28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3532 í B-deild Alþingistíðinda. (3268)

113. mál, verðtollur

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Hv. dm. hafa auðvitað lesið nál., sem fylgir þessu máli. Það er að vísu ekki stórt, en jeg held þó, að það rúmi alt það, sem fjhn. hefir orðið sammála um í þessu máli.

Jeg þarf ekki að rekja sögu verðtollsins. Eins og kunnugt er, var samþykt á þinginu 1924 að leggja bráðabirgðatoll á nokkrar vörutegundir, og samkvæmt þeirri samþykt átti að greiða 20% af innkaupsverði allra varanna. 1. júní 1925 voru lögin endurskoðuð og vöruflokkunum fjölgað upp í þrjá. Í fyrsta flokki voru greiddir 30%, í öðrum flokki 20% og í þriðja flokki 10%. 1. mars 1926 var þetta lækkað niður í 20%, 15% og 5%. Í núgildandi lögum eru flokkarnir tveir. Í hærri flokknum eru greiddir 20% , en í hinum lægri 10%. Frv. þetta fer fram á að hækka aftur hærri flokkinn. Í frv., sem er flutt af hv. 2. þm. S.-M. (IP), er skýrsla, sem jeg býst við, að hv. dm. hafi kynt sjer, þar sem tekið er fram, hve miklar tekjur ríkissjóður hafi haft af verðtollinum frá 1. apríl 1924. Árið 1924 hefir hann fengið 897 þús. kr., 1925 2085000 kr., 1926 1304000 kr. og 1927 926 þús. kr. Ef þessar tölur væru lagðar til grundvallar, má ætla, að með þeirri hækkun, sem fjhn. leggur til, nemi auknar tekjur ríkissjóðs 450 þús. kr. Þetta er það, sem jeg með góðri samvisku get sagt fyrir hönd fjhn. En mig langar til að bæta þeirri persónulegu athugasemd við, að þó jeg hafi fallist á það, að leggja til, að frv. verði samþ., hefir mjer verið óljúft að gera það. Jeg hefi lýst yfir því í stuttri ræðu, sem jeg hjelt nýlega, að jeg teldi mjög óheppilegt að þurfa nú að íþyngja þjóðinni með nýjum sköttum. Þessi skoðun mín er ekki ný. Jeg tók þetta rækilega fram, þegar jeg bauð mig fram til þings við síðustu kosningar.

Mig langar til að rifja upp nokkrar tölur, sem sýna hlutfallið á milli dýrtíðarinnar í landinu og dýrtíðarinnar í fjárlögum. Jeg ætla fyrst að minnast á útgjöldin í fjárlögunum 1912–1913. Þau námu þá 2887400 kr., eða hvort árið 1443700 kr. Útgjöldin í fjárlögunum 1927 námu 11109646,80 kr. og voru því nálega 8 sinnum hærri en 1912. Dýrtíðarvísitalan er nú 230–250 á móti 100 fyrir stríð. Dýrtíðin í fjárlögunum er 8 sinnum meiri en 1912, en dýrtíðin í landinu er 2½ sinnum meiri en 1912. Þetta sýnir, að dýrtíðin í landinu er altaf að minka, en í fjárlögunum er hún altaf að hækka. Til samanburðar má nefna, að dýrtíðin í Danmörku mun nú vera á milli 150 og 180, en í dönsku fjárl. var dýrtíðin um 230. Þar er mismunurinn ekki meiri en þetta, en þó var hann nógur til þess að koma öllu í bál og brand í Danmörku og stj. var þar mynduð með það fyrir augum að skapa samræmi í þessu efni. En ef dýrtíðin í fjárl. heldur þannig áfram að vaxa — hún hefir enn vaxið síðan 1927 —, þá verður mjög erfitt að minka dýrtíðina í landinu. Út frá þessum hugsunarhætti meðal annars er nauðsynlegt að leitast við að hækka ekki útgjöldin í fjárlögunum. Jeg gagnrýndi á sínum tíma íhaldsstjórnina fyrir það, að henni hafði ekki tekist að lækka dýrtíðina í fjárl., og sú gagnrýni bergmálaði mjög hjá framsóknarmönnum. Nú er komin ný stjórn, en það eru engar horfur á því, að útgjaldaliðirnir í fjárl. eigi að lækka. Jeg vil spyrja: Er það ekki eðlileg pólitík frá mínu sjónarmiði, að jeg gagnrýndi fyrverandi stjórn og gagnrýni nú líka núverandi stjórn? Jeg spyr um þetta af því, að ýmsir menn hafa ekki veitt þessu eftirtekt eins og skyldi. Jeg hefi haldið þessu sama fram áður, og var það þá vel sjeð af þeim sömu mönnum, er nú skipa hæstv. stj. Það er sú heilbrigða pólitíska regla að halda sömu aðstöðu til málanna, þótt stjórnarskifti verði. Og í því, sem maður hefir ekki viljað fylgja þeirri gömlu stjórn, á maður ekki heldur að fylgja þeirri nýju, þegar hún sækir enn dýpra í það horf, sem maður hefir andmælt.

