03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3687 í B-deild Alþingistíðinda. (3411)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Hjeðinn Valdimarsson:

Mjer finst hv. 2. þm. G.-K. gerast nokkuð uppivöðslusamur hjer á Alþingi. Hann heldur langar tölur um það, hvenær eigi að taka mál af dagskrá, og hann skorar á forseta deildarinnar að fara ekki sinna ferða, af því að hann vilji ekki hlíta úrskurði annars manns, þótt hann sitji á löglegan hátt í forsetastóli. Hv. þm. lætur eins og hann eigi þingdeildina og geti hagað sjer hjer eins og í hlutafjelagi, sem hann er framkvæmdarstjóri fyrir.

Jeg sagði, að hv. þm. hefði haldið uppi umr. um þetta mál í klukkutíma. Jeg hygg, að þetta sje satt, því að með útúrsnúningum tókst honum að tefja umr. um klukkutíma eða meira.

Hv. þm. gerði sig mjög breiðan yfir því, að jeg vissi ekkert um sölu lóðarspildunnar, sem Reykjavíkurbær vill kaupa af Frökkum. Það eru samt fáir menn kunnugri því máli en jeg, þar sem jeg átti sæti í þeirri nefnd, sem samdi við franska ræðismanninn. Hinsvegar veit hv. 2. þm. G.-K. ekki nokkurn skapaðan hlut um þetta mál, svo að hann talar gersamlega út í bláinn, eins og hans er vandi. Franska stjórnin heimtar, að til þess að salan geti farið fram, þurfi að koma sjerstök lagaheimild. Hjer liggur fyrir lagafrv. um í fyrsta lagi að kaupa og koma upp síldarbræðslustöð og í öðru lagi heimild til þess að selja hana hvenær sem er og hverjum sem er án vilja þingsins. (MJ: Já, það liggur fyrir lagaheimild. Hvað vill þm. meira?). Almenn heimild en ekki sjerstök, er að sölu kemur, svo að þingið geti áttað sig á öllum aðstæðum. Það er eins og hv. þm. sje orðinn svo þjáður af samvinnunni við okkur jafnaðarmenn, að hann vilji fallast á flesta hluti með andstæðingum sínum, ef hann með því getur felt eitthvað fyrir okkur. Jeg vil benda á, að till., sem við bárum fram í Nd., er ekki aðeins jafnaðarmannatillaga, því að hún var samþ. í hv. Ed., og þar eru bara tveir jafnaðarmenn.

Jeg hygg, að óþarfi sje að deila um rekstur þessa fyrirtækis, því að það eru engar horfur á, að það verði komið upp fyrir næsta þing. Jeg vil taka það fram, að þó að háttv. 2. þm. G.K., hv. þm. V.-Ísf. og fleiri sjeu sammála um, að best sje að hafa fyrirkomulagið þannig, að sem minst áhætta hvíli á verksmiðjunni og útgerðarmennirnir fái alt nema umboðslaun fyrir vinsluna, álít jeg þetta mjög varhugavert. Jeg held, að best sje, að ríkið reki sjálft verksmiðjuna á eigin áhættu og ábyrgð. Þetta atriði mun jeg þó ekki láta fæla mig frá að greiða frv. atkv. í þetta sinn, og er jeg þó sáróánægður með það.

Jeg vil beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. V.-Ísf., af því að jeg heyrði, að hann bað um orðið, hvort það sje ekki rjett skilið hjá mjer, að meining brtt, hans sje sú, að ef um samlag eða samvinnufjelagsskap sje að ræða, þurfi þau að standa á grundvelli samvinnulaganna, þannig að þau geti ekki selt öðrum fyrirtækjum en þeim, sem eru stofnuð á grundvelli samvinnulaganna. Jeg verð þó að segja, að eins og áliðið er þings, get jeg ekki greitt þeirri tillögu atkvæði.