29.03.1928
Efri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3669 í B-deild Alþingistíðinda. (3389)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Jón Þorláksson:

Það er varla von, að hæstv. dómsmrh. sje kunnugur þessu máli, enda liggur það allfjarri sviði mentamálanna, en þar mun hann helst hafa þekkingu. Jeg skal því gera nánari grein fyrir því, hvers vegna jeg álít það vera öllum fyrir bestu, að verksmiðjan verði í eign útgerðarmanna og ríkissjóði verði haldið fyrir utan þennan atvinnurekstur.

Líf og tilvera slíkrar verksmiðju er fyrst og fremst undir því komin, að hún fái næga síld til að vinna úr. Nú eru engin vandkvæði á að fá síld í góðum veiðiárum, og má segja, að ekki skifti máli, hver hefir eignarráðin þá, þegar kostur er á nægu hráefni. En þegar síldveiðin gengur treglega, verður harðsótt að fá næga síld. Það þarf því að tryggja fyrirtækinu þá aðstöðu, að það geti vænst þess að fá nóga síld, þó tregt aflist. Það verður best trygt með því, að útgerðarmenn eigi sjálfir verksmiðjuna. Hennar tap er þá þeirra tap og hennar gróði þeirra gróði. Það er aðhald fyrir útgerðarmenn að hlaupa ekki frá verksmiðjunni í litlum veiðiárum, þótt aðrar verksmiðjur bjóðist til að borga síldina yfir sannvirði, því að það getur verið minni skaði að kaupa síldina svo dýrt heldur en að starfa ekki. Ef ríkið ræki verksmiðjuna, þá mundu útgerðarmenn ávalt fyrst sjá sínum hag borgið og setja þá síldina í aðrar bræðslur strax og þær byðu hærra verð. Þær verksmiðjur, sem eru í eigu einstakra manna, hafa og margfalt hægari aðstöðu til að bjóða hátt verð. Jeg er sannfærður um, að á þessu fyrirkomulagsatriði veltur afkoma þessa. fyrirtækis. Í erindi, sem jeg flutti á fjölmennum fundi, stakk jeg upp á, að verksmiðjan verði rekin af samvinnufjelagi síldarútgerðarmanna. Það tryggir góða afkomu fyrirtækisins. Það byggist hvorki á trausti eða vantrausti á einstökum mönnum, heldur á almennu viðskiftalögmáli. Menn standa saman um eign sína, hennar tap er þeirra tap, hennar gróði þeirra gróði.

Hæstv. ráðh. lýsti því yfir — og telur sig væntanlega hafa umboð til þess fyrir stjórnarinnar hönd sem nokkurskonar yfirráðherra —, að núverandi stjórn mundi ekki nota heimildina til að afhenda verksmiðjuna. Ef á að taka þetta sem yfirlýsingu frá stjórninni, þá er það nóg til þess, að jeg neyðist til að greiða atkv. móti frv. Jeg álít það hreina fjeglæfra að leggja út í þetta fyrirtæki án þess að tryggja það, að útgerðarmenn standi fast um það.