23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3621 í B-deild Alþingistíðinda. (3349)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Jeg greip fram í áðan og gat þess, að jeg væri ekki viðbúinn að halda framsöguræðu nú; þar sem málið er síðast á dagskrá, gat jeg ekki átt þess neina von, að það yrði tekið fyrir á þessum fundi. Verður því framsaga mín öll önnur fyrir það, að jeg hefi ekki búið mig undir hana, svo sem jeg ætlaði mjer.

Mál þetta hefir legið fyrir sjútvn., og eins og sjá má af þskj. 539 og 555, hefir nefndin ekki getað orðið sammála. Ágreiningurinn er einkum sá, að meiri hl. getur að mestu fallist á frv. eins og það var lagt fyrir Ed., en minni hl. telur heppilegra að reisa verksmiðjurnar með því markmiði, að þær sjeu reknar af einstaklingum, en ríkið styrki þá til að koma þeim upp. Það er því um allmikinn stefnumun að ræða. Um leið og við leggjum til, að frv. verði samþ. ásamt breytingum okkar, þá leggjum við einnig til, að 2. gr. frv. verði feld niður, en sú grein var sett inn við 3. umr. í Ed. og hljóðar um það, að stjórnin hafi heimild til að selja verksmiðjurnar. En í stuttu máli má segja, að nefndin er yfirleitt á þeirri skoðun, að full ástæða sje til, að ríkið hjálpi þessum atvinnuvegi, síldarútveginum, með því, að reistar verði verksmiðjur og starfræktar með hag landsmanna fyrir augum.

Það getur vel komið til mála að reisa verksmiðjur víðar en á Norðurlandi. Síld er veidd fyrir Vestfjörðum og áður fyr var talsverð veiði stunduð frá Austfjörðum, og hafa margir þá trú, að veiði muni verða tekin þar upp á ný í allstórum stíl. Á síðastl. sumri veiddist þar töluverð síld, miðað við hversu útvegur var þar lítill. Virðist ekki rjett að útiloka það, að bygðar verði verksmiðjur annarsstaðar en á Norðurlandi, ef til þess kemur, að fleiri en ein verður bygð. Því leggur nefndin til, að fyrirsögn frv. verði breytt í samræmi við það, enda er gert ráð fyrir því í 1. brtt., að um fleiri en eina verksmiðju sje að ræða.

Ástæðurnar fyrir þessu frv. eru öllum kunnar. Sú er skoðun kunnugra manna, að einkasala á síld sje lítt gerleg, nema reistar sjeu verksmiðjur til að taka við þeirri síld, sem ekki er hægt að salta. Markaður fyrir saltaða síld er takmarkaður, veiðin oft mikil, svo skip verða jafnvel að hætta veiðum, ef verksmiðjur eru ekki til, sem taka við því af veiðinni, sem ekki er hægt að salta. Þótt allmargar verksmiðjur sjeu að vísu til hjer á landi, þá eru þær í höndum erlendra manna, og reynslan hefir sýnt, að þótt þær geti tekið við allmiklu af síld, þá sitja landsmenn oftast á hakanum með að geta selt þeim síld. Á síðastl. sumri urðu fjöldamörg innlend skip annaðhvort að moka henni í sjóinn eða láta hana fyrir mjög lágt verð — síldarmálið á þrjár krónur —, svo að ávinningur varð enginn. En þótti betra að selja þessu verði en fleygja síldinni í sjóinn. Slíkt ástand er algerlega óviðunandi.

Á síðasta þingi var samþ. þáltill. um að heimila stjórninni að láta rannsaka stofnkostnað og rekstrarkostnað síldarbræðslustöðvar. Rannsóknin var falin fyrv. forsætisráðherra (JÞ). Komst hann að þeirri niðurstöðu, að ávinningur væri að því að reisa slíka verksmiðju og reka, þó tillaga hans lúti að því, að verksmiðjan sje reist á kostnað ríkisins, en síðan starfrækt af samvinnufjelagi útgerðarmanna.

