16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3560 í B-deild Alþingistíðinda. (3295)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Pjetur Ottesen:

Með þessu frv. um bæjarstjórn á Norðfirði er farið fram á að skipa þar sjerstakan bæjarfógeta, launaðan úr ríkissjóði, þó ekki nema að nokkru leyti, því að gert er ráð fyrir, að hann fái nokkurn hluta launa sinna úr bæjarsjóði fyrir þau störf, er hann vinnur í þágu kaupstaðarins. Ástæðurnar til þessa munu vera þær, að þetta þorp hefir vaxið mjög óðfluga nú á síðustu árum og er nú orðið allmannmargt, 1200–1300 manns búandi í kauptúninu. sökum þessa er það orðið allmiklum vandkvæðum bundið, að hreppstjóri geti int af hendi þau störf, er undir hann heyra; eins og nú er ástatt. — Þetta mun vera ástæðan til þess, að þetta frv. er nú fram komið.

Jeg vil geta þess, að líkar aðstæður og á Norðfirði eru ekkert einsdæmi. Á Akranesi t. d., þar sem jeg þekki mjög vel til, er eins ástatt. Fólkstala er þar svipuð orðin og örðugleikarnir á framkvæmd sveitarmálefna og lögreglustjórn hafa líka sagt til sín þar. Og jeg veit, að víðar muni svo vera.

Nú er um það að ræða, hvernig þessi vandkvæði verði sem best leyst, og þá ber Alþingi og að taka tillit til þess, á hvern hátt þau verði ódýrast leyst fyrir ríkissjóð. Hv. Ed. hefir komist að þeirri niðurstöðu, að heppilegast væri að leysa vandamálið á þann hátt að stofna bæjarfógetaembætti á þessum stað. En jeg vil leyfa mjer að benda á aðra leið, er kom fram í till. í sambandi við þetta mál, um að leysa þetta spursmál á annan hátt en frv. fer fram á. Þessi till. kom frá minni hl. allshn. í Ed., hv. 3. landsk., og er dagskrártill. um að vísa þessu máli frá nú með þeim forsendum, að skora á landsstjórnina að taka til athugunar, hvort ekki sje hægt að leysa vandkvæðin þannig, að sameina störf oddvita og hreppstjóra á hendur einum manni, er og hafi á hendi umboðsstörf sýslumanns, og leggi ríkissjóður fram nokkurn styrk í þessu augnamiði.

Jeg vil segja það sem mína skoðun, að jeg tel vandkvæðin sæmilega leyst á þennan hátt, og þetta fyrirkomulag mun reynast mun ódýrara. Og því meiri ástæða er til þess að athuga það, sem fullvíst má telja, að víðar muni verða farið fram á þetta sama. Það spor, sem stigið er með þessu frv., þótt ekki sje stórt, mundi verða til þess, að fleiri færu í þá slóð á eftir. Því er vert að athuga vendilega þetta mál þegar í byrjun. Í meðferð hv. Ed. á þessu frv. er eitt atriði, sem vert er að vekja athygli á. Og það er það, að launin, sem þessi embættismaður á að fá, voru lækkuð af deildinni um 1000 kr. frá því, sem flm. ætlaðist til. Þau eiga nú að vera í byrjun 1500 kr., en hækka upp í 2500 kr. — Þetta er sá hluti launanna, er greiðist úr ríkissjóði. — Jeg vil nú benda á, að þetta er aðeins byrjunarstig. Þess verður ekki langt að bíða, að laun þessa bæjarfógeta verði gerð hliðstæð launum annara valdsmanna. Til þess að sýna fram á, hvernig farið hefir og farið getur, vil jeg rekja sögu launa bæjarfógetans á Siglufirði. Þar var líkt farið af stað. — Bæjarfógetaembættið á Siglufirði var stofnað með lögum frá Alþingi árið 1918. Var þá gert ráð fyrir, að hann hefði 2000 kr. árslaun. Á þingi 1919, er launalögin voru samin, var hann tekinn upp í ákvæði launalaganna með — að því er jeg ætla — 2500 kr. byrjunarlaunum, hækkandi upp í 3500 kr. Loks árið 1921 er hann gerður hliðstæður öðrum sýslumönnum og laun hans hækkuð í samræmi við það, eða með öðrum orðum: byrjunarlaun 4200 kr., en hækkandi upp í 5200 kr.

Þannig er þá ferill þessa máls, og má af líkum ráða, að niðurstaðan yrði sú sama nú.

Jeg vildi með þessum fáu orðum aðeins benda háttv. deild á þessa till., sem kom fram í Ed. frá háttv. 3. landsk., og einkum vil jeg skjóta því til háttv. nefndar, sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, hvort hún vilji ekki taka hana til athugunar, því að jeg hjelt, að þannig horfði við nú, að hlutverk þessa þings mundi ekki vera að stofna ný embætti eða stofna til útgjalda á þeim sviðum, þar sem hægt er að komast hjá þeim.