03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3700 í B-deild Alþingistíðinda. (3417)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Út af því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, skal jeg taka það fram, að mjer þykir vitanlega gott að hugsa til þess, að hann vill verða hjálplegur til þess að láta reka þessa verksmiðju á samvinnugrundvelli. Annars vil jeg benda hv. þm. á það, að í 40. gr. þingskapa stendur, að frv., till. til þál. og brtt. megi kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill, en heimilt sje hverjum þm. að taka þær jafnskjótt upp aftur. Nú liðu 3–4 ræður frá því að hv. þm. V.-Ísf. tók brtt. sína aftur og þangað til hv. 2. þm. Skagf. tók hana upp. Sýnist mjer því a. m. k. nokkurt vafamál, hvort till, megi koma til atkv., en skýt því annars undir úrskurð hæstv. forseta.

Jeg vil ekki fara í neitt orðaskak við hv. þm. Dal., en jeg vildi sýna honum þann sóma, þegar jeg hafði hlustað á 20–30 ræður, sem mjer líkaði illa, að segja honum þá einu sinni, hvernig mjer þættu ræðuhöld hans. En í illdeilur við hann ætla jeg ekki. Jeg held, að hv. þm. hafi sagt 4 sinnum í ræðu sinni, að hann væri ekki hræddur. (SE: Jeg get sagt það í 5. skiftið). Jeg er hissa, á þessu, því að mjer sýndist á tilburðum hv. þm., að hann væri einmitt hræddur. En annars var það ekki tilgangurinn að hræða hv. þm., og jeg held, að hann þurfi ekki að vera neitt hræddur, því að það ætlar víst enginn að gera honum neitt ilt. Annars held jeg, að það, sem hv. þm. sagði um sambúð sína við jafnaðarmenn, verði fróðlegt fyrir seinni tíma sagnaritara, þar sem hann hefir einu sinni verið frambjóðandi þeirra og tvisvar vonbiðill. Jeg held þó, að því fari fjarri, að hv. þm. hafi verið eins ófús til upphefðarinnar og hann ljet, og jeg verð að segja, að mjer datt í því sambandi í hug sagan um refinn og vínberin.

Hv. þm. sagði, að jeg þyrfti nú um páskana að athuga, hvar jeg stæði. (ÓTh: Einkum á föstudaginn langa). Það má vel vera, að jeg gangi einhverntíma inn fyrir bæinn, eins og jeg geri stundum, og jeg býst við, að þá muni blasa við mjer, sem minnismerki um hv. þm., vegagerð, sem hann stofnaði einu sinni til. Og jeg býst við, að jeg láti mjer það verða til viðvörunar um það, að standa aldrei nálægt eða að halla mjer að slíkum mönnum sem hv. þm. Dal.