Hann bendir á, að ef reiknað er með því verði á lýsi og mjöli, sem var á síðastl. sumri, þá muni arðurinn, að frádregnum rekstrarkostnaði, verða um tvær krónur af hverju síldarmáli, miðað við 60 þús. mála vinslu og 9 kr. verð á síldarmáli. Nú þykir Norðmönnum borga sig að flytja óunna síld út til Noregs og vinna úr henni þar. Slík síld er þó ekki nærri eins góð til bræðslu og nýveidd síld; hún rýrist á leiðinni og lýsið, sem úr henni rennur, fer til ónýtis. Auk þess leggst flutningskostnaður á hana, alt að 4 kr. á mál. Þetta bendir á, að hjer sje um allarðsaman atvinnurekstur að ræða.

Allar síldarbræðslustöðvar landsins eru erlendra manna eign, að undantekinni einni, eða jafnvel tveimur, og þeim ekki á sem heppilegustum stöðum. Skipaflotinn, er síldveiði stundar, leggur afla sinn á land á Siglufirði og í Eyjafirði að mestu leyti, og þar þarf að byggja slíkar stöðvar. Þaðan er aðstaðan hægust fyrir skipin að sækja á veiðar. Jeg geri ráð fyrir, að fyrsta síldarbræðslustöðin yrði reist á Siglufirði, því þar er þörfin mest.

Þetta frv. veitir stjórninni aðeins heimild til að reisa síldarbræðslustöðvar. En jeg þykist þess fullviss, að stj. sjái nauðsyn þessa máls og ráðist í framkvæmdir svo fljótt sem við verður kornið. Bráðabirgðaákvæði viljum við setja inn í lögin, sem heimilar stjórninni að taka stöð á leigu í sumar, ef fáanleg er. Vegna þeirrar knýjandi nauðsynjar, sem verður á slíkri stöð, samfara einkasölu á síld, þá er þetta nauðsynlegt atriði. En það mun reynast ókleift að byggja bræðslustöð, fullkomnari en þær, sem fyrir eru — því það þarf hún að vera — fyrir síldveiðitímann á næsta sumri. Þess vegna höfum við tekið þetta ákvæði með. Jeg skal ekkert fullyrða um, hvort slíkar stöðvar eru til leigu eða ekki. En það eru tvær stöðvar nyrðra, sem mundu geta komið til mála í sambandi við einkasöluna. Jeg hefi einkum heyrt um eina, sem gæti unnið úr alt að 60 þús. málum síldar. Verksmiðja sú, sem hv. 3. landsk. hefir gert áætlun um, á að geta unnið úr alt að tveim þús. málum á dag. Jeg vil í þessu sambandi drepa á það, að sú hefir verið reynslan, að útlendir menn, sem stunda veiði hjer — við land, hafa að mestum hluta haft aðstöðu til þess að geta lagt veiði sína inn í þessar verksmiðjur. Þeir hafa orðið að sækja um heimild til ríkisstjórnarinnar til þess að fá þetta. Svo mikil brögð hafa verið að þessu, að innlendir menn hafa jafnan orðið síðastir í þeim viðskiftum, og sumir alls ekki komist að. Þetta er ein ástæðan til þess, að hjer verði hafist handa um að tryggja okkar útvegsmönnum slík viðskifti. Jeg vil benda á, að alt veltur á því, hvort þessi leyfi, sem hafa verið veitt í stríðum straumum, verði veitt áfram. Síðasta ár fengu 66 útlend skip slíkt leyfi. Þau áttu þátt í því, að okkar eigin útvegsmenn urðu að fleygja síldinni í sjóinn. Úr þessu verður að bæta, ef unt er. Jeg hygg, að af þeirri litlu reynslu, sem þegar er fengin um rekstur síldarverksmiðja, sje engin veruleg hætta á ferðum. Af þeim vörum, sem heyra undir sjávarafurðir, eru yfirleitt fáar vörur jafntryggar á heimsmarkaðinum og þessar: lýsi, síldarmjöl og fiskimjöl. Að dómi fróðra manna er altaf að aukast eftirspurn að þessum vörum. Menn hafa komist að raun um, að í landbúnaðarlöndunum hafa þessar vörur mikla þýðingu, því að þær eru að verða viðurkendar hið mesta kjarnfóður fyrir nautgripi, hvað mjölið áhrærir. Eina áhættan er sú, að veiðin er misjöfn. Hún stjórnast að langmestu leyti af veðráttunni. Ef veðrátta er hagstæð, má telja víst, að meðalafli fáist. Reynslan er sú, að veðráttan skapar síldveiðina. Það gæti því farið svo, að í illu árferði fengi verksmiðjan lítið verkefni. Við því er ekkert að segja, því að um leið og við viljum opna okkur möguleika til gróða, verðum við að taka áhættuna, sem þeim fylgja. En ef slíkt kæmi fyrir, eru miklar líkur til þess, að það vinnist upp með hærra verði á síldinni og síldar afurðum. Í þessu efni er sjaldan hægt að slá tvær flugur í einu höggi.

