26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3655 í B-deild Alþingistíðinda. (3368)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallason):

Hv. 1. þm. Skagf. verður að sætta sig við það, þótt stjórnin geti ekki gefið honum ákveðin svör, þegar aðeins eru fáar vikur síðan stjórnin fjekk upplýsingar um þetta mál, og nú er mesti annatími þingsins.

Það er dálítið ósamræmi í því, þegar háttv. þm. Dal. heimtar hina mestu varfærni í máli þessu, að þá um leið heimtar hv. 1. þm. Skagf., að allar ákvarðanir sjeu þegar gerðar um alt fyrirkomulag og rekstur bræðslustöðvarinnar. Jeg neita því algerlega að taka slíkar ákvarðanir, en háttv. þm. þarf ekki að óttast það, að ríkið stofni 20 bræðslustöðvar. (MG: En 10?). Heldur ekki. Jeg skil ekki, að ráðist verði í fleiri en eina bræðslustöð fyrir næsta þing, ef þá verður í nokkuð ráðist. En annars hafa engar endanlegar ákvarðanir verið teknar. Og hvernig er hægt að taka endanlegar ákvarðanir um leigu, þegar alls ekki er víst, hvort fært er að taka stöð á leigu? (MG: Ef það er ákveðið að vilja alls ekki taka bræðslustöð á leigu, er það hægt). Jeg er alls ekki viss um fyrirfram, að það sje nein frágangssök að leigja verksmiðjuna. En hv. 1. þm. Skagf. getur á engan hátt sætt sig við, að ríkið taki þetta mál í sínar hendur, en hann er til með að lána fjelagi útgerðarmanna rekstrarfje, jafnvel þótt þeir væru allir útlendir! (MG: Nei, þetta er rangt).