03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3681 í B-deild Alþingistíðinda. (3407)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Ásgeir Ásgeirsson:

Tilgangur brtt. þeirrar, sem jeg flyt ásamt hv. þm. Mýr., liggur í augum uppi. Við viljum búa svo um, að það fjelag, sem kynni að taka við verksmiðjunni, sje og haldi áfram að vera opið öllum útgerðarmönnum. Ella er hætt við, að til lítilla bóta yrði breytt frá því, sem nú er, því að öll yfirráð í fjelaginu gætu þá safnast á hendur örfárra manna, uns landslýðurinn í heild sinni væri litlu eða engu bættari. Jeg játa, að brtt. þessi er nokkuð seint fram komin. En hún sýnir stefnu okkar flm. um þetta atriði. Og ef hæstv. stjórn gæfi einhverja yfirlýsingu um, að hún mundi taka tillit til þeirrar stefnu, sem tillagan veit í, mundi jeg geta sætt mig við það og tekið till. aftur til að hætta ekki málinu að öðru leyti.

Í rauninni er aðeins eitt ákvæði í þessu frv., sem nauðsynlegt er, að gangi fram nú. Það er ákvæðið um heimild fyrir stj. til að taka síldarverksmiðju á leigu. Jeg sje þess enga von, að bygging verksmiðju geti komist í framkvæmd, áður en við komum hjer saman aftur. Þess vegna ætti ekki að gera mikið til, þó að eitthvað yrði óákveðið í frv., eins og þetta þing afgreiðir það. Annars er jeg óánægður með, hve lítið er ákveðið um rekstur verksmiðjunnar, og sætti mig aðeins við það af þeim ástæðum, sem jeg hefi nefnt, og ef stjórnin telur sig fylgjandi þeirri stefnu, er við hv. þm. Mýr. höfum lýst yfir með till. okkar. samvinnuskipulag er sjálfsagt hjer, en ekki ríkisrekstur.

Ef ríkisrekstur væri hafður og lágt verð gefið fyrir síldina, mundu dynja skammirnar til ríkisins fyrir að gefa of lítið fyrir hrávöruna og láta útlendinga græða í skjóli ríkisverslunar. Ef verðið væri hátt, þá er áhætta ríkissjóðs mikil. Eitt af því, sem jeg vil láta felast í tillögu minni og hv. þm. Mýr., er það, að þetta fyrirtæki verði rekið með samvinnusniði þegar á þessu sumri, þannig að ríkið beri ekki áhættuna, heldur þeir, sem skifta við verksmiðjuna. En vegna síldarmálanna yfirleitt ber nauðsyn til þess, að varaákvæðið um heimild ríkisstjórnarinnar til að leigja verksmiðju á þessu ári gangi í gildi, og mun jeg því fallast á, að hæstv. stjórn lýsi yfir því, að hún sje því samþykk, að síldarverksmiðja, ef reist verður, verði aldrei seld í hendur öðru fjelagi en því, sem ræki fyrirtækið eftir lögunum um samvinnufjelög frá 1921.