11.02.1928
Efri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3556 í B-deild Alþingistíðinda. (3290)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg vona, að það sje misskilningur en ekki rangfærsla á orðum mínum, er lýsti sjer í ummælum hv. 3. landsk. um samanburð minn á Skipaskaga og Norðfirði. En hvort heldur sem er, þá verð jeg að leiðrjetta. Hv. 3. landsk. virðist taka samanburð minn á þann hátt, að jeg vildi gera lítið úr framleiðslu Skagabúa. Það hefir mjer aldrei komið til hugar. Enda skiftir það minstu um nauðsyn þess embættismanns, sem frv. fer fram á, hvað framleitt er á hverjum stað. Hitt skiftir meiru, að útflutningurinn nemur að verðgildi annarsvegar nær 2 milj. kr., en hinsvegar ekki 1 kr. Það snertir viðkomandi embættismann ekki svo mikið, þótt þeir Akurnesingar selji kartöflur fyrir 100 þús. kr. árlega, og það enda þótt meira væri. Til þess að sú sala geti gengið fyrir sig, þarf hann ekki að skrifa upp á nein skipsskjöl eða innheimta toll. Það snertir því ekki þetta mál, hvort um er að ræða kartöflur eða annað, sem framleitt er til innanlandsnotkunar. Í samanburði mínum voru engar dylgjur fólgnar í garð Akurnesinga, enda eiga þeir það á engan hátt skilið, að hnjóðað sje í þá sjerstaklega.

Jeg vona sem sagt, að hjer sje um að ræða misskilning hjá hv. 3. landsk., en ekki útúrsnúning. Minn rökstuðningur stendur enn óhrakinn. Tölurnar eru teknar úr Hagtíðindunum, og getur hver flett þeim upp, sem vill.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði gert ráð fyrir, að í báðum tilfellunum, hvort sem fylgt væri till. hv. minni hl. eða frv., mundi launagreiðslan úr ríkissjóði verða sú sama. Jeg get ekki búist við öðru, ef settur er valdsmaður á þessum stað á annað borð, en að hann hafi fult lögregluvald. Annars kemur hann ekki að fullum notum. Og jeg get ekki hugsað mjer, að ríkið geti látið sjer sæma að bjóða slíkum manni lægri laun en till. hæstv. forseta fer fram á, og helst ekki minni en frv. gerir ráð fyrir.

Hv. þm. (JÞ) sagði, að sýslumaður hjéldi áfram að gegna einhverju talsverðu af starfinu. Ef hann á að gegna meiru en dómarastörfum, þá hefi jeg misskilið till. minni hl., hv. 3. landsk. Jeg hefi hingað til haldið, að hann vildi þó með sinni till. bæta úr því ástandi, sem er og verður æ óviðunanlegra því lengra sem líður. En ef vald þess manns, sem til kemur, er að engu aukið frá því, sem oddviti og hreppstjóri hafa nú, þá eru umbæturnar sáralitlar. Ef þessu er svo háttað, sem helst er að skilja af orðum háttv. 3. landsk., þá fer jeg að líta svo á, að dagskrártill. hans sje ekki annað en vingjarnlega orðuð tilmæli um að víkja þessu máli frá, án þess að reynt sje að bæta úr þeirri þörf, sem því veldur, að þetta frv. er fram komið.

Þá er loks rúsínan í endanum hjá hv. 3. landsk.: að jeg eigi ekki að taka hart á sjer, af því að samskonar hugmynd og hann gengur nú með hafi einu sinni vakað fyrir mjer.

Síðan 1913 hefi jeg verið að velta þessu máli fyrir mjer, og það er satt, að um eitt skeið var jeg ekki frá því, að ef til vill nægði sú úrlausn, sem hv. minni hl. allshn. leggur nú til. En nú hefi jeg íhugað þetta mál um margra ára skeið og á þeim tíma sannfærst æ betur og betur um, að þessi lausn getur að vísu nægt á ýmsum stöðum, og þar á meðal máske á Skipaskaga, en hún á bara alls ekki við á Norðfirði og kemur ekki að fullu liði þar eins og nú er komið. Hv. 3. landsk., er lítið hefir um þetta mál hugsað, á eftir að melta það nokkuð betur til þess að komast að sömu niðurstöðu og jeg. Sá er munurinn, að jeg er þetta lengra kominn en hann. Þetta er því ekki til málsbóta eða inntekta fyrir hv. þm.

Málið ætti nú að fara að verða sæmilega vel upplýst. Þótt jeg hafi ekki lagst á móti brtt. hæstv. forseta, vil jeg taka það skýrt fram, að jeg tel þar of langt gengið í lækkun launanna. Það er að vísu nokkuð til í því, sem hæstv. forseti sagði, að 4200 kr. eru sæmileg byrjunarlaun. Jeg kannast við það. Og auk þess veit jeg, að bæjarfjelagið mundi búa svo að þessum embættismanni sínum, að hann sæi sjer fært að una við kjör sín. Auk þeirra 1500 kr., sem hann fengi úr ríkissjóði upp í föst laun, fengi hann líka skrifstofukostnað sem aðrir samskonar starfsmenn, og hreppurinn mundi og greiða skrifstofukostnað í hlutfalli við þau störf, er í hans þágu eru unnin. Jeg skal því kannast við, að það kann að mega una þessum launakjörum fyrst um sinn, þótt mjer hinsvegar þyki þau fulllág.