26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3651 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Magnús Guðmundsson:

Jeg minnist ekki, að heyrst hafi við umr. um þetta mál nein rödd frá hæstv. stj. Mjer sýnist hjer vera farið fram á að heimila stj. að stofna og starfrækja eins margar síldarbræðslustöðvar eins og henni gott þykir. Þetta er svo stórt mál, að það væri æskilegt að heyra eitthvað frá hæstv. stj. um það. Þess vegna vil jeg beina nokkrum spurningum til hennar. — Hversu mikið ætlar hún að gera að þessu, og ætlar hún að vinda bráðan bug að framkvæmdum? Ætlar hún að taka lán? Hefir hún hugsað sjer að leggja kapp á að fá þessa verksmiðju á leigu? — Það stendur hjer svo fallega í 3. gr. frv., að heimilt sje stj. að taka lán, sem greiðist af tekjum stofnunarinnar, o. s. frv. Nú gæti komið fyrir ár, sem gæfi engar tekjur af stofnuninni, og yrði þá ríkissjóður væntanlega að hlaupa undir bagga. Það hefir komið fyrir, að 2–3 ár hafa liðið svo, að síldarútvegurinn hefir ekki gefið neinn tekjuafgang. Þannig er ekki útilokað, að ríkissjóður verði að borga alt fje; sem fram er lagt í þessu skyni. Það virðist af ýmsu mega ráða, að þetta sje eitt — af því, sem hæstv. forsrh. hefir samið um við jafnaðarmenn bak við tjöldin. Það er svo sem ekki mikið að taka eina miljón að láni og setja í síld, þó að það þætti ábyrgðarleysi að vilja veita 300 þús. kr. til samgöngubóta á landinu (! ! !) Þetta er ágætt; það á að fara í síld! Það er ekki ástæðulaust, að. hv. þm. Borgf. kallaði þetta þing síldarþing. Þau eru ekki mörg lagaákvæðin um síld, sem ekki á nú að breyta. Það á að gera breytingu á matinu og tollinum, auðvitað ríkissjóði til tjóns, taka upp einkasölu á síld og loks á að byggja yfir hana!

Jeg vona, að hæstv. forsrh. geri grein fyrir, hvað hann hugsar sjer að gera í þessu efni, ef frv. verður samþ., sem víst má telja, svo og, hversu bráðan bug hann hugsar sjer að vinda að því.