Mig langar einnig í þessu sambandi að minna á, að jeg er í fullu samræmi við alla mína fortíð, er jeg berst nú fast gegn einokunarfrv. Það er öllum kunnugt, hver halli er orðinn á fjárlagafrv., og til að vinna bug á þessu vildi jeg vera með þessu frv. En jeg held nú, að sagan frá 1919 sje að endurtaka sig. Það þing hefir oft verið vítt fyrir þá miklu bjartsýni, er það sýndi í afgr. fjárl. og ýmsra framkvæmda, er samþ. voru. En jeg hefi þá afsökun, að á því þingi varaði jeg margsinnis við þeirri höllu leið, sem þar væri verið að ganga inn á. Það hafa margir, og það með miklum rjetti, áfelt þingið 1919 fyrir þetta. En hvað er nú verið að gera á þingi 1928? Er ekki einmitt nú hið sama að reka upp höfuðið? Nú er verið að ráðast í ýms stórfyrirtæki og sum ríkinu alveg óviðkomandi. Einokun á síld, síldarbræðslustöð, ábyrgð á mótorbátaútgerð, strandferðaskip, sem er eðlilegt ríkisfyrirtæki, en sem á verður rekstrarhalli 200–300 þús. kr. árlega. Þá kemur letigarður, sem sagt er, að þjóðina hungri og þyrsti eftir, þótt slíkt hafi raunar aldrei heyrst fyr. Er ekki sama æðið að grípa menn nú og á þinginu 1919? Og verða ekki afleiðingarnar alveg þær sömu og þá? — Jú, áreiðanlega. Í stað þess, að Alþingi hefði nú átt að sameina sig um að færa gjöldin niður, sem var hið eina sæmilega, þá hillir nú undir stóra útgjaldaliði alstaðar í fjárlögunum.

Jeg þykist þá með framansögðu hafa gert nokkurnveginn glögga grein fyrir aðstöðu minni til þessa máls. Mjer veittist það erfitt að fá mig til að vera með þessu, en jeg sá mjer ekki annað fært, þar sem ekki varð hjá því komist að samþ. einhverjar tekjuhækkanir. En lengra mun jeg heldur ekki ganga á þeirri braut. Jeg vona að mjer hafi tekist að sýna fram á það með rökum, að hjá mjer er ekki um nein augnabliksáhrif, að ræða í þessu efni, heldur er það afleiðing þeirrar stefnu, er jeg hefi haldið fram á undirbúningsfundum kosninganna og sem jeg hygg, að fleiri hafi þá haldið fram, þótt nú virðist, sem þeir hafi gleymt því. En hæstv. stjórn ætti ekki að láta á sjer sannast það, sem sagt var um fyrv. stj., að hún hefði týnt stefnuskránni.