03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3696 í B-deild Alþingistíðinda. (3416)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Sigurður Eggerz:

Jeg vil fyrst svara hv. þm. V.-Ísf. nokkrum orðum. Hann talaði um, að hann vildi, að verksmiðjan yrði rekin á samvinnugrundvelli. En eru nú líkur til þess, að samvinnufjelag fengist til að reka verksmiðjuna? Reynt hefir áreiðanlega verið að fá samvinnu milli útgerðarmanna um síldarstöð, en hún tókst ekki; að vísu var ekki samvinnusnið á þeim fjelagsskap. Mjer er ekki ljóst, hvort þetta fjelag átti einnig að kaupa verksmiðjuna. Jeg þykist því hafa rjett til að halda mjer við frv. og gera ráð fyrir því, að svo framarlega, sem stjórnin byggir, þá verði þar um ríkisrekstur að ræða, þar sem engar líkur eru færðar fyrir neinu öðru.

Þá var það hæstv. forsrh., sem rjeðst fast að mjer. Jeg hafði framið þá goðgá að vara við hættu, sem ríkissjóði gæti stafað af þessu frv. Hæstv. forsrh. þótti það ekki sitja vel á mjer, þar sem Íslandsbanki hefði komið verksmiðjunni á Önundarfirði á fót. — En mjer er spurn: Er það ekki eðlilegt, að jeg einmitt eftir þá reynslu, sem jeg hefi fengið, varaði þingið við áhættunni? Hæstv. ráðh. talaði þungum orðum um verksmiðjuna. Jeg hefi að gefnu tilefni áður skýrt frá ástæðum fyrir því, að verksmiðjan var sett á stofn. En jeg get endurtekið það, að Íslandsbanki átti þarna útistandandi mikið fje, sem hann vildi reyna að bjarga. Rekstur lítillar verksmiðju hafði gengið sæmilega á þessum stöðvum árið á undan, en verksmiðjan var að öllu leyti mjög aftur úr að öllu fyrirkomulagi. Nýtt hlutafjelag var myndað með 100 þús. kr. að mig minnir, og í stjórn þess voru teknir menn úr jafnvelmetnum fjelögum eins og Alliance og Sleipni.

Gamla síldarverksmiðjan var umsköpuð í nýtt snið, og vonaði bankinn, að hann gæti með þessu náð inn gömlu skuldinni, er jeg skýrði frá. Bankinn lofaði fjelaginu aðeins rekstrarfje. Fyrsta árið fór svo hörmulega; framleiðslan varð 3. eða 4. flokks, og varð því mjög mikið tap á fyrsa árinu, svo rekstrarfjeð fjekst ekki endurborgað, eins og gert hafði verið ráð fyrir; mörg fleiri óhöpp komu. Síðan hefir fyrirtækið gengið betur, en áhættan í þessum fyrirtækjum er ekki lítil, þegar stórfje getur tapast á ekki ári. Hæstv. forsrh. var að víta mig fyrir þetta. En ef um vanrækslu er að ræða frá bankans hálfu, þá getur hæstv. ráðh. vítt það annarsstaðar en í þingsölunum. Og jeg hygg, að hæstv. ráðherra myndi ekki gráta það, þótt hann fengi tækifæri til þess að ýta mjer burt, því hæstv. stjórn mun vilja, að þeir, sem skipa stöðurnar í þjóðfjelaginu, sjeu góðu börnin. En hún má vita það, að í stjórnmálunum mun jeg ekki taka tillit til annars en samvisku minnar.

Það var sem komið væri við hjarta hæstv. forsrh., þegar jeg benti á, að það væri ekki í anda bændastjettarinnar í landinu, að ríkissjóður væri dreginn inn í þá áhættu, sem þessum málum er samfara. Jeg veit, að hæstv. ráðh. er reiður yfir því, að jeg benti fast á það, að úti um sveitir landsins mundu menn hafa búist við einhverju öðru en að ríkissjóðurinn væri dreginn inn í síldina.

Hæstv. ráðh. sagði, að jeg hefði skriðið fyrir jafnaðarmönnum. Hjer er farið með hin mestu ósannindi. Aldrei hefi jeg gengið eftir eða beðið jafnaðarmenn um nokkurn stuðning. Hitt er annað mál, að jafnaðarmenn báðu mig að bjóða mig fram sem borgarstjóra hjer í Reykjavík. Og sagði jeg tvisvar nei við því, en ljet þó loks til leiðast. En auðvitað var jeg beðinn um þetta sama úr öðrum flokkum. Síst mundi þetta verða talið mjer til ámælis — fremur finst mjer það vera vottur um traust. Mjer þykir það hart, að sjálfur hæstv. forsrh. skuli beita öðrum eins ósannindum gegn mjer og þetta eru.

Hann sagðist vera hissa á því, að maður, sem hefði verið og væri í jafnábyrgðarmikilli stöðu og jeg, talaði á þá leið, sem jeg gerði. En hvað hefi jeg þá sagt? Jeg sagði, að verksmiðjurnar, eins og málið lægi hjer fyrir, væru áhættufyrirtæki. Eru þetta glamuryrði? Eða hver eru þau glamnryrði, sem hæstv. forsrh. talar um? Eða er hægt að segja, að einn af fulltrúum þjóðarinnar fari með glamur, þegar hann heldur sjer að því, sem hann getur undirbygt með rökum, og stendur þannig fullkomlega föstum fótum í veruleikanum?

Jeg veit, að hæstv. forsrh. muni sjá það, þegar hann hefir fengið sömu þekking á þessum málum, sem jeg hefi, að hjer er um miklu alvarlegra mál að ræða en hann heldur.

Jeg er ekki neitt hræddur við framkomu mína hjer á þessu þingi. Jeg hefi að vísu staðið einn, en jeg hefi þorað að standa fast við mína eigin skoðun á málunum. En jeg er alveg sannfærður um, að best væri, að sem flestir myndi sjer sjálfstæða og fasta skoðun á málunum. Jeg er alveg viss um, að slík mál, sem við höfum rætt hjer síðustu dagana, eru þess eðlis, að þjóðin krefur fulltrúa sína reikningsskapar í þeim. Jeg er viss um, að það er að verða stefnubreyting í landinu. Ýmsar þær grundvallarreglur, ekki einungis í fjármálum, heldur yfirleitt í þjóðmálum, sem hingað til hafa, verið hafðar í heiðri, er nú verið að brjóta. Og jeg held, að hæstv. forsætisráðherra, væri meiri þörf á því að nota páskafríið til þess að athuga í kyrð og ró, hvar hann stendur í stjórnmálunum, heldur en að hlaða ósannindum yfir mig hjer í hv. deild. Jeg er viss um, að nú er verið að hrinda honum út í ýmislegt, sem hann mun síðar sjá, að ekki er rjett, og jeg held, að hann hefði betra af því að nota páskana til þess að rifja upp sín fornu fræði og halda sjer við hið góða og gamla, sem hann hefir hingað til bygt á, í stað þess að gera ýmislegt, sem hann má frekar án vera.