28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3569 í B-deild Alþingistíðinda. (3308)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Frsm. minni hl. ( Magnús Guðmundsson):

Jeg mun ekki tefja umr. lengi, svo að hv. frsm. meiri hl. þarf ekki að verða hræddur.

Það, sem menn greindi á um í nefndinni, var, að minni hl. vildi, að málið yrði tekið upp á nokkru breiðari grundvelli. Minni hl. álítur, að um þau kauptún, sem orðin eru fjölmennust, sje ástæða til að athuga það vel, hvort ekki væri rjett að fela þar einum og sama manni að hafa á hendi störf hreppstjóra og oddvita og ennfremur innheimtu fyrir ríkissjóð. Þótt Norðfjörður sje nú allfjölmennur, þá er að minsta kosti eitt annað kauptún fjölmennara, sem sje Akranes. Jeg geri ráð fyrir, að ef þetta frv. verður samþykt nú, þá megi ganga að því vísu, að bráðlega komi beiðni frá Akurnesingum um, að því sjeu gerð sömu skil, og sje jeg ekki, að þá verði hægt að neita þeirri beiðni. Af þessum ástæðum álítur minni hl. nefndarinnar rjett að athuga, hvort ekki sje hægt að finna eitthvert millistig milli kaupstaða og venjulegra hreppa. Jeg held, að það megi áreiðanlega finna eitthvert hagkvæmt fyrirkomulag, sem yrði ríkissjóði talsvert ódýrara en það, sem stungið er upp á í þessu frv. En till. minni hl. koma alls ekki af því, að hann viðurkenni ekki, að á Norðfirði sje þörf á breytingum, og má því ekki skilja afstöðu okkar minnihlutamanna svo, að við viljum neita Norðfirði um rjetting sinna mála. En minni hl. álítur, að fleiri muni koma á eftir, og því er honum áhugamál, að reynt verði að finna fyrirkomulag, sem í framtíðinni verði bæði ódýrt og hagkvæmt fyrir ríkissjóð. Það er þetta og ekkert annað, sem vakir fyrir minni hl. Hann hengir sig ekki í það, þótt þarna yrði stofnað nýtt embætti, en hann vill aðeins ekki setja hjá önnur kauptún, sem hafa sömu eða svipaða sanngirniskröfu á bættu skipulagi.

Það má vel vera, að orð landlæknis hafi mikið að segja, en í þessu máli held jeg, að ekki sje mikið upp úr þeim að leggja. Hann lítur auðvitað einungis á málið frá heilbrigðisjónarmiði. Jeg veit, að það er verið að semja skipulagsuppdrátt, en jeg held, að það mál gangi sinn gang, hvort sem bæjarfógeti kemur þar eða ekki.