16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3563 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Sveinn Ólafsson:

Jeg heyrði því miður ekki alla ræðu háttv. síðasta ræðumanns, með því að jeg var fjarstaddur, og er mjer því ekki fullkomlega kunnugt um, hverju haldið hefir verið fram gegn þessu frv.

Eins og málið liggur nú fyrir, má segja, að það hafi gengið í gegnum einskonar hreinsunareld. Í þrjú ár hefir það legið fyrir háttv. Ed. og er nú loks komið þetta áleiðis. Það má því gera ráð fyrir, að búið sje að telgja af því smíðalýtin að því er formið snertir. Mjer skildist af því, er jeg heyrði af ræðu háttv. þm. Borgf., að hann jafnvel hvetti til þess að fresta málinu ennþá um sinn. Frestun getur ekki þýtt það, að þetta mál falli niður. Hún getur aðeins tafið framgang þessarar hugmyndar um stuttan tíma, því að svo hlýtur að fara innan tíðar, sem til er stefnt í þessu frv., að bæjarrjettindin verði veitt. Það hefir ekki aðeins fjárhagslega þýðingu fyrir þetta kauptún; jeg vil líka kannast við þær ástæður fyrir framkomu þessa frv., að það hafi menningarlega þýðingu fyrir íbúa kauptúnsins.

En að því er við kemur óttanum við hækkun launa væntanlegs bæjarfógeta á Norðfirði, þá virðist mega geta eins atriðis, sem getur meira en vegið upp á móti henni. Það er tæplega hægt að gera ráð fyrir því eða ætlast til þess, að gjaldheimta og lögregla sje þar í góðu lagi með þeirri skipun, sem nú er á þessum stað, og þar sem jafnmiklar siglingar eru af útlendingum. Engin höfn eystra jafnast við Norðfjörð í því efni.

Þeir, sem til þekkja og eru kunnugir staðháttum á þessum slóðum, vita, að sýslumaður býr svo langt frá og leiðir eru svo torsóttar frá honum til Norðfjarðar, að eftirlits af hans hendi gætir mjög lítið. Þess vegna er fullkomin nauðsyn á yfirvaldi á þessum stað.

Í þessu frv. er grynnra tekið í árinni um launaveitslu úr ríkissjóði en um bæjarfógetann á Siglufirði, því að væntanlegur bæjarfógeti á Norðfirði á að fá 2/5 lægri byrjunarlaun úr ríkissjóði, en aftur hlutfallslega hærra frá sjálfu bæjarfjelaginu. Getur þetta ákvæði komið sjer vel við skipun hliðstæðra mála eftirleiðis, að hafa hliðsjón af þessu fyrirkomulagi. Eftirleiðis hygg jeg, að stefnt verði að því, að launaupphæðin verði að meira leyti krafin af hlutaðeigandi bæjarfjelögum. Þykir mjer það vel við eiga, því að þessir embættismenn eru að svo miklu leyti starfandi í þágu viðkomandi bæjarfjelaga, að það virðist í alla staði sanngjarnlegt, að þau beri bróðurpart kostnaðarins.

Þetta mál hefir nú legið svo lengi fyrir þinginu, að frá formsins hlið eru ekki margar aths. við það nauðsynlegar. Að fara að ræða einstakar greinar frv. á ekki við við þessa umr., og þótt jeg vildi gefa hv. nefnd, sem um þetta mál fær að fjalla, bendingar, þá er jeg ekki undir það búinn. En einstök atriði verða þar að sjálfsögðu tekin til athugunar, og má ætla, að til álita komi þá 12. gr. frv. Nefndin á verkefni fyrir höndum, að athuga, hvort ekki megi þar aðra skipun á gera en sú grein kveður á um. Um sjerstakar till. í því efni frá minni hálfu er ekki að ræða í þetta sinn.

Það liggur í hlutarins eðli, að fleiri kauptún munu á eftir fara, er Norðfjörður hefir öðlast sín bæjarrjettindi og fengið sinn sjerstaka bæjarfógeta. Jeg hygg, að öllum hafi líka verið það ljóst, er samþ. voru lögin um skipun bæjarfógeta á Siglufirði, að þar með væri ekki lokið öllum erindum af því tægi. Skal jeg að vísu engu spá um það, hver verður næstur í röð. En vitanlega verður það eitthvert það kauptúnið, sem líkasta hefir sjerstöðu sem Norðfjörður. Jeg ætla þó, að ekkert kauptún annað hjer á landi standi honum líkt að vígi, og vissulega er engin höfn utan bæjanna jafnfjölsótt af útlendum skipum sem Norðfjörður. Hvergi annarsstaðar hygg jeg jafnbrýna þörf á sjerstökum lögreglustjóra.