10.03.1928
Efri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

113. mál, verðtollur

Frsm. 1. minni hl. (Jón Þorláksson):

Við 2. umr. þessa máls tók 1. minni hl. fjhn. aftur brtt. sína við þetta frv., um að færa verðtollinn úr 15% niður í 12½%, með þeim ummælum, að hann vildi geyma að taka afstöðu til þess, þangað til heyrðist um brtt. fjvn. í Nd. við fjárlagafrv. stj., sem nú er í þann veginn að koma til 3. umr. í Nd.

Nú eru þær brtt. fram komnar og fara fram á allmikla aukningu fjárveitinga til verklegra framkvæmda, og þar sem nefndin stendur óklofin að þessum brtt., má ætla, að þær nái samþykki deildarinnar. Með tilliti til þessarar væntanlegu hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs, þá vill 1. minni hluti nefndarinnar ekki halda brtt. sinni til streitu, og lýsi jeg yfir því fyrir hönd okkar flm., að hún er hjer með tekin aftur.

Hinsvegar hefi jeg ásamt hv. þm. Snæf. flutt brtt. á þskj. 444, um að aftan við 1. gr. verðtollslaganna komi ný málsgrein með ákvæði um það, að heimildin í 2. gr. laga nr. 75, 27. júní 1921, um greiðslu á 2% af andvirði stimpilmerkja til þeirra embættismanna, sem sjá um stimplun skjala, skuli ekki koma til framkvæmda að því er snertir þau stimpilmerki, sem notuð verða samkv. verðtollslögunum, í þeim umdæmum, þar sem ríkissjóður greiðir annars að fullu kostnað við starfrækslu tollheimtunnar. Þetta ákvæði mundi fyrst og fremst vafalaust taka til innheimtu verðtollsins hjer í Reykjavík, en það mundi verða álitamál og á valdi stj., eftir því, hve ríflega hún greiðir skrifstofukostnað sýslumanna úti um land, hvort hún vildi einnig láta ákvæðið koma til framkvæmda annarsstaðar. Við flm. teljum alveg heimilt að gera þessa ráðstöfun og láta hana koma til framkvæmda nú þegar hjer í Reykjavík, af þeirri ástæðu, að ákvæðið í stimpilgjaldslögunum frá 1921 um að greiða innheimtumönnum 2% af andvirði stimpilmerkja er aðeins orðað sem heimild, þótt því hafi hingað til verið fylgt sem reglu.

Þessi brtt. stendur að vísu í nokkru sambandi við það frv. um skiftingu bæjarfógeta- og lögreglustjóraembættanna hjer í Reykjavík, sem var til umræðu hjer í hv. deild í gær. En við flm. álítum rjett, að þetta ákvæði verði samþ. í sambandi við sjálf verðtollslögin, án tillits til þess, hvort frv. um embættaskiftinguna nær fram að ganga breytt eða óbreytt.

Jeg álít alveg sjerstaka ástæðu til þess að hnýta þessu ákvæði við þetta frv., þar sem það hækkar verðtollinn, og mundi á tilsvarandi hátt hækka innheimtulaun at honum og bar með aukatekjur þessara embættismanna, ef innheimtulaunin væru látin haldast óbreytt.

Við flm. vonum, að hv. þdm. viðurkenni, að þetta ákvæði eigi heima í verðtollslögunum, og geti því samþykt það, hvernig sem þeir kunna að líta á skiftingu þessara embætta hjer í Reykjavík.