29.03.1928
Efri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3667 í B-deild Alþingistíðinda. (3386)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Við höfum leyft okkur, jeg og hv. 2. þm. S.-M., að bera fram brtt. á þskj. 575, viðaukatill. við 2. gr. frv. Í Nd. var borin fram líkt orðuð till. við greinina, en var þar ekki samþ. Við teljum það nauðsynlegt og eðlilegt, að annað eins stórmál og það, að afhenda verksmiðjuna, sem gert er ráð fyrir, að kosti um 1 milj. kr., sje borið undir Alþingi, áður en því verður ráðið til lykta. Þó það sje algengt, að stjórninni sje veitt heimild til að ábyrgjast lán og ráða sjálf tryggingum, eða ráðstafa eignum ríkisins, þá er hjer að ræða um bæði meira og stærra fyrirtæki en áður hefir þekst, að ríkisstjórninni væri gefið svo mikið vald yfir, og fæ jeg ekki betur sjeð en bæði sje eðlilegt og sjálfsagt, að vilji beggja þingdeilda komi til, ef á að fara að láta það af höndum. Mjer þykir ekki ósennilegt, að hv. þdm. þyki þessi brtt. sjálfsögð, því að jeg geri ráð fyrir, að varfærni sje svo ofarlega í huga þeirra, að þeir sjái nauðsyn þess að setja slíkar hömlur. Meðan ekki koma fram nein mótmæli, sje jeg ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þessa brtt.