03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3675 í B-deild Alþingistíðinda. (3398)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg vil leyfa mjer að beina til hæstv. forseta nokkrum orðum vegna þess, sem gerðist hjer í deildinni í gær og jeg þykist sjá, að ætli að endurtaka sig í dag. Jeg skal játa það, að jeg er ekki mjög fróður í þingsköpum. En jeg hjelt þó, að þm. mættu ekki vera langvistum frá þingi án þess að spyrja forseta leyfis. Ætla jeg því, að forseti muni hafa veitt þeim þm. heimfararleyfi, sem nú eru horfnir úr bænum. En sje svo, vænti jeg, að hann veiti mjer þá bæn að fresta því að láta deildina taka ákvörðun um þetta mál, þangað til þeir eru komnir aftur. Tel jeg mjög óviðeigandi að greiða atkv. um merk mál, þegar margir hv. þdm. eru fjarverandi. Í gær stóð svo á um eitt mál, að þm. þeir, sem ekki voru viðstaddir, hefðu með atkv. sínum ráðið öðrum úrslitum málsins. Vil jeg nú beina þeirri áskorun til hæstv. forseta, að hann láti ekki greiða atkv. um málið í dag, enda þótt það yrði rætt. Vænti jeg, að hæstv. forseti verði við þessari áskorun, og það því fremur, sem hann hefir áður frestað atkvgr., þegar svipað hefir staðið á.