03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3693 í B-deild Alþingistíðinda. (3414)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil taka undir það, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði. Það er einmitt verkefni bænda að skipulagsbinda með löggjöf þennan atvinnuveg. Ef skýrsla sú, sem samin var um þetta mál, hefði ekki komið svona seint fram, þá hefði stjórninni máske unnist tími til að undirbúa málið betur. Þá hefði hún talið sjer skylt að bera fram ásamt þessu frv. annað frv., er nánar hefði kveðið á um skipulag þessara mála. Jeg er því alveg sammála hv. þm. um, að það beri að leggja fyrir næsta þing.

Þá vildi jeg, í eitt skifti fyrir öll, segja fáein orð til hv. þm. Dal. Jeg hefi oft í vetur hlustað með mikilli þolinmæði á álíka ræður og þá, er hann hjelt nú, án þess að svara þeim einu orði. Það hefir oft hrygt mig, að maður í jafnábyrgðarmikilli stöðu og hv. þm. er skuli hafa haldið í mörgum stórmálum, sem hjer hafa verið til meðferðar, svo óþolandi glamurkendar ræður og fullar af leikaraskap, sem þessi ræða hv. þm. var. Það hefir hrygt mig, að hv. þm. telur sig færan um að kenna öðrum varfærni, sem sjálfur á einhverja hina mestu glappaskotasögu að baki sjer. Þarf ekki annað að nefna því til sönnunar en það, að hv. þm. hefir sem bankastjóri veitt lán til fyrirtækis, sem á hefir tapast hundruð þúsunda króna á einu ári, því fyrsta.

Þá er annað atriði, sem bendir á, hve innihaldslaust glamur þessar ræður hv. þm. eru. Hann er að draga dár að þeim flokki hjer í þinginu, sem hefir stuðning jafnaðarmanna, og fer algerlega óviðeigandi orðum um flokkinn vegna þess. En það sýnir best, hver hugur fylgir máli hv. þm., þegar þess er gætt, að enginn hefir legið eins flatur á hnjánum fyrir jafnaðarmönnum sem einmitt þessi háttv. þm. Einu sinni langaði hv. þm. til að verða borgarstjóri hjer í Reykjavík og bað þá um og fjekk fylgi jafnaðarmanna, og tvisvar, er hann vildi ná þingmensku, var það sem hv. þm. skreið flatur á hnjánum fyrir jafnaðarmönnum og bað þá fulltingis. Þá var það ekki hættulegt í augum hv. þm. að þiggja stuðning jafnaðarmanna. —

Jeg hefi nú beðið með þolinmæði undir hinum mörgu samskonar ræðum þessa hv. þm. í allan vetur. Mjer fanst rjett að kvitta einu sinni lítillega fyrir það, sem er aðalefni allra ræðna hans. Jeg hefi nú gert það og mun sennilega ekki gera það oftar á þessu þingi.