08.03.1928
Efri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3523 í B-deild Alþingistíðinda. (3255)

113. mál, verðtollur

Frsm. 2. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg hefi ekki mörgu að svara hv. frsm. 1. minni hl. Hann viðurkendi, að ef um það væri að ræða að afla ríkissjóði tekjuauka, þá væri borið niður á rjettum stað með þessu frv. Kann jeg hv. frsm. þakkir fyrir þessi ummæli, og yfirleitt heyrðist mjer á ræðu hans, að nefndarhlutunum bæri ekki mjög á milli, nema hvað 1. minni hl. telur ekki þörf á eins miklum tekjuauka og 2. minni hl. Hinsvegar ber nefndarhlutunum á milli um upphæð þá, sem gera má sjer von um, ef þetta frv. verður samþ. Jeg veit, að það er rjett hjá hv. frsm. 1. minni hl., að verðtollurinn 1927 hafi numið 926 þús. kr., en jeg er ekki viss um, að í þeirri upphæð sje ekki fleira talið með en þetta frv. snertir, og jeg hygg, að svo sje. Jeg hygg það því dálítið varhugavert að reikna tekjuhækkunina af þessu frv. á þann veg, að gera ráð fyrir, að tollurinn verði 1/3 hærri en 1927.

2. minni hl. gerir ráð fyrir því, að tollhækkun hlyti óumflýjanlega að verka eitthvað á innflutninginn, og jeg hjelt, að 1. minni hl. liti einnig svo á. En nú lýsir hv. frsm. 1. minni hl. yfir því, að það sje þeim hv. minnihlutamönnum ekki aðalástæðan fyrir því, að þeir eru á móti verulegri hækkun; aðalástæðan fyrir þá sje sú, auk þess að þeir álíta ekki verulega þörf á tekjuauka, að þeir álíta, að þessi hækkun á tollinum úr 20% upp í 30% mundi verða til þess að auka ótollaðan innflutning á þeim varningi, sem þessi hækkun nær til. Með öðrum orðum, þeir eru hræddir um, að með okkar ónóga tolleftirliti muni hættan á tollsvikum aukast. Það má vel vera, að tilhneigingin til tollsvika aukist að sama skapi sem tollurinn hækkar, en jeg tel, að eins og núgildandi tollalöggjöf er, þá getum við ekki komist hjá því að auka tolleftirlitið töluvert, til þess að það geti talist sæmilegt.

Jeg hefi orðið lítilsháttar var við það, að við þá aukningu á tolleftirlitinu, sem gerð hefir verið síðustu mánuðina, hefir það komið í ljós, að töluverður undandráttur á tollgreiðslum hefir átt sjer stað. Það er því full þörf á því, þótt ekki sje hækkuð tollupphæðin, að auka tolleftirlitið. Því held jeg, að mjög lítið verði úr þessari ástæðu hv. 1. minni hl., því að bæði fjárhagslega og siðferðislega hvílir á okkur sú skylda að hafa tolleftirlitið betra en það hefir verið á undanförnum árum og er enn.

Jeg veit að vísu, að það hefir nokkurn kostnaðarauka í för með sjer, en hann er ekki svo mikill, að við þurfum að setja hann fyrir okkur, svo að ef það er álitið tiltækilegt að hækka tollinn, þá álít jeg, að hægt sje að gera það af þeim ástæðum.

Jeg hefi ekki ástæðu til þess að hafa þessa aths. lengri; það gleður mig, að það lítur út fyrir, að umr. um þetta mál ætli ekki að taka mjög langan tíma að þessu sinni, enda óþarft, þar eð búið var að ræða forsendur þess allítarlega í gær, og skal jeg því ekki gefa tilefni til frekari umræðna.