26.01.1928
Efri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3540 í B-deild Alþingistíðinda. (3281)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Flm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er samhljóða því, er jeg flutti hjer í háttv. Ed. í fyrra. Jeg sje ekki ástæðu til þess að fjölyrða um frv. nú. Um forsendur þess læt jeg mjer nægja að vísa til greinargerðar, er frv. fylgdi á þingi 1926. Hefi jeg nú í hinni örstuttu greinargerð vísað til þess þskj. og mælist til þess, að þeir háttv. deildarmenn, sem ekki hafa setið á þingi fyr, kynni sjer það, svo og umræður þær, er fram hafa farið um frv. á 2 síðustu þingum. Jeg vil aðeins geta þess, að allar ástæður, sem þá voru færðar þessu máli til stuðnings, eru enn í fullu gildi og hafa aukist frekar en hitt.

Horfir nú til vandræða með sveitarstjórn á Norðfirði. Þrátt fyrir kreppu þá, er gengið hefir yfir Austfirði ekki síður en aðra landshluta, hefir kaupstaðurinn stöðugt aukist hröðum skrefum: Oddvitastörf eru því orðin ærið umfangsmikil. Til þess að bæta úr í bili hefir fyrir nokkrum árum fengist leyfi sýslunefndar til þess að hækka laun oddvita nokkuð. En líkur eru til, að er ný kosning á fram að fara að vori komanda, fáist enginn til þess að gegna oddvitastörfum, nema launin verði enn hækkuð að miklum mun. Þessi störf eru orðin svo umsvifamikil, að þau verða ekki leyst af hendi á sama hátt og í sveitum. Má það nokkuð marka af því, að gjaldendatala er komin upp í 400 og árleg reikningsupphæð hreppsins var við síðustu reikningsskil, í fardögum 1926, yfir 60 þús. kr. Má og geta þess, að núverandi oddviti, sem gegnir kennarastörfum á vetrum, hefir undanfarna vetur orðið að kaupa mann á skrifstofuna meiri hluta dags.

Sama sagan er með hreppstjórann í þessum hreppi. Við hreppsbúar höfum verið svo hepnir að hafa mjög duglegan og samviskusaman mann í þeirri stöðu nú undanfarið — höfum sjálfsagt haft það oft áður —, en það er almæli, að hann hefir leyst störf sín óvenjulega vel af hendi. En mjer er óhætt að lýsa því yfir hjer — hann mun votta það hvenær sem er, að hann sjer sjer ekki fært að halda áfram starfinu vegna þess að það er orðið svo dýrt, að það er hreint peningatap fyrir viðkomandi hreppstjóra að hafa það á hendi. Jeg tel ekki rjett að láta menn leysa af hendi störf í þágu þjóðfjelagsins án þess þeir fái þau sæmilega borguð. En ef að því ráði væri hnigið að hækka laun þessa starfsmanns, svo sem hann á fulla rjettlætis- og sanngirniskröfu til, þá fer að verða lítið úr aðalástæðunni gegn þessu frv., sem sje þeirri, að það hafi í för með sjer kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Annars vil jeg ekki þreyta háttv. þingdeildarmenn á því að fara að rekja þær ástæður, sem þeir eiga greiðan aðgang að kynna sjer í þingskjölum frá 1926. Jeg vænti þess, að þeir líti þetta frv. velvildaraugum. Tíminn, sem það hefir verið hjer á ferðinni, er nú orðinn svo langur, að maður getur leyft sjer að vona, að háttv. deild muni nú geta felt um það endanlegan úrskurð, og að sá úrskurður verði rjettlátur.

Jeg legg til, að frv. verði vísað til allshn. til athugunar. Þar hefir það verið til meðferðar á undanförnum þingum, og þar mun það sennilega helst eiga heima.