05.03.1928
Efri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3602 í B-deild Alþingistíðinda. (3329)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg mintist á þetta mál við 1. umr. og hefi litlu við það að bæta, sem jeg sagði þá. Jeg er lítinn gefinn fyrir endurtekningar. En það er sjerstaklega út af fyrirspurn hv. 3. landsk., sem jeg tel rjett að segja nokkur orð, og reyndar út af fleiri atriðum. Jeg vona, að þetta mál fái góðan byr og deildin verði einhuga í að afgreiða það. Mjer finst sjálfsagt, að þm. sje ljóst, að hjer er ekki um neitt hjegómamál að ræða. Hjer veltur á þeim atvinnuvegi landsmanna, sem gæti gefið drýgstan arð, bæði fyrir einstaka menn og ríkissjóð. Það hefir dregist of lengi að reka þennan atvinnuveg af nokkru viti. Það hefir eingöngu verið hugsað um að moka sem mestum afla upp úr sjónum, en ekkert um að hagnýta veiðina. Það er því mál til komið, að svo sje gert. Það var mjög gott að fá hina miklu fræðslu á þessum málum frá hv. 3. landsk. þm. og hv. þm. Ak. og þeirra góðu bendingar um það, hvernig haga á framkvæmdunum. En jeg vil lýsa með nokkrum orðum, hversu þróun þessa atvinnuvegar er farið, þar sem hann er lengst á veg kominn. Það er ólíku saman að jafna, hvað skilyrðir eru betri hjer en í Noregi. Og úr því Norðmenn hafa ekki beðið tjón við að leggja mikið fje í þennan atvinnuveg, má fullyrða, að hjer sje um stórkostlegan gróða að ræða fyrir okkur, bæði þá, sem stunda veiðina og fara með hagnýtingu afurðanna. Hjer er síldin betri en í Noregi, veiðin er þar stopulli og um skemmri tíma, sem hægt er að búast við nægilegum hráefnum. Þó er þar mikill áhugi nú fyrir að auka starfræksluna og enn meira kapp en nokkru sinni áður. Á síðasta ári voru t. d. bygðar 15 bræðslustöðvar á örlitlu svæði, lítilli eyju, og sýnir það best, hvaða vonir menn tengja við þetta.

Jeg hygg, að jeg þurfi ekki að mæla neitt sjerstaklega með frv. Jeg tel víst, að það verði samþ., enda er sjálfsagt, að Nd. fái að athuga það. Og af því að engin hætta er á ferðum, hliðra jeg mjer hjá að fjölyrða um málið. Hitt er annað mál, að það eru ótal rök til fyrir frv., og fleiri en þau, sem fram hafa komið. Og reynslan sýnir áþreifanlega, að of lengi hefir dregist að hrinda þessu í framkvæmd. Þó að sjálfsagt sje að vanda allan undirbúning í þessu máli sem öðrum, tel jeg hina mestu nauðsyn, að framkvæmdunum sje hraðað svo sem unt er. Með hverju árinu, sem líður, fer mikið verðmæti forgörðum, sem einstakir menn og það opinbera eru í fullri þörf fyrir. Jeg tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frá almennu sjónarmiði, en vil aðeins benda á það, sem hv. 3. landsk. þm. tók fram í sambandi við rannsókn sína, sem jeg álít, að hafi verið prýðilega af hendi leyst, að þótt áætlanirnar væru varlegar, ætti það ekki að koma að sök. Það er gott, ef árangurinn verður betri en við var búist. En ef fara á að stofna til nýrra rannsókna, gæti það haft ársdrátt f för með sjer, en það tel jeg mjög óheppilegt. Um hina þýsku aðferð er það að segja, að hún er óreynd, og því gæti orðið nokkur áhætta af að nota hana, en ameríska aðferðin er trygg og full reynsla fengin fyrir henni. Sumar verksmiðjur hjer eru af vanefnum gerðar og því ekki rjett að byggja á því. Mjer skildist á skýrslu hv. 3. landsk. þm., að hægt væri að fá áhöld og vjelar eftir amerísku aðferðinni miklu betri en hjer hafa verið notaðar áður. Jeg býst við, að þýsku vjelarnar, sem nú er verið að reyna að koma á markaðinn, sjeu góðar, en hingað til hafa þær verið notaðar til vinslu á hvalafurðum, svo sem beini og kjöti, af því að þær eru betur fallnar til að skilja efnin en hinar, og sjerstaklega til að ná fituefnunum úr hráefnunum. Það er fjarri því, að jeg sje á móti, að grenslast sje eftir, hvernig þessar vjelar reynist, en það má ekki taka svo langan tíma, að það tefji málið um eitt ár.

Þá á jeg eftir að svara fyrirspurn hv. 3. landsk. um það, hvernig jeg hefði hugsað mjer starfrækslu og fyrirkomulag verksmiðjunnar. (JÞ: Jeg spurði um það, hvort frv. væri bundið við ríkiseign eða ekki). Það er svo margt, sem stendur í sambandi við það, að því er ekki hægt að svara með já eða nei. Jeg gerði grein fyrir því á síðasta þingi, hvað jeg áliti heppilegt. ef ríkið á annað borð skifti sjer af þessu. Jeg vil, að verksmiðjan komist upp og ríkið taki að sjer að starfrækja hana þannig, að framleiðendurnir kæmu afla sínum til vinslu. Þetta á ekki að vera gróðafyrirtæki fyrir ríkissjóð, heldur gert til þess að ljetta undir með atvinnuvegunum og fyrirbyggja, að afurðirnar ónýtist í höndum framleiðendanna. Hvort þetta er ríkisrekstur, læt jeg ósagt, ef menn eru svo viðkvæmir fyrir þess háttar atriðum. Jeg tel það ekki ríkisrekstur, heldur samtök ríkisþegnanna til eigin hagsbóta. En svo eru til tvær aðrar hliðar. Önnur er sú, að ríkið reki verksmiðjuna hreint og beint, kaupi hráefnin og vinni þau fyrir eiginn reikning. Hin leiðin er sú, að verksmiðjunni sje komið upp með aðstoð ríkisins, sem afhendi það svo einstökum mönnum eða fjelögum, sem væri þá það sama og þeir hefðu fengið stofnfje að láni. En auðvitað yrðu þeir að greiða allan stofnkostnað upp á hæfilega löngum tíma. Jeg vona, að hv. 3. landsk. sje mjer sammála um, að um þessar þrjár leiðir er að ræða. Það getur verið, að jeg hafi mína skoðun um það, hvaða leið sje heppilegust, en jeg tel ekki nauðsynlegt að ákveða neitt um það á þessu stigi málsins. Jeg býst við, að öllum sje ljóst, að það þarf að greiða fyrir hagnýtingu afurðanna á þessu ári, þó að í smáum stíl sje, en þó svo föstum tökum, að þegar á næsta ári verði reist nýtísku verksmiðja á Siglufirði, hvor aðferðin sem verður höfð.

Ef jeg hefi ekki svarað nógu skýrt, mælist jeg til, að hv. 3. landsk. segi til, svo að jeg þurfi ekki að tala aftur.