11.02.1928
Efri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (3289)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Mjer datt alls ekki í hug að beina neinum aðdróttunum í garð hæstv. forseta, háttv. þm. A.-Húnv., og þykir mjer leitt, að hann skuli hafa skilið orð mín svo. Hitt átti jeg við, að það væri leikaraskapur af löggjafarvaldinu í heild að fara að stofna nýtt embætti með launum, sem sjáanlega eru of lág, og sjá sig síðan um hönd og hækka launin upp í það, er þá og síðar hefir þótt sanngjarnt. Jeg veit, að hv. þm. A.-Húnv. er einlægur og álítur þá launaupphæð nóga, sem hann stingur upp á. En jeg vísa aðeins í reynslu liðinna ára. Þá hefir löggjafarvaldið álitið hæfileg laun það, sem stungið er upp á í brtt., en síðan smáfært sig upp á skaftið. Og svo má gera ráð fyrir, að fari einnig hjer.

Þá er ræða háttv. frsm. meiri hl. Jeg hefði alls ekki staðið upp að þessu sinni, ef hann hefði ekki hallað rjettu máli í þessari sömu ræðu, en því tel jeg mjer skylt að svara.

Jeg gerði engan beinan samanburð á Skipaskaga og Norðfirði. Jeg gat þess aðeins, að um fleiri kauptún væri líkt ástatt hvað mannfjölda snerti, og mátti skilja, að þar væri meðal annars Skipaskagi hafður í huga. Nú gerir háttv. frsm. sinn samanburð á útfluttu vörumagni frá þessum tveim kauptúnum. Og niðurstaða þess samanburðar verður sú, að ekki er útflutt fyrir 1 kr. af Akranesi, en af Norðfirði fyrir mikla upphæð.

Jeg tel það nú að vísu ekki rýra á neinn hátt rjettindi kauptúns, þótt framleiðslu þess sje þannig háttað, að hún gangi til neyslu innanlands, svo sem er um Skipaskaga, sem framleiðir og selur okkar ágætu Skagakartöflur og engum heilvita manni dettur í hug að telja verðlausa þá framleiðslu, þótt ekki komi til greina á útflutningsskýrslum. En auk þess eru líka beinlínis fluttar út af Akranesi sjávarafurðir. En á skipskjölum er sá útflutningur talinn frá Reykjavík. Það orsakast meðal annars af því, að í Reykjavík er hægt að ná til embættismanns til slíks, en það er ómögulegt á Skipaskaga. (IP: Það er ekki verra en á Norðfirði). Jú. (IP: Jeg neita því).

Um kostnaðarhlið þessa máls hjelt hv. frsm. meiri hl. því fram, að mitt fyrirkomulag, sem jeg drap á í nál., muni reynast fult svo útdráttarsamt fyrir ríkissjóð eins og ef stofnað yrði sjerstakt bæjarfógetaembætti. Hann gerði sem sje ráð fyrir því, að gjalda yrði viðkomandi starfsmanni sama kaup eftir mínum till. og eftir frv., með því að honum væri ætlað sama starf. En svo er ekki. Kauptúnið hjeldi áfram að vera einn hreppur í sýslunni og sýslumaður annaðist ýms þau störf, er embætti hans heyra til og falla mundu að öðrum kosti undir bæjarfógeta á þessum stað. Sá embættismaður, sem fyrir mjer vakir, myndi því hafa mun þrengra starfssvið en bæjarfógeti, og því rjettmætt, að laun hans væru þeim mun lægri.

Mjer er kunnugt um, að hv. frsm. meiri hl. hefir áður fyr getað látið sjer nægja þá úrlausn þessa máls, er jeg sting upp á. Ætti hann því ekki að lá mjer mikið, að jeg stend nú á þeim grundvelli, sem hann sjálfur hefir getað hugsað sjer að standa á.