16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3565 í B-deild Alþingistíðinda. (3297)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Pjetur Ottesen:

Það er annaðhvort, að hv. 1. þm. S.-M. hefir ekki heyrt ræðu mína áðan eða hann hefir ekki athugað í því sambandi þau orð mín, að fyrir lægi önnur lausn á þessu máli. Það var þó aðalkjarni ræðu minnar, að beina því til nefndarinnar, hvort ekki væri hægt að leysa málið á þeim grundvelli. Um hitt atriðið, hvernig reynslan hefði orðið um bæjarfógetaembættið á Siglufirði, talaði hv. 1. þm. S.-M. lítið.

Hv. 1. þm. S.-M. talaði um, að með þessu fengist ef til vill grundvöllur til þess að færa kostnaðinn af ríkissjóði yfir á bæjarsjóðina. Þetta er aðeins spádómur hjá hv. þm. En þegar við höfum reynslu í þveröfuga átt við þennan spádóm, þá verð jeg að taka meira tillit til hennar, hversu mikið álit sem jeg kann að hafa á spádómsgáfu þessa hv. þm.