26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3664 í B-deild Alþingistíðinda. (3376)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Mjer þætti nokkurs um vert, ef hæstv. forsrh, sæi sjer fært að skýra deildinni frá því, hvort hann hugsar sjer, að bræðslustöðin verði starfrækt með því fyrirkomulagi, sem minni hl. hefir stungið upp á. Undir því svari hæstv. ráðh. er atkv. mitt komið. Jeg veit, að það liggur nokkur áhætta fyrir ríkissjóð í stofnun þessa fyrirtækis. en þó ekki meiri en svo, að jeg mun með atkv. mínu samþykkja þá áhættu. En ef hæstv. forsrh. getur ekki sagt um það, hvora starfræksluaðferðina hann muni aðhyllast, þá, sem minni hl. nefndarinnar leggur til, eða hina sem hv. frsm. meiri hl. hefir talað um, þá ætla jeg að greiða atkvæði móti frv., því að þá tel jeg áhættu ríkissjóðs gerða of mikla að óþörfu.