05.03.1928
Efri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3599 í B-deild Alþingistíðinda. (3328)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Jón Þorláksson:

Jeg skal með ánægju reyna að svara spurningum hv. þm. Ak., en jeg hefði verið betur viðbúinn að svara þeim, ef hann hefði látið mig vita um þær áður, því að nú hefi jeg ekki annað til að fara eftir en það, sem jeg hafði skrifað mjer til minnis í vasabók, sem jeg af hendingu hefi hjá mjer.

Það er þá fyrst, á hverju jeg byggi áætlun mína um olíumagn síldarinnar. Það er alveg rjett hjá hv. þm. Ak., að fitumagn síldarinnar hafi verið 17% í sumar, en þá var síldin óvenju mögur. Hitt mun venjulegra, að fitumagn hennar sje 19%, en háttv. þm. hefir gleymt því, að öll feitin kemur ekki fram í síldarlýsinu við vinslu síldarinnar. Með þeim aðferðum, sem nú eru hafðar, verða eftir í mjölinu 10–14% af feiti, eða sem jafngildir 10–14% af þyngd mjölsins. En það er kunnugt, að þyngd mjölsins er um 16% af þyngd hrásíldarinnar, og það, sem eftir verður af feiti í mjölinu, nemur þá því, að af 17 til 19% fást ekki nema 14–16% af lýsi, með þeim vinsluaðferðum, sem nú eru notaðar. Jeg bygði samt ekki áætlun mína á þessu. Jeg gat þess í skýrslu minni, að þessi tala, 19 smál. af 1000 málum síldar, er bygð á reynslunni í sumar, en þá var, eins og kunnugt er, síldin venju fremur mögur, sem álíta má, að hafi stafað af því, að mikill hluti þeirrar síldar, sem fór í bræðslu, var mjög snemma veiddur, jafnvel fyrir venjulegan tíma, eða um miðjan júlí.

Þegar jeg gerði þessa áætlun mína, hafði aðeins ein síldarverksmiðja lokið við að vinna úr hráefni sumarsins, en á árangri hennar hefi jeg bygt tölur mínar um það, hve mikill þungi af olíu fæst úr síldinni. Jeg hirði ekki um að gefa annað upp en lokaniðurstöðuna, sem er sú, að verksmiðjan fjekk 18,3 tonn af olíu úr hverjum 1000 málum, en það svarar til 14% eftir stærð málanna, og ef tillit er tekið til feitinnar, sem eftir er í mjölinu kemur það nákvæmlega heim við skýrslu hv. þm. Hv. þm. Ak. sagði, að 17% væri óvenju lágt. Hitt skal jeg játa, að það koma betri ár, og fást þá venjulega 22 tonn úr hverjum 1000 málum, en jeg álít, að ekki megi taka hagstæðustu tölurnar, því þá verður útkoman í reyndinni lakari.

Jeg hefi þá svarað þeim spurningum, sem hv. þm. Ak. lagði fyrir mig. Jeg get ekki sjeð, að fært sje að byggja rekstraráætlun á því, að 22 tonn af olíu fáist úr 1000 málum af síld. (EF: Jeg byggi á því). Mjer virðist ófært að byggja á því almenna útreikninga, þó að jeg hinsvegar játi, að þau ár koma, að þetta getur átt sjer stað.

Jeg hefi ekki meira að segja út af spurningum hv. þm., en jeg get bætt því við, að jeg hefi vikið að því í skýrslu minni til stj., að fram er komin ný aðferð við síldarvinslu, sem er fullkomnari frá teknisku sjónarmiði en hinar gömlu pressunaraðferðir. Með þessari aðferð, sem kalla mætti hina þýsku aðferð, næst svo að segja öll olían úr síldinni. Aðferðin gefur með öðrum orðum hærri olíuprósentu. En hún hefir ekki verið notuð í stórum stíl enn og hjer er ekki tækifæri til að kynnast henni og lítið í Noregi. Í skýrslu minni lagði jeg áherslu á, að þetta yrði rannsakað, og jeg get endurtekið það, að jeg tel hina mestu nauðsyn á, að slík rannsókn fari fram, ef fara á að stofna verksmiðju með atbeina ríkisins, hvort heldur sem er með láni eða, framlagi úr ríkissjóði. Það getur verið, að þessi þýska aðferð verði kostnaðarsamari. en hinsvegar nýtast hráefnin betur, og rannsókn þarf að sýna, hvort hjer er hagnaðarvon.

Út af frv. sjálfu vil jeg bera fram þá fyrirspurn og beina henni til hv. flm. eða hæstv. fjmrh., eftir því hvorum þykir betra að svara, hvort skilja beri 1. gr. frv. þannig, að framlagið úr ríkissjóði, sem tiltekið er í 2. gr., sje bundið við það, að verksmiðjan sje stofnuð sem ríkiseign. Mjer sýnist, að næst liggi að skilja 1. gr. svo, að hún fjalli ekki um stofnun verksmiðju nema sem ríkiseign, þó að hún heimili, að verksmiðjan sje látin í annara hendur til starfrækslu. Jeg óska eftir að fá að vita, hvort ákvæði frv. eigi við verksmiðju sem ríkiseign eða ekki.