28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3580 í B-deild Alþingistíðinda. (3313)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Pjetur Ottesen:

Mjer skilst, að hv. frsm. meiri hl. vilji algerlega miða við þá sjerstöku staðhætti, sem hann telur vera fyrir hendi á Norðfirði, og draga þá ályktun, að vandkvæðin verði þar ekki leyst á annan hátt en frv. fer fram á. Jeg tek málið á víðara grundvelli, því að jeg vil miða við væntanlegt framtíðarskipulag þessara mála. Mjer finst sjálfsagt að hafa það í huga nú, að samskonar vandkvæði þarf að leysa á mörgum stöðum, og fer best á, að sá grundvöllur sje nú lagður. Því hefir í báðum deildum komið fram tillaga um að vísa málinu til stjórnarinnar, og er sú afgreiðsla langeðlilegust á þessu stigi.

Hv. frsm. heldur því fram, að vandræði Norðfirðinga verði ekki leyst á annan hátt en lagt er til í frv. Þetta er auðvitað staðhæfing, og ekkert annað, og reynslan mælir á móti því. Og þó að hægt kunni að vera að segja, að þetta sje fullkomnara fyrirkomulag, verður að taka tillit til fjárhagsins. Menn verða oft að sætta sig við það, þó að ekki fáist það, sem helst væri á kosið.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að mjer mundi renna blóðið til skyldunnar, er til þess kæmi að sjá Akranesi borgið. En við, sem hjer sitjum í umboði þjóðarinnar, höfum fleiri skyldur en að líta á hag einstakra staða. Við höfum skyldur við þjóðina alla.

Þá vildi hv. frsm. draga það í efa, að líkt stæði á um Akranes og Norðfjörð, og benti á, að engar vörur flyttust beint til Akraness. Það er raunar ekki von, að hv. þm., sem mestan sinn aldur hefir verið austur í Rangárvallasýslu, viti um þetta. Það er rjett, að á stríðsárunum fluttust vörur ekki beint til Akraness frá útlöndum, en svo var því háttað þá um fjölmörg kauptún. En nú hefir orðið breyting á þessu, og allar vörur eru fluttar beint til Akraness. (GunnS: Með stórskipum?). Já, með þeim stórskipum, sem hjer eru notuð. Raunar skiftir það engu máli, hvort skipin eru stór eða lítil. Svo gaf hann í skyn, að minna flyttist af vörum til Akraness en Norðfjarðar. Jeg geri þó ráð fyrir, að þar, sem fleira fólk er, sjeu meiri þarfir. Þá sló hv. frsm. því föstu — af álíka miklum kunnugleika —, að Norðfjörður mundi vaxa meir í framtíðinni en Akranes, af því að hann lægi betur við samgöngum. Jeg hjelt, að hitt væri aðalvaxtarskilyrði slíkra staða, að þeir liggi vel við fiskiveiðum. Jeg er að vísu ekki nákunnugur aðstöðu Norðfjarðar hvað þetta snertir, en það veit jeg þó, að bátar frá Norðfirði stunda fiskiveiðar frá Hornafirði suma tíma ársins. En nú er svo komið, að Akranesingar geta stundað fiskiveiðina heimanað alt árið. Þar, sem svo stendur á, eru miklu meiri líkur til, að útgerðin aukist heldur en þar, sem bátar verða að flýja í aðrar veiðistöðvar um lengri tíma. Auk þess getur það valdið miklu um vöxt og framtíð slíkra staða, hvernig hagar til um viðskifti við nærliggjandi sveitir. Á Akranesi er útlit fyrir, að sveitaverslun aukist í náinni framtíð. Jeg veit eigi með vissu, hvort svo hagar til á Norðfirði. En jeg held þó, að aðalsveitaverslun sú, sem þarna er um að ræða, sem ekki er á Seyðisfirði, sje rekin á Reyðarfirði.

Jeg hygg því, að sú ástæða, að Norðfjörður muni vaxa mikið af þessum ástæðum, framar Akranesi eða öðrum kauptúnum, sje eigi rjettmæt og eigi rót sína að rekja til einberrar vanþekkingar hv. þm. á báðum stöðunum. (GunnS: Slagorð). Jeg þykist hafa fært rík rök fyrir mínu máli, en hv. frsm. meiri hl. hefir engin rök fram að bera. Hann ætti því ekki að tala um slagorð, þegar hann talar um, að Akranes geti vel sætt sig við það, sem hann kallar millistig, en að á Norðfirði sje ekki hægt að komast af án þess að setja þar á stofn bæjarfógetaembætti. En verði þetta mál afgreitt nú eins og hv. frsm. vill, er því slegið föstu, að svo skuli og farið að annarsstaðar, og er ekki mikill sparnaðarbragur á þeirri ráðstöfun.

Álit landlæknis er ekki mikils virði í þessu máli. Það er miðað við það ástand, sem nú er. En á því verður mikil breyting með skipulagi því, sem við hv. frsm. minni hl. stingum upp á. Það kemur heldur ekkert málinu við, hvort skipulagsuppdrátturinn er fullgerður eða ekki. Þegar honum er lokið, verður farið eftir honum, hvort sem bæjarfógeti er skipaður eða annað fyrirkomulag upp tekið. Allir verða að beygja sig undir þá opinberu ráðstöfun.

Þá talaði hv. frsm. meiri hl. um það, að hægra væri að ná til sýslumanns af Akranesi en Norðfirði. Jeg er ekki vel kunnugur vegalengd frá Norðfirði til Eskifjarðar. En jeg vil þó benda hv. frsm. á, að oft er talsverðum erfiðleikum bundið fyrir menn á Akranesi að ná til sýslumanns í Borgarnesi, og er það bagalegt þar, engu síður en á Norðfirði, að þurfa að senda tollreikninga alla til sýslumanns. Held jeg yfirleitt, að hjer sje ekki mikill aðstöðumunur milli þessara tveggja staða.