03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3695 í B-deild Alþingistíðinda. (3415)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Jón Sigurðsson:

Jeg vildi segja nokkur orð um þetta mál, þótt ekki hafi jeg neina sjerþekkingu á því. — Það sagði einhver hjer í hv. deild á dögunum, að þetta þing væri sannnefnt síldarþing, og mun það ekki vera fjarri rjettu lagi. Mjer telst svo til, að 7 frv. hafi verið borin fram, er á einhvern hátt lúta að síldarútveginum og honum til hagsbóta á einhvern hátt. Aftur hafa ekki verið borin fram nema 9 frv., er snerta landbúnaðinn. Ef litið er aftur á móti á fjárhagshlið þessara frv., kemur í ljós, að stjórnarflokkarnir leita heimildar fyrir stj. til þess að verja um 1100 þús. kr. til síldarbræðslustöðvar og annara síldarmála. En til landbúnaðarmála leitar stjórnarflokkurinn heimildar til að verja aðeins 335 þús. kr., hvorttveggja utan fjárlaga. Það er freistandi að leggja nokkuð út af þessum tölum, en jeg mun þó ekki gera það í þetta sinn; tölurnar tala sínu máli. En hitt er umtalsefni, sem ekki verður komist hjá að minnast á, afstaða sumra hv. þdm. úr stjórnarflokkunum og hæstv. forsrh. til þessa frv., og þá einkum til till. um að reka Síldarverksmiðjuna á samvinnufjelagsgrundvelli. Það er t. d. ekki langt síðan fulltrúar Framsóknar og jafnaðarmanna í sjútvn. báru fram þá till. að fella niður úr 2. gr. ákvæðið um. að stjórnin mætti selja síldarbræðslustöðina Samvinnufjelagi útgerðarmanna. Jeg er undrandi yfir, að þessi till. skyldi koma fram. Mjer finst það koma úr hörðustu átt, að stjórnarflokkurinn, sem hefir talið samvinnustefnuna sem sitt höfuðstefnumál, legst á móti því, að þetta verði gert að samvinnufyrirtæki og er kominn það langt að meta meira ríkisrekstur sósíalistanna. Jeg tel, að það sje skylda okkar samvinnumanna að fella þetta úr frv. og að taka upp till. hv. þm. V.-Ísf. Og þótt hann sje ánægður með svör hæstv. forsrh., þá er jeg það ekki, og meðal annars af þeirri ástæðu, sem hæstv. forsrh. sjálfur hefir fært fram, að hann getur fallið frá áður en til framkvæmda kemur um lagfæringu þessa máls. Þetta er mín skoðun, og hefi jeg lýst henni til þess að það sjáist, hvers vegna jeg tek till. hv. þm. V.-Ísf. upp. — Það getur líka orðið nógu gaman að sjá samvinnumennina hjer í hv. deild drepa hana.