár.

Það gladdi mig að lokum að heyra það, sem háttv. þm. V.-Húnv. sagði í minn garð. Hann hafði nefnilega skotið því fram í ræðu hjer í dag, að jeg myndi hyggja á hefndir við núverandi stjórn, en nú sagði háttv. þm., að þetta hefði ekki verið af alvöru mælt. En það vil jeg segja háttv. þm., að jeg mun fjalla um fjármál ríkissjóðs, að því leyti sem það kemur til minna kasta, af fullri einlægni, hvaða stjórn sem situr við völd.