28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3570 í B-deild Alþingistíðinda. (3309)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Sveinn Ólafsson:

Jeg get tekið undir það með hv. frsm. meiri hl., að það stendur nokkuð sjerstaklega á með Norðfjörð af þeim kauptúnum, sem til mála gæti komið um, að fengju svipuð rjettindi, sem hjer er stofnað til. Það stendur fyrst og fremst ólíkt á að því leyti, að fullvíst er, að ekkert annað kauptún á landinu hefir eins mikla sigling erlendra skipa og Norðfjörður. Jeg veit, að að undantekinni Reykjavík, Siglufirði og Akureyri um síldveiðatímann eru alstaðar minni siglingar en á Norðfjörð. Þetta kemur fyrst og fremst af því, að höfn er þar góð, en hitt vegur þó meira, að innsigling er örstutt og fiskisæl mið utan við fjörðinn; einnig er leiðin inn greiðfær og auðfarin, jafnvel í dimmviðri. Norðfjörður hefir þess vegna dregið mjög að sjer siglingar erlendra skipa. En hinsvegar eru mikil vandkvæði á því að halda þar uppi góðri skipan og reglu, því að þessir mörgu útlendingar eru, eins og að líkindum lætur, talsvert uppivöðslusamir. Aðstaðan til þess að styðjast við yfirvald sýslunnar er mjög örðug, þar sem hann á setu á Eskifirði. En Norðfjörður er umgirtur fjöllum á alla vegu, og leiðir allar mestan hluta ársins illfærar, þar sem yfir mjög örðuga fjallvegi er að fara. Þetta alt gefur staðnum algerða sjerstöðu, og þótt það, sem felst í rökstuddri dagskrá minni hl., að leita þess ráðs að skipa málum stærstu kauptúnanna á einn og sama hátt, sje út af fyrir sig þess vert, að það sje tekið til athugunar, þá er sjálfsagt að gera nú þegar þessar umbætur á Norðfirði.

Það er víst, að úr engu kauptúni landsins heimtast jafnmiklar tekjur í ríkissjóð sem frá Norðfirði. Þess vegna verður að telja ríkinu skylt að styðja að betri skipun tollheimtu þar og lögreglustjórnar.

Jeg vildi með þessu árjetta það, sem háttv. frsm. meiri hl. sagði, en um leið skal jeg bæta því við, út af brtt. á þskj. 409, að jeg hygg, að vel megi takast að festa nafnið Nes við staðinn, því að málvenjan eystra mun hjálpa nafnbreytingunni; þar er oft enn í dag kveðið svo að orði, að ferð verði farin að Nesi, þótt hitt sje algengara, að nefna Norðfjörð. Það var líka áður orðin föst málvenja að tala um Berufjörð, en ekki Djúpavog, þótt þar væri höfnin. En nú er þetta orðið öfugt; nú hefir málvenjan breytt þessu og kauptúnið er nefnt Djúpivogur, en ekki Berufjörður, og breytingin fjekst með að festa nafn staðarins í áætlunum skipanna. Þessa vildi jeg geta til skýringar og til þess að sýna, að vel mun hægt að festa nafnið Nes í málvenjunni, sem auðvitað er líka rjetta heiti staðarins. Alt öðru máli er að gegna um Seyðisfjörð, því að sá kaupstaður stendur á jörð, sem til forna hjet Seyðisfjörður. Alveg sama máli er að gegna um Eskifjörð. Annars vil jeg benda hv. frsm. meiri hl. á það, að ótrúlega fljótt hefir tekist að breyta nöfnunum á höfuðborgum Rússlands og Noregs, þétt miljónaþjóðir ættu í hlut.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en jeg vildi gefa þessar skýringar um nafnbreytinguna, af því að jeg býst við, að jeg sje kunnugastur allra hv. þdm. á þessum slóðum.