05.03.1928
Efri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3610 í B-deild Alþingistíðinda. (3331)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Jón Þorláksson:

Jeg hefi ekki áætlun mína við hendina og hefi ekki litið í hana nokkra daga, svo að jeg stend illa að vígi með að muna einstakar tölur. Jeg skal þó geta þess, að jeg hefi fundið hjá mjer upplýsingar frá annari verksmiðju um það, hve mikil olía var unnin þar síðastl. sumar. Það voru 18,8 smálestir úr hverjum 1000 málum síldar. Jeg hefi þess vegna farið heldur hærra en reynslan hefir sýnt síðastl. sumar, þar sem jeg áætla 19 smálestir, enda var það sumar, eins og kunnugt er, fyrir neðan meðallag um fitumagn síldar. Jeg get ekki annað en glaðst af því, að alt, sem hv. þm. Ak. hefir við áætlun mína að athuga, er á þann bóginn, að áætlun mín sje óþarflega gætileg. Jeg er frekar vanur hinu, að fá aðfinslur í gagnstæða átt.

Jeg tel þýðingarlaust að vera í þingræðum að þrátta um einstök atriði, eins og til dæmis umboðslaun og milligöngumenn um sölu. En mjer er skylt að upplýsa, að þar sem jeg hefi getað fengið vitneskju um tilhögun á rekstri slíkra verksmiðja, hafa menn orðið að greiða þann kostnað. Það er ekki nema gott, ef hægt er að komast hjá því og fá þó jafngott verð fyrir afurðirnar.

Það, sem háttv. þm. sagði um útflutningsgjaldið, er algerlega rangt. Það má engan veginn reikna svo, að gjöld, sem annars eru lögð á atvinnuvegi landsmanna, beri að reikna fyrirtækinu sem slíku til tekna, en ríkissjóður fái það ekki sem skatttekjur. Ef slík aðferð væri innleidd, hljóta allir að sjá, að samanburður á milli ríkisfyrirtækja annarsvegar og einkafyrirtækja hinsvegar yrði skakkur, ef borin er saman afkoma fyrirtækjanna sjálfra.

Hv. þm. sagðist hafa fundið reikningsvillu í áætlun minni, en það vill svo vel til, að hún fer einnig í þá átt að gera áætlun mína varlega. Ef rjett er með farið, þá er um reikningsvillu að ræða. Jeg vil samt ekkert fullyrða, fyr en jeg hefi athugað þetta í áætluninni sjálfri. En þetta verður þá sú eina af athugasemdum hv. þm., sem jeg get viðurkent, að sje rjettmæt. Jeg vil benda hv. þm. á það, að ef fyrirtækið kemst í framkvæmd, kemur nýr dómari til sögunnar, og það er reynslan. Jeg vil segja, að svo margt er óvíst um afkomu slíks fyrirtækis, að enginn

skyldi ætla sjer að fullyrða fyrirfram, hvernig afkoman verður. Veiðimagn, gæði og verð afurðanna o. fl. er sveiflum og breytingum undirorpið. En enginn ágreiningur er á milli okkar um það höfuðatriði, að það hráefni, sem verksmiðjunni er ætlað að vinna úr — hafsíldin —, er svo gott í samanburði við það, sem er annarsstaðar, og aðstaða okkar það góð, að verksmiðjan ætti að vera samkepnisfær, þegar til lengdar lætur, við samskonar verksmiðjur í öðrum löndum, ef í upphafi er til hennar stofnað með skynsemd og dugnaði.

Jeg hefi borið fram fyrirspurn um frv. það, sem fyrir liggur, en eiginlega ekki fengið svar. Jeg spurði, hvort álitið væri heimilt samkvæmt 1. gr. að fá ríkisfje öðrum í hendur til þess að koma upp verksmiðjunni, eða hvort það væri álitið fastákveðið, að fyrirtækið væri ríkiseign. (Fjmrh. MK: Jeg hefi svarað þessu). Nei, jeg er ekki ánægður með svar hæstv. ráðh. Hann sagði, að til væru þrjár leiðir í þessu máli. En jeg spurði ekki um það, heldur um hitt, hvort hann skildi 1. gr. þannig, að eftir henni væru allar þrjár leiðirnar heimilar. Mjer er það ljóst, að fara má þrjár leiðir í rekstri verksmiðjunnar. En mjer er óljóst, hvort heimilt er, að verksmiðjan sje eign nokkurs einstaklings eða fjelagsskapar eða ekki. Eftir orðalagi 1. gr. efast jeg um, að það geti álitist heimilt, en hinsvegar skildist mjer á hæstv. fjmrh., að hann hefði ekkert á móti því, að greinin væri þannig orðuð.

Jeg er alveg ósammála hv. þm. Ak. um það, hvort heppilegt sje, að verksmiðjan sje rekin fyrir ríkisreikning. Jeg held, að ríkið hafi mjög slæma aðstöðu til góðrar afkomu fyrirtækisins, miklu lakari aðstöðu en síldveiðimennirnir sjálfir. En það liggur ekki fyrir nú að taka ákvörðun um það. Jeg vil aðeins leggja áherslu á, að til þess að jeg geti fylgt frv., verður að vera þannig frá því gengið, að það feli í sjer ótvíræða heimild til að veita fjárstuðning einmitt fjelagi síldveiðimanna til þess að koma verksmiðjunni upp. Jeg geri enganveginn þá kröfu, að stjórnin sje bundin til að fara þá leið, en jeg get sem sagt ekki fylgt frv., nema heimild í þá átt sje ótvíræð.