Jeg skal örlítið minnast á þá stefnu, sem fram kemur í áliti minni hl., sem mína persónulegu skoðun. Hún er sú, að þessi stöð sje reist af einstökum mönnum og ríkið leggi fram 1 milj. kr. lán sem tryggingu. Jeg verð að láta þá skoðun í ljós, og hún mun engum koma á óvart, að jeg hallast eindregið að því, að það verði ríkið eitt, sem verksmiðjuna reki. Við höfum enga tryggingu fyrir því, að verði á hrásíld verði ekki haldið óeðlilega langt niðri, ef verksmiðjan er í höndum einstakra manna. Það hefir bólað á þessu síðastliðið sumar. Mjög miklar líkur eru til þess, þó að ekki hafi fengist fullar sannanir, að síldarverðið hafi getað verið hærra en verksmiðjurnar gáfu. Við getum tekið til samanburðar það verð, sem Norðmenn gáfu. Það er sterk hvöt fyrir menn, sem við slíkan verksmiðjurekstur fást, að mynda, hagsmunahring um síldarverðið, til þess að skapa gróða. Hið almenna verð á hrásíld síðastliðið sumar var um 9 kr. fyrir málið. Önnur íslenska stöðin á Vesturlandi bauð ekki nema 8 kr. (ÓTh: Hún keypti fyrir 10 kr., 10,50 kr. og 11 kr.). Jeg hefi fyrir mjer framkvæmdarstjóra Walpole. Mjer er fyllilega kunnugt um það, að falast var eftir mörgum botnvörpuskipum hjer til að veiða í verksmiðjuna, en þau gátu ekki fengið nema 8 krónur fyrir síldarmálið hjá h/f „Kveldúlfi“, en fyrir það verð sögðust þeir framkvstj., er hlut áttu að máli, ekki geta látið skipin fara. En stöðin í Önundarfirði, sem Íslandsbanki starfrækti, borgaði 10 kr., enda hafði hún verri aðstöðu til þess að fá síld. Á Norðurlandi var 9 krónur það almenna verð. En ef það er rjett, að Norðmenn hafi haft ávinning af því að borga 14 kr. fyrir málið af verri síld, má nærri geta, hvaða sanngirni var í því verði, sem hjer var greitt. Síldarútvegsmenn geta tekið gróða af verksmiðjunum, þó að þeir skrifi tap af skipunum, sem hvorttveggja eiga. Það er ekkert, sem tryggir, að þetta eigi sjer ekki stað, nema því aðeins, að ríkið sjálft hafi útispjót með að vera sá eðlilegi hemill gegn slíkum samtökum. Þess vegna vil jeg, að ríkið byggi og starfræki stöð á Norðurlandi, og víðar, eftir því sem þörfin krefur.

Ef jeg hefði verið viðbúinn að taka til máls, mundi jeg hafa reynt að rökstyðja enn betur mitt mál. En málið var tekið svo fljótt á dagskrá, að við því varð ekki gert.